fimmtudagur, september 30, 2004

Þá er ég gengin í EAS. Já, fór í prufu fyrir Edinburgh acting School í kvöld og komst inn. Ekki veit ég afhverju, þar sem ég hef nú lesið þetta betur, fipaðist örlítið fyrst í mesta stressinu en svo lagaðist það nú. Allavega þá fékk ég mikið hrós og var boðin velkomin með það sama, skólinn byrjar á mánudaginn. Meðal annars þótti ég hafa góða rödd, ég sem er enn að jafna mig eftir hálsbólgu. Það má kannski taka það fram að það var enginn annar en Earnest, eftir góðvin minn Oscar Wilde sem hjálpaði mér að komast inn.
Ég er viss um að djúpur skilningur minn á ævi Wilde, sem ég öðlaðist við fyrirlestrargerð með Lilju, hafi átt sinn þátt í velgengni minni. Ég og Lilja lifðum okkur að minnsta kosti ansi mikið inn í verkefnið, vorum farnar að leita uppi afkomendur Oscars og ég veit ekki hvað.

Nóg um það. Það lítur út fyrir að ég verði að passa hjá Habbý á laugardagskvöldið, hmm orðinn fastur liður. Þó mun ég neita ef partýið hennar Soffíu reynist vera það kvöld, veit það ekki enn. Svo er spurning hvort ég bíði ekki aðeins lengur með jólagjafakaup, þarf að borga leiklistarskóla og verð þar af leiðandi bláfátæk kona.
Að öðru leyti hef ég það fínt, er greinilega farin að gera mig heimakomna hér. Hef vísað nokkrum túristum til vegar og svo stóð ég mig að því að segja"thank u" í dag..

miðvikudagur, september 29, 2004

Ég er ekki orðin frísk. Mér þykir það ekki skemmtilegt. Þetta ætti að nægja sem blogg dagsins, og þó... Síðustu tveir dagar hafa liðið við hálsbólgu og önnur skemmtilegheit. Ég hef þó tekið þessu ástandi af karlmennsku, ekkert legið í rúminu og sinnt minni vinnu.

Ég vonast þó til að ég fari að ná fullri heilsu. Það er partý hjá Soffíu um helgina og ég lofaði Malenu og Johönnu að þær mættu koma með mér. Það verður örugglega mjög gaman og vonandi að allir nái að kynnast betur.
Einnig ætla ég að eyða helginni í búðarráp og ekki seinna vænna en að fara að kaupa jólagjafir, ráðleggur Soffía. Því vil ég að fólk noti gestabókina mína sem óskalista, það er ekki eins og hún sé notuð í annað! Einnig vil ég vita hverjir hafa hugsað sér að skiptast á jólagjöfum við mig, gestabókin má líka notast í það. T.d Lilja og Inga sem verða á hafsauga um jólin, viljið þið gjafir? Er við símann (gestabókina) núna..

mánudagur, september 27, 2004

Ég er lasin í dag. Það er alveg ótrúlega leiðinlegt. Lá í rúminu í allan morgun en batnaði ekkert við það. Náði svo í Kjartan á leikskólann en Habbý tók hann yfir í smá stund svo ég geti haldið áfram að liggja í rúminu. Að vera lasin er ótrúlega leiðinlegt en af einhverjum ástæðum er miklu leiðinlegra að vera lasin í Edinborg heldur en Íslandi. Hef enga eirð í mér til að liggja í rúminu.

Gærdagurinn var þó öll betri. Ég fór í bíó kl tólf að hádegi á Pretty woman. Það var verið að sýna gamlar myndir ódýrt og tilvalið að skella sér. Ég fór með stelpunum sem eru ekki sænskar, heldur eru þær Malena og Johanna sænskumælandi Finnar, best að hafa það á hreinu. Það var fínt að hitta þær og eftir bíó fengum við okkur pitsu. Spjölluðum heilmikið, hef ekki talað svona mikla ensku síðan ég kom.
Í gærkvöldi hringdu svo mamma, pabbi og Sindri og gengið var frá flugfarinu mínu heim um jólin. Ég mun lenda á Akureyri rétt fyrir sex, þann 21. desember og verð heima öllum til ánægju og yndisauka í tíu daga. Það sem veldur mér örlítið minni ánægju er að ég legg af stað héðan frá Darnell road kl 5 að morgni svo þetta ferðalag mun taka 13 tíma. Það er vegna þess að ég flýg frá Edinborg til Stansted og þarf svo að bíða þar í fleiri tíma þar til ég flýg til Íslands. En þetta verður hið besta mál, þolinmæði mín og hin ljúfa lund sem ég er þekkt fyrir munu koma mér í gegnum þetta með bros á vör.
Nú verð ég að skríða upp í rúm, hausinn er að springa!

