mánudagur, desember 20, 2004

Æææ ég ligg hér í alvarlegu hláturskasti. Ástæðan er þessi http://www.ma.is/myndir.asp?Mfl=Jolakaffi04&M=IMG_2428.jpg Þetta er held ég bara mynd ársins.

Það sem er í brennidepli er það að ég kem heim á morgun. Já loksins, loksins. Var að pakka niður áðan og vigtaði svo töskuna. Hún var tæp 25 kíló, ég vona að þeir sleppi mér með það. Jólagjafirnar ykkar eru svo þungar sko. Tók ekki einu sinni mikið af fötum. Nú verð ég bara að láta daginn líða og fara svo í rúmið um 10. Þarf að vakna 4 og taka leigubíl út á flugvöll, já þannig hefst þrettán tíma ferðalagið mitt. Það mætti halda að ég væri að fara til Ameríku. Hef samt lent í því verra, það var þegar við í 3.A. tókum okkur tvo daga í að ferðast frá Íslandi til Þýskalands. Það er margt á sig lagt til að spara aurinn.

Hef nú ekkert bloggað í langan tíma. Það hefur samt ótrúlega lítið markvert gerst. Kjartan var viss um að hann hefði einhvertíman verið með Sæmsa í maganum, eins og hann var í maganum á mömmu sinni. Þegar ég reyndi að leiðrétta hann andvarpaði hann þolinmóður og útskýrði að Sæmsi væri vinur hans. Ég gat ekki annað en samþykkt það. Svo er Kjartan alveg búin að sjá fyrir sér hvernig við komum til Íslands, fyrst er hans flugvél, svo mín og lestina rekur jólasveinninn á sleðanum sínum.
Ég fór ekki í viðtalið um daginn. Það eru nú ýmsar ástæður fyrir því, meðal annars var ég búin ð læsa mig úti en ég var reyndar búin að ákveða að svara neitandi ef mér yrði boðið hlutverk. Ræddi þetta við Anne kennarann minn ásamt Dönu (sem hann hringdi líka í) og Anne fannst við hafa allt ogf mikið að gera í skólanum til að taka þetta að okkur, þetta væri ekki nógu merkilegt til þess.

Jæja, ætla halda áfram að missa mig hérna. Vil þakka öllum sem spjölluðu við mig á msn í gærkvöldi. Adda og Ævari þó mest því þeir þoldu mig lengst þó ég væri á algjöru flippi:)

þriðjudagur, desember 14, 2004

Þá er Sóla bara farin. Dagarnir liðu ansi hratt hjá okkur, við glaum og gleði. Mest gaman þótti mér að fara með hana í partýið mitt og fá einhvern til að hlæja með mér að Fionu og Zoe. Það þótti Sólu líka mjög auðvelt:) Partýið var snilld. Chris kom með Karókígræjur og svo komu allir með mat og áfengi. Það var því etið og drukkið, bætt aðeins úr þurrkatíðinni. Ég gekk líka á milli og neyddi alla til að smakka flatbrauð með hangikjöti, dró fólk að borðinu og horfði á það borða. Allir létu auðvitað eins og þetta væri himneskt en grettu sig í laumi;) Þegar líða tók á kvöldið voru allir farnir að syngja og dansa og svo var auðvitað trúnó í gangi. Ætluðum nokkur í annað partý hjá Ainsley en það reyndist búið svo við snérum bara aftur í partýið góða. Svo röfluðum við Sóla helling við leigubílstjórann á leiðinni heim, aumingja maðurinn.

Helgin fór að mestu leyti í að versla hjá okkur en við gáfum okkur þó tíma í rómantíska ferð í Parísarhjólinu. Kvöldunum eyddum við í blaður langt fram á nótt svo það var lítið sofið og mygluð Auður sem kom í skólann á mánudaginn. Það var ansi ágætur tími, fórum í leiki og svona:) Fórum líka aftur í hrósleikinn en í þetta skipti var enginn Darren svo ég var ánægð með allt sem var sagt við mig. Enginn perraskapur í gangi núna.
Í kvöld var svo audition kvöld en Crispin var ekki þegar ég fór með mína audition, bara Justin og hann þekkir mig ekkert svo ég fékk voða lítil viðbrögð.

