laugardagur, maí 31, 2008

Allar einkunnir komnar í hús og er það hið besta mál. Hins vegar var ég að fá ritgerð til baka og ég held ég hafi sjaldan hlegið jafn mikið og af kommentunum. Í íslensku tíðkast að kennarar fái sér aðstoðakennara. Aðstoðarkennarar þessir eru metnaðarfullir nemendur og fara þeir oftast yfir verkefni sem kennarar hafa ekki tíma/nenna ekki að fara yfir. Ég skil það mjög vel, myndi örugglega sjálf nýta mér þetta væri ég kennari í Háskóla. Kennarar fara hins vegar yfirleitt sjálfir yfir ritgerðir sem mér finnst sjálfsagt. Ég er í Háskóla til að fá gagnrýnið mat á því sem ég er að gera og læra af því. Í þessu fagi fór aðstoðarkennarinn yfir ritgerðina, einkunnin er ekkert sem ég ætla að kvarta yfir en kommentunum verð ég að deila með ykkur kæru lesendur, ykkur til skemmtunar.

1. Ég talaði um í inngangi að það væri freistandi að bera söguna saman við Pilt og stúlku, sérstaklega þar sem þýðandinn vísar í þá sögu.
Komment: Gerir hann það, það er þá mjög óbeint, verður að varast slíkar fullyrðingar.
Lexía: Það er alltaf gott að lesa innganginn, þar kemur fram að þýðandinn vísar beint í Pilt og stúlku auk þess sem kennarinn talaði um það í tíma.

2. Sagan er mjög einföld, formið þekkt, ástin kviknar, aðskilnaður elskenda, misskilningur og svo orðaði ég það þannig að sagan endaði með sameiningu elskendana.
Komment: Óþarflega formlegt orðalag, eins og þú sért að tala um sameiningu fyrirtækja.
Lexía: Í ritgerðum er orðalag almennt formlegra en í töluðu máli, sameining getur vel átt við annað en fyrirtæki.

3. Næst setti hann aftur út á orðalag. Kennarinn lagði mikla áherslu á sakleysi aðalpersónanna, þau eru naív, vita ekki hvað ástin er. Ég skrifaði því eitthvað um það og sagði svo ... en ó hve ástin er saklaus...
Komment: Kjánalegt
Lexía: Í alvöru, þrátt fyrir að orðalag sé ekki eins og reykvískt talmál þarf það ekki að vera kjánalegt, formlegt (eða skrítið, sjá síðar)

4. Kennarinn setti ritgerðarefnin fyrir og ég átti að segja frá muninum á sveit og borg í þessari ákveðnu sögu. Ég skrifaði því um það sem gerðist þegar aðalpersónurnar fluttu í borgina, hvort þau hafi breyst og hvort þau hafi gleymt sveitinni.
Komment: Þú tekur þér allt of langt pláss við að koma með lítilvægt svar við lítilvægri spurningu.
Lexía: Það er mjög gott að kynna sér hvað ritgerðin er um áður en maður hefur lestur. Með því móti ætti maður sjaldnast að halda að aðalatriði sé lítilvægt atriði.

5. Þetta er grísk saga, með grískum guðum og ég tala um að þeir séu bundnir náttúrunni.
Komment: Skrítið orðalag.
Lexía: Gott er að kynna sér gríska goðafræði sé maður henni alls ókunnur áður en slík komment eru sett fram. Guðirnir eru bókstaflega bundnir náttúrunni, þeir eru náttúran.

Ekki voru kommentin fleiri. Ekkert þeirra reyndist uppbyggilegt né lærði ég nokkuð af þeim. Samantektin var álíka þar sem eitt gott var tekið fram, stafsetning og heimildaskrá í lagi. Ef ég væri bitur gæti ég komið með nastí komment varðandi stafsetninguna í heftinu okkar. En ég er bara alls ekkert bitur, þessi færsla á ekki að vera árás á neinn, aðeins skemmtun fyrir mig og ef til vill einhverja aðra sem hafa gaman af kaldhæðni. Mér dettur í hug pabbi og Hildigunnur ;)

miðvikudagur, maí 21, 2008

Það kemst bara eitt að þessa dagana. Einkunnir. Ég er ekki búin að fá eina einustu og þar af leiðandi er mig farið að dreyma einkunnir á nóttunni. Síðasti séns að skila inn einkunnum í bókmenntasögu í dag og svo rennur fresturinn út í 2 fögum á föstudaginn. Ég þarf væntanlega ekki að taka það fram að ég verð svakalega pirruð ef að kennararnir virða ekki skilafrestinn, það er þó lítið annað sem ég get gert.

Annars er nóg um að vera þessa vikuna, eurovision í gær, meistaradeildin í kvöld vúhú, eurovision á fimmtudag og laugardag. Auk þess er ég náttúrulega farin að vinna, búin að fara í sumarbústað og norður í ferminguna hennar Brynju.

Áfram Man United!

P.S. Línurnar í síðustu færslu eru úr ævintýrinu um Stígvélaða köttinn :)

mánudagur, maí 05, 2008

Upp í sveit upp í sveit,
langt, langt upp í sveit.
Þar sem hestar kindur
og beljur er' á beit.

Uppí sveit, upp í sveit,
langt, langt upp í sveit.
Ökum við og syngjum
og sólin vermir reit.

Eða kannski ekki alveg. Við Styrmir erum á leiðinni í sumarbústað í Miðhúsaskógi og ætlum að dvelja í tvo sólahringa. Með í för er gott á grillið, sviss miss, kókópöffs og harðfiskur. Mikið verður gott að slappa af í sól, rigningu eða hverju sem boðið verður upp á. Próf og dagbók búin, eitt verkefni eftir. Lífið er gott:)

P.s. vita ekki allir úr hverju þessar laglínur eru?