sunnudagur, september 26, 2004

Svei mér þá ef ég fann ekki bragðið af heimahögunum þegar ég gæddi mér á saltfisknum í gær. Þetta var mjög svo góður, brimsaltur fiskur sem hann Ögmundur eldaði af stakri list. Reyndar var matarboðið hjá hjónunum Hafrúnu og George sem Eva er hjá, en Akureyringunum Hildigunni og Ögmundi var boðið í mat. Þar sem Ögmundur hefur svo gaman af að elda sá hann um það. Reyndar komst ég að því að Ögmundur og pabbi voru saman í skóla og átti ég að skila kveðju til pabba sem ég geri hér með.
Eftir þessa afbragðsmáltíð vorum við Eva ekkert að flýta okkur, spjölluðum bara við fólkið í rólegheitunum. Síðan var förinni heitið út á lífið þar sem við hittum Soffíu og Emmu vinkonu hennar. Þær voru því miður umkringdar ómyndarlegum karlmönnum sem vildu einnig kynnast okkur Evu. Ég hef enga þolinmæði í svona lagað. Því fór ég snemma heim, en áður hitti ég sænsku stelpurnar, þær Malenu og Jóhönnu. Ég hafði ekkert séð þær frá því við hittumst fyrst og við skiptumst á númerum og spjölluðum saman. Það getur verið að ég fari í bíó með þeim í kvöld sem er hið besta mál.

Í morgun vaknaði ég svo vitanlega um 8 við hann Kjartan. Ég held ég kunni ekki lengur að sofa út. Í morgunmat fékk ég skoskar pönnukökur með grilluðum nektarínum og rjómaosti. Þær brögðuðust bara vel og gaman að smakka eitthvað skoskt.
Ég verð að játa að ég er að verða löt, ég nenni ekki í ræktina, geisp...


laugardagur, september 25, 2004

Ég átti ágætis kvöld á fimmtudagskvöldið. Fínustu lög í karókí en mjög misjafnir flytjendur. Af einhverjum ástæðum fór ég að tala um fótbolta við Richard sem endaði með því að hann lofaði að skipuleggja ferð til Newcastle svo ég gæti séð goðið mitt spila, þetta er nú síðasta tímabilið hjá honum. Þar sem enginn af okkur var undir áhrifum þetta kvöld er ekki hægt að skrifa þetta á ölæði. Aldrei að vita nema alvara verði úr þessari ferð.

Afi Kjartans kom í gær svo ég var búin snemma sem var hið besta mál. Hinsvegar þurfti ég að passa fyrir Habbý um kvöldið sem gekk vonum framar. Börnin voru eins og englar og ekkert mál að koma þeim í rúmið. Sæmsi Palli lýsti þó yfir vilja sínum yfir að ég myndi gista, honum fannst hinn mesti óþarfi að ég færi þegar foreldrar hans kæmu heim. Þrátt fyrir þetta freistandi boð ákveð ég frekar að labba heim og freista þess að sofa til níu í stað sex sem gekk eftir.
Soffía var svo elskuleg að koma yfir til mín þegar börnin voru sofnuð og við gerðum heiðarlega tilraun til að horfa á sjónvarpið sem er reyndar ógjörningur um helgar því dagskráin er svo léleg. Ég smakkaði líka þann versta drykk sem um getur, skoskt diet kók, kælt með ísmolum úr skosku kranavatni, mæli hreint ekki með því.
Þegar Habbý og Simon komu heim barst í tal að þau eru að fara til Írlands helgina 4-7 nóvember. Þegar þau fréttu að Styrmir kæmi þá, kom ekki annað til greina en að lána okkur húsið. Það er bara ekki eðlilegt hvað sumt fólk getur verið elskulegt. En heilt hús útaf fyrir okkur, ég kvarta ekki.