Kjartan var afskaplega skondinn í morgun. Áttum samræður sem voru einhvernveginn svona:
K: Ve þú varst lítil eins og Sóla þá þurftir þú að lúlla hjá Styrmi.
A: Já en mér finnst ennþá voða gott að lúlla hjá honum.
K: Þú ert Auðurinn minn og ég er strákurinn þinn.
A: Já auðvitað elskan.
K: Þú átt tvo stráka
A: Já, hverja?
K: Ég og Sindri, bróðirinn þinn. Núna er ég bróðir þinn.
A: Já þú ert alveg eins og bróðir minn.
K: Já ég er. Ve þú varst lítil, þá var ég kærastinn þinn.
A: Ekki alveg elskan
K: Þú átt voða marga stráka til að lúlla með....

Svei mér þá, veit ekki hvaðan barnið fær þessar hugmyndir.

fimmtudagur, desember 09, 2004

Gærdagurinn var nú töluvert viðburðaríkari en ég átti von á. Já, dagurinn sem við munum öll minnast sem dagsins sem ég varð fræg, eða hvað? Það byrjaði með því að ég fékk símtal frá manninum sem kom í skólann okkar og er að gera stuttmynd. Hann virtist frekar áhugasamur um mig og vildi endilega fá mig í viðtal. Ég er því á leið í atvinnuviðtal á fimmtudaginn kemur, verð að viðurkenna að ég er pínu kvíðin en hef ekki hugmynd af hverju.
Það er ekki nóg fyrir mig að vera fræg í Edinborg svo það virðist sem ljósmyndarinn sem tók stúdentamyndirnar mínar hafi ákveðið að nota mynd af mér í auglýsingaskyni. Þetta er hið versta mál því myndin er birt í sorpritinu Extra sem dreift er í öll hús á Akureyri, Ólafsfirði og Dalvík ef ég man rétt. Og sem MA-snobbari verð ég að viðurkenna að ég er hreint ekki ánægð með að vera bendluð við VMA. Mér skilst að það standi fyrir ofan myndina "Til hamingju nýstúdentar VMA 18. desember" eða eitthvað þvíumlíkt. Einnig hef ég ekki gefið leyfi til að fésið á mér sé notað í auglýsingaskyni og er því ekki sátt við þetta.
Ég verð að skýra mál mitt betur. Extra er andstyggilegur snepill, yrði ekki hissa ef fólk notaði það þegar klósettpappírslaust er á heimilinu. Sá sem gefur það út er enginn annar en Helgi Jónsson, já maðurinn sem skrifaði skelfilegar unglingabækur á við Allt í sleik og Rauðu augun. Það sem ég tel þó algjörlega ófyrirgefanlegt eru Gæsahúðarbækurnar sem maðurinn skrifar. Ekki veit ég hvernig hann náði sér í rétt til að skrifa bækur undir því nafni því það er erlendur rithöfundur sem skrifar þessar bækur og hafa nokkrar verið þýddar á íslensku. Þetta eru bækur fyrir börn og eru þessar erlendu nokkuð góðar, vekja örlítinn ótta eins og þær eiga að gera en ekkert meira. Helgi hinsvegar skrifar í allt öðrum stíl, ef stíl skyldi kalla. Bróðir minn fékk eitt sinn bók eftir hann í jólagjöf, ég fletti í gegnum hana og henti henni svo. Hún fjallaði um gamlan mann sem myrti söguhetjurnar og gróf þær í garðinum. Þetta er kannski ekki það versta, Helgi hefur gefið út nýja Gæsahúðbók fyrir jólin. Hún ber nafnið Litla líkistan. Ég læt fylgja með lýsingu sem ég tók af http://www.bokautgafa.is/page_37.html alltsvo bókatíðindum á netinu í dag.
Steini er að leika við Fellini, litla sæta hundinn í næsta húsi, þegar hann fellur fram af húsþaki – og deyr. Eða svo halda allir. Hann er fluttur á sjúkrahús þar sem læknar úrskurða hann dáinn. Mamma og pabbi og litla systir eru sorgmædd. Svo er Steini litli jarðaður. En er hann raunverulega dáinn? Af hverju lætur Fellini litli öllum illum látum? Af hverju er Steini að berja og öskra í kistunni djúpt ofan í jörðu?
Ég tel ekki að ég hljómi eins og gömul nöldurkerling þó þetta fari í mínar fínustu. Hafði sjálf gaman af dularfullum og spennandi bókmenntum þegar ég var barn. En það er engin að tala um að sjúkar bók"menntir" séu við hæfi. Er einhver sammála?

