þriðjudagur, september 30, 2003

Þá er skólinn byrjaður aftur, þvílík gleði og gaman. Sú nýbreytni er orðin að 12 tíma á viku fæ ég að sitja tíma hjá náskyldum aðila og blómstrar fróðleiksfýsn mín sem aldrei fyrr.
Vinafjöldinn í skólanum hefur minnkað töluvert eftir síðustu útskrift og eru allir úti um allt. Brynja er í Englandi og hún Soffía stundar nám í Danaveldi á milli þess sem ölæði grípur hana. Þessar duglegu stúlkur hafa þegar byrjað að blogga til að færa oss fréttir af sér glóðvolgar.

Við sem eftir eru reynum okkar besta til að þrauka og fór ég ásamt minni heittelskuðu Hildigunni og Maríu á Subway í hádeginu. Var það einkar ljúffengt og bjargaði hreinlega deginum. Einnig fórum við á Amour um daginn ásamt Ástu og var borðið okkar laust, vitanlega í virðingarskyni við okkur.

Þá er best að fara að drífa sig heim að sinna lærdómnum. Annars er hætt við að náskyldi aðilinn fari að rífa sig. Svo er vinna í kvöld, sem betur fer eftir lokun svo ég þarf ekki að eiga samskipti við viðskiptavini.