Rétt í þessu hringdi Eva í mig og bauð mér í mat til sín í kvöld. Það verður íslenskur saltfiskur hvorki meira né minna. Svo förum við heim til Richards seinna í kvöld og jafnvel út á lífið...

fimmtudagur, september 23, 2004

Ég komst ekkert í tölvu í gærkvöldi sem var hið versta mál. Í staðinn horfði ég á sjónvarpið á afar áhugaverðan þátt sem heitir Nip/Tuck. Mér varð sífellt hugsað til föður míns meðan á þættinum stóð þar sem stjarna þáttarins er enginn annar en Cole úr Charmed. Hef ekki hugmynd um hvað leikarinn heitir en ég og pabbi gerum stanslaust grína að honum. Lélegri leikara er erfitt að finna og stóð hann sig ekkert betur í þessum þætti en Charmed, sami frosni svipurinn. Ekki bætti úr skák að hann leikur töffara sem flekar hverja konuna á fætur annarri á milli þess sem hann sinnir starfi sínu sem lýtalæknir. Ég get séð fyrir mér svipinn á föður mínum ef hann hefði slysast til að sjá þennan þátt!

Ég verð að lýsa því yfir að ég er algjörlega sammála honum Ævari í sambandi við busun í Menntaskólanum á Akureyri. Í fyrra greip um sig móðursýki á hæsta stigi hjá skólayfirvöldum sem gerði það að verkum að busun var nánast bönnuð. Þökk sé Ævari og nokkrum öðrum fengum við, þáverandi 4. bekkingar þó einhverja smá busun en allir kvörtuðu yfir hvað hún var léleg. Fólk hefði átt að hugsa út í það að við máttum ekkert og því erfitt að gera þetta spennandi. Núna hinsvegar hefur móðursýkiskastið liðið hjá og 4.bekkur gat haft þokkalega busun skilst mér. Skemmtilegt að vera í eina árgangnum í MA sem aldrei fékk að busa....

Þá er komin tími til að reyna að hressa sig upp fyrir kvöldið. Ég upplýsi hér með að ég ætla ekki að syngja svo allar vonir um að ég geri mig að fífli eru orðnar að engu. Það verður þó væntanlega mjög gaman að sjá aðra gera sig að fífli á þessum fræga karókíbar. Að sögn Soffíu er ekki óalgengt að fólk geri það..

þriðjudagur, september 21, 2004

Ég er ekki viss um að hinn nýji lífstíll, ræktin eigi við mig. það lítur út fyrir það að ég sé tognuð í lærinu og hnén eru ónothæf, ætli maður sé ekki að verða gamall.
Síðustu tveir dagar hafa verið mjög viðburðarlitlir. Sofa borða, ræktin, Kjartan og því ætla ég ekki að þreyta neinn með lýsingum á því. Þó er von á breytingum, (eins og segir alltaf í stjörnuspám) ég mun halda út á lífið á fimmtudagskvöld, vopnuð Soffíu, Evu og Richard. Við ætlum á Bandiogi sem er karókíbar. Það skemmtilega við hann er að það er lifandi tónlist undir. Húsbandið sér um tónlistina og allir að syngja.

Heima á Íslandi er auðvitað allt í volæði. Svo vill fara þegar mikilvægar manneskjur flytja úr landi. Kennaraverkfallið lítur út fyrir að vera óleysanlegt og vekur það mikinn fögnuð hjá krökkunum. Tengdó og Hildigunnur eru þó ekki eins ánægðar, nú þurfa þær að gera það sama og ég, vera heimavinnandi húsmæður. Munurinn er bara sá að þær fá ekki laun. Svona getur lífið verið erfitt.

Því miður er veðrið farið að versna, það er svo hvasst að ég varð að setja upp húfu í dag. Skotarnir góndu á mig þar sem ég gekk um með húfuna, þeir vita nefninlega ekki hvað hlý föt eru. Þegar veðrið er vont halda þeir sig innandyra. Undarlegt fólk, Skotarnir...

mánudagur, september 20, 2004

Endalaus gleði í gangi. Er komin með nýja gestabók sem er algjörlega laus við perra. Þið megið hefja skriftir gott fólk, spennandi að sjá hver verður fyrstur...

Mér er farið að förlast. Gleymdi alveg að hrópa út gleðifréttir helgarinnar. KA menn urðu í neðsta sæti Landsbankadeildarinnar og eru því fallnir með skömm. Það skyldi ekki koma neinum á óvart því spilamennska þeirra gulu og bláu hefur verið með lakasta móti í sumar. Hafa þeir einnig orð á sér fyrir að spila einstaklega leiðinlega knattspyrnu!

Þótt ótrúlegt megi virðast tókst mér að koma Helgu og Sæmsa í rúmið á laugardagskvöldið og þau voru sofnuð fyrir hálf níu. Ég kom mér því þægilega fyrir í sófanum hjá Habbý, borðaði yfir mig af pitsu og horfði á sjónvarpið. Mér fannst reyndar pínlegt þegar sendillinn kom með pitsuna, ég hafði nefninlega líka pantað pitsu kvöldið áður og þetta var sami sendillinn. Ég reyndi að horfa sem mest til hliðar auk þess sem ég breytti framburðinum í von um að þekkjast ekki. Ég hefði ekki afborið þá skömm að maðurinn hefði borið kennsl á mig.