Þá er ég búin að létta á mér. Sóla kemur á morgun:)

miðvikudagur, desember 08, 2004

Ég held það sé örlítið að rætast úr jólaskrautsleysinu hjá mér. Að minnsta kosti fann ég mér dagatal um helgina, reyndar ekki súkkulaði en það er í góðu lagi. Minnir að ég hafi gefið Styrmi flesta molana í fyrra og bróður mínum árið þar áður. Það er svo annað mál að myndirnar í þessu dagatali eru ekki alltaf jólalegar. Í gær var það bökuð kartafla, skreytt með osti og á toppinum trónaði ber.
Skotarnir eru svo bara flestir búnir að setja upp jólatrén og skreyta, þeir taka það svo niður vel fyrir áramót. Sinn er siðurinn í hverju landi, ég segi ekki annað.

Ég er frekar bitur út í skólann minn, ég hef nóg að gera en var samt nógu samviskusöm til að gera heimavinnuna mína, allt til einskins, Bókin sem ég valdi mér til að lesa upp úr var ekki nógu góð fyrir kennarann minn, Anne. Ég á því að kaupa "Fýkur yfir hæðir" og finna mér part úr henni og lesa, fyrir utan þetta er svo auditon hjá Crispin næst og ég þarf að læra dágóðan part utan að fyrir það.
Svo var mikið spjallað um partýið sem verður á laugardaginn, við eigum að koma með mat með okkur og ég ætla að vera svo sniðug að koma með flatbrauð með hangikjöti. Það er að segja ef Sóla verður svo væn að kaupa það fyrir mig. Í framhaldi af þessu spurði Pam mig út í íslenskan mat sem hún hélt að væri allur hrár eins og sushi, svo var hún mjög forvitin yfir því hvernig við höldum jól og áramót. Merkilegast fannst henni að allir mættu kaupa eigin flugelda og skjóta þeim upp. Það er ekki leyfilegt hér, það er bara ein flugeldasýning um áramótin.

Ég hef ennþá ekki lagt í það að skrifa blessuð jólakortin en þyrfti helst að klára þau sem þarf að senda áður en Sóla kemur. Svo eru það Carminugreinarnar tvær, er reyndar langt komin með aðra þeirra en tíminn er naumur.
Að heiman virðist lítið að frétta. Sá á mbl.is um daginn að Lárus Orri væri að koma aftur í Þór og var heldur en ekki glöð yfir að gamla hetjan frá barnsárunum ætlaði að feta í fótspor enn stærri hetju, Hlyns Birgissonar. Nokkrum dögum seinna stóð svo á mbl.is að Lárus ætlaði að leggja skóna á hilluna. Ef einhver veit hvort er rétt má hann upplýsa mig um málið. Okkur Þórsurum veitir nú ekki af Lárusi til að sigrarnir yfir Víkingi Ólafsvík verði enn stærri í sumar. Mikið hlakka ég til:)

föstudagur, desember 03, 2004

Síðustu dagar hafa liðið í eintómri gleði, magaverkjum og ælu. Kjartan byrjaði á miðvikudagskvöldið og við hin fundum öll fyrir óþægindum í gær, þó var það bara ég sem ældi. Ég reyndi þó að sinna verkum mínum, þrifum og hugsa um Kjartan. Svo passaði ég Sæmsa líka í þrjá tíma og ég get ekki sagt að það sé skemmtilegt að skipta á tæplega 4. ára strák þegar maður er með ælupest. Að minnsta kosti ekki þegar hann hefur ákveðið að gera númer tvö og sitja á því dágóða stund og hossa sér.
Ég er allavega mun betri í dag. Veit ekki hvernig helgin fer en skilst að planið sé að gista hjá Evu á laugardagskvöldið þar sem við ætlum að klára jólagjafakaup á morgun og verðskuldum leti fyrir framan breiðtjaldið á eftir. Ég hef ekki djammað síðan einhvertíman í október en efast um að verði breyting á fyrr en næstu helgi.
Það er kominn desember og ég á ekki súkkulaðidagatal, snökt. Það var víst ekki hægt að kaupa það í endann nóvember eins og ég ætlaði að gera. Svo missi ég auðvitað af jóladagatlai sjónvarpsins og við eigum ekki aðventuljós né aðventukrans svo ég verð nákvæmlega ekkert vör við það að desember sé genginn í garð. Fyrir utan þá staðreynd að ég hef ekki séð svo mikið sem eitt snjókorn í vetur.