Sunnudagurinn var hinn besti dagur. Ég hélt áfram meginþema helgarinnar sem var át. Fór ásamt Soffíu og Richard á China China, sem er kínverskur staður eins og nafnið gefur til að kynna. Þar borguðum við skitin 5 pund fyrir hlaðborð, ég kom hnöttótt út.
Ég og Soffía ákváðum að reyna að ganga þetta af okkur sem endaði með bíóferð. Eftir bíó gengum við heim og Soffía upplýsti mig um að ég mætti aldrei ganga þennan veg ein í myrkri.Á leiðinni var hún sífellt að líta aftur fyrir sig, mér stóð nú ekki á sama. Heim komst ég þó heil á húfi og var á msn frameftir kvöldi. Þar hitti ég meðal annars Tinnu sem er að íhuga að kíkja í heimsókn 1. okt ef hún getur. Nú er bara að bíða og vona...

föstudagur, september 17, 2004

Helgin er framundan, en lítið um frí hjá mér. Ég er að passa í kvöld og svo fyrir Habbý annað kvöld. Reyndar er Kjartan sofnaður þessi líka engill.
Ég hef haft nóg að gera í símanum síðustu tvo daga, yrði ekki hissa ef hann væri gróinn fastur við eyrað á mér. Talaði við pabba, mömmu og Sindra í gær, í hálftíma við hvert þeirra. Öll höfðu þau mikið að segja, þó aðallega bróðir minn sem glímir nú við raunir unglingsáranna. Hann þykist vera orðinn 168 cm á hæð sem ég neita staðfastlega að trúa, hann er nú einu sinni litli bróðir minn.
Svo hringdi amma áðan, það var nú gott að heyra í "gömlu" konunni, ég notaði vitanlega tækifærið til að reyna lokka hana í heimsókn einhvertíman. Eftir örskamma stund hringir Ragnheiður, hin andlega litla systir mín svo ég þarf ekki að óttast að ég sé gleymd.

Var að flækjast um netið í dag og sá þá að ég gat lesið Fréttablaðið í heild sinni, þann göfga snepil. Fréttaþyrstur Íslendingurinn hóf samstundis lestur og viti menn, þarna var mynd af Dabba að skipta við Halldór. Sýndist mér Dabbi heldur súr á svipinn og eiga bágt með að leyna því. Illur leysir vondan af, segir máltækið (sem ég var að búa til).
Ætli þetta verði ekki að duga að sinni.

miðvikudagur, september 15, 2004

Þá er þolinmæðin á þrotum. Nýjasti perrinn í gestabókinni minni hefur komið sér þannig fyrir að þegar maður opnar gestabókina birtist strax síða perrans. Því er hún ónothæf, hvorki hægt að skrifa í hana né lesa. Ég ætla að reyna að taka þessu með jafnaðargeði, hugsanlega mun ég nú ætlast til að fólk sendi mér póst reglulega þó ekki væri nema til þess að heilsa.

Gærdagurinn fór í að passa bæði Kjartan og Sæmsa sem gátu ómögulega leikið sér saman. Skil ekki hvernig þeim dettur í hug að þeir séu vinir blessaðir, grenja undan hvor öðrum endalaust. Ég var uppgefin eftir daginn en fór þó í sund með Soffíu og Richard.
Þegar í sundið var komið kom mér margt spánskt fyrir sjónir. Það voru skápar fyrir fötin, frekar sóðalegir þó, og þurfti maður að borga fyrir að nota þá. Ekki var hægt að afklæðast þar heldur inn í litlum einstaklingsklefa og þar inni var skylda að fara í sundbolinn. Það var nefninlega harðbannað að fara í sturtu nakin. Ég hristi bara hausinn en Soffía ráðlagði mér að fylgja reglunum vegna þess að annars gæti ég fengið sekt.
Það var sama sagan þegar upp úr var komið. Sturta í sundbolnum og svo aftur í litla klefann til að skipta um föt. Ég tek það fram að þetta var kvennaklefi svo ástæðan fyrir þessu laumuspili er mér enn hulin.
Eftir sundið fengum við okkur þann besta kebab sem sögur fara af, svo stóran að það þurfti að borða hann með gaffli, ekki slæmt.

Dagurinn í dag hefur verið tíðindalaus. Veðrið er enn mjög gott, ekki amalegt að geta verið á peysunni eða bolnum alla daga. Óttast að næstu dagar verði lítið áhugaverðir svo það gæti farið svo illa að engin lína verði hér rituð. Þó verðum við að vona það besta. Ætli ég endi þetta ekki á skilaboðum til allra sem vilja losa sig við íslenskt nammi. Ég tek hjartanlega á móti því. Að minnsta kosti er kúlusúkkið frá Kalla og Hildigunni alveg horfið..

þriðjudagur, september 14, 2004

Þá er ég komin frá London. Ekki grunaði mig þegar ég fór til London í apríl að ég myndi koma þar aftur aðeins 5 mánuðum síðar. En vegir mínir eru órannsakanlegir. Laugardaginn nýtti ég vel þó ég hafi ekki farið út. Við gistum hjá Birnu systur Kristjáns sem var að halda upp á afmælið sitt og ég og au pair stelpan þeirra vorum heima með börnin. Tinna au pair stelpa og ég urðum strax alveg perluvinkonur. Hvernig er annað hægt? Hún hefur m.a gaman af að lesa, leiklist og finnst betra að ganga í pilsi en buxum.

Á sunnudaginn var ég svo vakin klukkan átta af eldhressri Hildigunni. Ég hafði nú vonast til að ég gæti fengið að sofa til níu en sú varð eki raunin. Ég átti að mæta niður á Green Park klukkan níu því ætlunin var að skoða höll drottningar. Ég hlýddi þessu og það var ósköp gaman að sjá þau Kalla og Hildigunni og ekki vera að þau færðu mér kúlusúkk þessar elskur, nammm!
Höllin var auðvitað alsett prjáli og ekki fengum við að hitta neinn konungborinn þó svo við hefðum borgað okkur inn. Eftir að hafa skoðað höllina og garðinn sem í var tjörn þakin konunglegu slýji ákváðum við að fá okkur hressingu. Kalli greyið var í nýjum skóm og var kominn með heljarinnar hælsæri svo þau skötuhjú skiptu um skó. Ég reyndi vitanlega að láta sem ég þekkti ekki þetta undarlega par, hún með risastórar bífur og hann í litlum netaskóm.
Við röltum örlítið um Oxford street en þar sem ferð þeirra var heitið til Prag kvöddumst við fljótlega. Ég þurfti þó ekki að örvænta því Tinna kom niður í bæ og við gátum haldið áfram búðarrápi.

Á mánudaginn vorum við Tinna mættar eldhressar niður á Oxford aftur. Skoðuðum okkur aðeins um og við gengum framhjá ,,We will rock you" leikhúsinu. Ég tók mynd eins og versti túristi, það var bara svo gaman á þessari sýningu. Einnig fórum við í Top shop sem var hreinasta helvíti, búðin er risavaxið skrímsli svo við fengum báðar svima þar inni. Til að laga það fórum við heim til Tinnu og hoppuðum á stóra trampolíninu í garðinum. Við létum svolítið eins og 10 ára, hlógum og skríktum og vakti það undrun vinnuveitenda okkar. Þó erum við enn báðar með vinnu sem betur fer.
Um kvöldið flugum við svo til Edinborgar aftur, Ingibjörg var svo væn að bjóða Tinnu í heimsókn og það boð ætlar hún að þiggja. Og hver veit nema maður skelli sér aftur til London í framtíðinni...

föstudagur, september 10, 2004

Heilmikið búið að vera að gera hjá mér í dag. Þrifdagur á föstudögum svo ég er búin að þrífa íbúðina hátt og lágt auk þess sem ég var að pakka niður fyrir London. Það er komin smá ferðaspenningur í mig þó svo að þetta sé nú ekki langt ferðalag. Hvernig getur maður annað en verið spenntur þegar aðeins tveir dagar eru í að maður sjái framan í Hildigunni?
Skrítið að hugsa til þess að þegar ég flýg hingað aftur frá London verður Inga að fljúga til Íslands. Reyndar bara stutt stopp hjá henni en ég væri samt alveg til í að kíkja.

Ég tók eftir að fólk hefur eitthvað tekið við sér að kvitta í gestabókina. Ekkert nema gott um það að segja, bestu þakkir til þeirra sem það eiga skilið.
Kvöldið í kvöld verður vonandi skemmtilegt. Ég ætla að hitta Soffíu um sjö og við förum á einhvern stað sem ég man ekki hvað heitir. Þar ætlum við svo að hitta Richard og Evu og ég ætla að reyna að vera ekki ókurteis ef fleiri vingjarnlegir og ómyndarlegir Skotar gefa sig á tal við mig. Best að hætta í bili, reikna ekki með að blogga yfir helgina þar sem verður örugglega nóg að gera í London.

fimmtudagur, september 09, 2004

Ég hef af því miklar áhyggjur að blogg þetta sé að verða mjög leiðinleg lesning. Ástæðan ku vera sú að fátt markvert drífur á daga mína. Því er mikil hætta á einhæfu bloggi. Ég ætla því að nýta tækifærið og lýsa yfir óánægju minni yfir að enginn ritar í gestabókina. Fólk segist lesa bloggið en ekki hefur það fyrir að kvitta, þá er reyndar óþarfi að skrifa í hvert skipti en svona einu sinni er algjört lágmark.
Annars föndraði ég við það að setja inn tengla á síðuna mína. Því eru Inga mín, faðir minn gamli, og hellingur af leikfélagspakki aðgengileg almenningi.

Annað kvöld fer ég að hitta Soffíu og Evu heima hjá Richard, stefnan er svo tekin á einhvern skemmtistað. Þó ætla ég að taka því rólega þar sem ég fer til London daginn eftir.
Jæja, Soffía er komin í heimsókn..

miðvikudagur, september 08, 2004

Æ mig auma. Er gjörsamlega búin að vera og er ekki viss um að ég ætti yfirhöfuð að vera að blogga í dag. Þó er það skylda mín sem góð dóttir að rita hér nokkrar línur til heiðurs föður míns. Sá gamli á afmæli í dag og þó ég eigi ekki að gera það, upplýsi ég hér með að hann er 42. ára. Er það mín einlæg ósk að ég verði því ekki spurð framar hvort faðir minn sé nokkuð orðinn fertugur.

Eftir púl í ræktinni gekk ég í sakleysi mínu heim og hitti í leiðinni vingjarnlegan Skota. Ég er orðin vön því og var sallaróleg þegar hann byrjaði að spjalla. Hinsvegar leist mér síður á blikuna þegar hann lét mig fá nafnspjaldið sitt, bað mig að hringja svo hann gæti gefið mér kaffi og sýnt mér borgina. Ég flýtti mér í burtu en stóðst þó ekki freistinguna að líta við... Viti menn, þarna stóð kauði og góndi á eftir mér, hann VEIT hvar ég á heima.! Rúsínan í pylsuendanum er svo vitanlega sú að karlinn var kominn yfir fimmtugt.

Ég held ég myndi endanlega missa vitið ef ég reyni að lýsa hvernig gekk að passa í dag. Þrjú börn voru bara aðeins of mikið í þetta skiptið. Ég er alvarlega að íhuga að ganga til náða og klukkan ekki orðin níu.

þriðjudagur, september 07, 2004

Í dag var ég kynnt fyrir alvöru glæpamanni. Örugglega í fyrsta skipti sem ég tek í höndina á einum slíkum. Maður þessi er aðalkrimmi Íslands, nefninlega Sveinbjörn, höfuðpaurinn í Landsbankamálinu. Ef ég hefði mátt ráða hefði hann heitið einhverju illilegu nafni, eins og ég skírði glæpamennina í sögunum sem ég samdi fyrir 10 árum. Ég man ég var sérstaklega ánægð með nafnið Steingrímur Oddson, þvílíkt illmenni sem maður með svona nafn hlaut að vera.
Gerðist svo fræg að byrja í ræktinni í dag, risastórt gímald með sundlaug og allt saman. Gerði mig ekki að miklu fífli (held ég) þó veit ég ekki hvað ég fór langt á hlaupabrettinu, mílur, hver kann á þær? Í ræktinni er líka setustofa þar sem hægt er að fá sér að borða og ég fékk mér nýkreistan appelsínusafa, þvílík dásemd, (sleiki út um)

Seinni partur dagsins fór svo í að passa fyrir Habbý og Simon, enda eru það þau sem borga ræktarkortið fyrir mig. Þurfti reyndar ekki að passa Helgu en Sæmsi Palli og Kjartan voru nógu erfiðir saman. Sæmsi Palli er enn með bleyju og hann var vitanlega búinn að gera númer tvö og neitaði alveg að leyfa mér að skipta um bleyju. Þegar húsið var farið að anga óþyrmilega tók ég til minna ráða og tók drenginn úr bleyjunni. Hann hljóp í burtu áður en ég náði að þrífa hann og allt fór út um allt. Ég er nú ýmsu vön, en úffff... Það þurfti að þrífa allt.
Á morgun þarf ég að passa Sæmsa, Kjartan og Helgu, Habbý benti mér á að hafa þau í bandi.. Hlakka til!

mánudagur, september 06, 2004

Það bættist aðeins úr samskiptaleysinu í dag. Fékk póst frá Ingu, Þórunni og elsku litla bróður. Einnig búin að spjalla við Hildigunni, ömmu, afa, Brynju, pabba og Sessý á msn. Msn er dásamlegur samskiptamöguleiki sem ég hyggst nýta mér hressilega í nánustu framtíð.

Það sem stendur upp úr af viðburðum dagsins í dag er að hafa hitt Simon. Simon er maður Habbýar sem er íslensk kona úr næstu götu. Þau eiga strák sem er jafngamall Kjartani og ég ákvað því að leyfa þeim að leika sér saman. Við Kjartan röltum yfir og Simon tók hjartanlega á móti okkur. Hann bað mig umsvifalaust á óskiljanlegri írsku að segja mér allt um sjálfa mig. Ég reyndi að verða að óskum hans, en eitthvað hafði hann frétt af trúlofun minni því hann spurði hvort ég ætlaði aldrei að gifta mig. Ég varð undrandi en hann skýrði mál sitt sem svo að flestir Íslendingar væru trúlofaðir alla ævi án þess að giftast. Hann stakk upp á því að ég myndi gifta mig hérna sem fyrst, hvort unnustinn kæmi ekkert í heimsókn? Ég varð að viðurkenna að hann kæmi í nóvember og kvaðst hugsa málið. Á meðan voru börnin hans, Sæmsi Palli (Simon Páll) og Helga að klifra upp í fangið á mér og gefa mér koss. Kjartan var nú ekki alls kostar sáttur og tjáði þeim að ég væri hans nanny.

Við Kjartan fórum bæði sæl heim eftir þessar innilegu móttökur.
Mér var ekki einu sinni boðið rauðvín með matnum í þetta skiptið, hmm skildu þau vera að gefast upp á mér. Finnst það svo hrikalega vont. Það er hinsvegar alltaf rauðvín með matnum, og fínasti vínskápur á heimilinu. Ég kann víst ekki gott að meta, verður stundum hugsað til Ingu minnar.. Hún myndi ekki fúlsa við því stúlkan sú.

sunnudagur, september 05, 2004

Helgin er satt að segja bara búin að vera ágæt. Laugardagurinn fór að vísu í mest lítið. Vaknaði snemma. Það er ekki mikill svefnfriður með einn þriggja ára á heimilinu. Fór svo í bæinn með Evu, annari íslensku au pair stelpunni. Það var nú lítið keypt og að sjálfsögðu eyddi ég deginum aðallega fyrir framan tölvuna þar sem, eins og vanalega, voru örfáir á msn. Það kætir mig sannarlega ekki, en þó gat ég átt ágætis samræður við afa og Rottuskott. (Hina virðulegu kennslukonu, Hildigunni)
Ég og Hill reyndum að átta okkur á því hvar best væri að hittast í London, hmmm, hef á tilfinningunni að eitthvað skrautlegt sé í vændum. Mun ég hér alfarið kenna Hildigunni um, ég meina, hver týndist með mér í Frakklandi? Einmitt! Reyndar var Lilja með líka, sælla minninga, hún fékk allar skammirnar frá hinni elskulegu Veronique.

Ég fór ekkert út í gærkvöldi, var alveg dauðþreytt, horfði bara á Dvd með "familíunni", hver stenst það þegar einn þriggja ára situr í fanginu hjá manni að hafa kósí time eins og hann segir alltaf. Meira að segja versta skass myndi bráðna, Hildigunnur, afhverju heldur þú að þessu sé beint til þín?
Ég er ekki nógu sátt með þessa vini mína. Sendi sms til ansi margra með númerinu mínu nýja og fékk um þrjú svör til baka. Taki þeir til sín sem eiga. Deginum í dag var svo eitt í verslunar og skoðunarferð með Soffíu og við skemmtum okkur hið besta. Í kvöld kíktum við svo á flugeldashowið sem var allt öðru vísi en ég er vön. Sígild tónlist og rómantískir flugeldar í takt. Mjög sniðugt og öðruvísi, á eftir fóru ég, Eva og Richard (vinur Soffíu) á Vodka bar þar sem ég var sú eina sem ekki fékk sér vodka. Svona er það nú bara. Hittum því miður ekki sænsku stelpurnar, það voru svo margir á götunum að það hefði ekki verið hægt að finna þær.
Geisp.... Best að koma sér í rúmið.

laugardagur, september 04, 2004

Þá er ég búin að taka fyrsta skrefið að því að eignast vini. Fór út að borða í gær og það gekk bara mjög vel, auðvitað svolítið vandræðalegt fyrst. Þegar enginn þekkir neinn koma svona óþægilegar þagnir og vandræðaleg bros, en svo smá saman lagaðist það. Fórum svo á djammið á eftir þar sem varð óþægilega augljóst hvað breskir karlmenn eru almennt ómyndarlegir! Langt frá því að ég sé í karlmannshugleiðingum en það er óneitanlega pirrandi að þurfa að tala við ófríða Breta á fertugsaldri sem halda að þeir eigi séns.

Ég kynntist íslensku stelpunum ágætlega, ætlum saman að versla á eftir en þær tvær sænaku voru svolítið út úr. Ég spjallaði samt við þær, þær eru mjög fínar, bara svolítið feimnar. Þær ætla að koma með á flugeldasýninguna á sunnudaginn. Það verður mjög gaman. Aðal tilhlökkunarefni vikunnar er samt það að ég mun hitta Hildigunni í London. Ætlaði að hitta hana á laugardagskvöldi og gera eitthvað gaman en þarf að passa. Hill ætlar að vera svo elskuleg að hitta mig á sunnudagsmorgni í staðinn og eyða honum með mér.
Jæja verð að hætta, O.C. er að byrja.

miðvikudagur, september 01, 2004

Púff, ætli maður neyðist ekki til, vegna fjölda áskoranna að byrja að blogga aftur. Ég er nú stödd í Edinborg og skilst að það séu einn og annar sem vilji fá fréttir af mér. Ég ætla samt ekki að koma mér upp nýrri, flottri síðu, því nenni ég ekki. Þar af leiðandi þýðir ekki fyrir þær örfáu hræður sem villast hingað inn að kvarta. Og hana nú!

Sagan hefst á því að ég stíg upp í flugvél, þreytt á sunnudagsmorgni, eftir að hafa keyrt í gegnum Reykjavík kl 5 að morgni, nývöknuð. Það var hálf undarlegt, borgin var full af fólki í misjöfnu ástandi á leið heim af djamminu.
Jæja smá útúrsnúningur... Það var tekið vel á móti mér. Á heimilinu eru: Kristján og Ingibjörg ásamt Kjartani sem ég er að passa. Í augnablikinu býr fyrrum au pair stelpan þeirra hér líka, hún Soffía. Það er mjög sniðugt fyrir mig því strax á öðru kvöldi neyddist vesalings Soffía til að fara út með nýju stelpuna. Við fórum á ótrúlega sniðugt uppistand með konunni sem talar fyrir: Bart, Nelson og Ralph í Simpson þáttunum. Ég vissi ekki einu sinni að það væri kona sem talaði fyrir þá! Það var að minnsta kosti mjög sniðugt að heyra Bart Simpson koma út úr munninum á miðaldra konu. Hún heitir Nancy Cartwright, nauðsynlegt að spjalla við hana ef hún verður á vegi ykkar. Ævar yrði mjög heillaður af hljóðunum sem koma upp úr henni.

Á föstudaginn fer ég út að borða með Soffíu og 2. öðrum íslenskum au pair-um sem voru að koma til Edinborgar. Svo kemur ein sænsk-finsk au pair líka. Hún er búin að vera í mánuð en þekkir engan. Hún skal sko fá að kynnast mér, ég ætla að eignast vini með trompi, sjáum hvernig það á eftir að ganga.
Svo er ég búin að troða mér upp á Soffíu líka á sunnudagskvöldið. Svona er að vera indæl stúlka eins og Soffía, illar stúlkur eins og ég notfæra sér það. ég fer með henni og vinum hennar að sjá flugeldasýningu sem er í takt við tónlist sem verður spiluð undir. Þetta eru lokin á Edinborgarhátíðinni.
Jæja, nenni ekki meir í bili. Hinsvegar er ég ekki með msn og er þessvegna ekki með e-mailin hjá um það bil neinum. Endilega sendið mér línu svo ég geti skrifað ykkur.
Að lokum: Auður Stefánsdóttir,
27 Darnell Road E- mail ausa83@hotmail.com
Edinburgh EH5 3PQ GSM: +447840358100
Scotland