mánudagur, desember 29, 2008

Neibbs, það er ekkert að gerast. Litla krílið hefur það alltof gott hjá mömmu sinni til að vera að hafa fyrir því að fæðast. Auk þess fer það ekki eftir duttlungum vina og ættingja sem fara úr landi heldur kemur bara þegar því hentar.
Mamman er orðin vel þreytt og alveg til í að fá krílið sitt, hver dagur sem líður framyfir settan dag er eins og vika. Nóg að gera samt við að svara símtölum og sms-um en allir eru orðnir spenntir eins og skiljanlegt er.

Við höfum haft það mjög gott um jólin, fengum góðar gjafir og dekrað hefur verið við okkur. Foreldrar mínir létu sig ekki muna um að hafa tvíréttað á aðfangadag og jóladag svo ég gæti líka fengið góðan mat sem var ágætis sárabót. Tengdó eru nú tekin við og ætla að töfra fram dýrindis gamlárs og nýjársmat.

Fór í mæðraskoðun í morgun og svo er mónítor í fyrramálið. Set inn fréttir á barnalandssíðuna eftir mónítorinn svo þið getið fylgst með. Eins og staðan er þá lítur allt út fyrir að barnið ætli sér að verða 2009 barn, skyldi bílprófið heilla?

miðvikudagur, desember 24, 2008

Mig langar að óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Þakka góðar stundir á liðnu ári og hlakka til að sjá ykkur á nýja árinu sem verður ár breytinga hjá okkur. Vona að allir hafi það gott yfir jólin og séu jafn ánægðir með lífið og við:)

Á morgun er settur dagur og kannski ég smelli af síðustu bumbumyndunum og setji inn nýjar fréttir í vefdagbók í tilefni dagsins. Nema krílið ákveði að koma á settum degi;)

laugardagur, desember 20, 2008

Það er ýmislegt búið að ganga á síðustu daga. Ekki alveg eins og ég hafði ímyndað mér síðustu dagana áður en krílið kemur. Hafði hugsað mér að eyða þeim í rólegheit. Skrifa í vefdagbókina á eftir um þessa daga.
Ég hef ekki verið dugleg að svara í síma eða sms-um, þið verðið bara að afsaka það. Get verið sofandi á hvaða tíma sólahrings og gleymi svo að hringja til baka.

Ég veit varla að jólin séu að koma, skrifa engin jólakort í ár en á næsta ári fá allir jólakort með mynd af búttuðu barni:) Jólin í ár snúast vitanlega um nýjasta fjölskyldumeðliminn en settur dagur er eftir aðeins 5 daga. Sindri er kominn til okkar og mamma og pabbi koma svo á mánudaginn. Það verður öðruvísi að halda jólin hérna heima, sérstaklega þar sem það verður enginn hamborgarahryggur (ég má ekki borða hann) en ég held það verði mjög fínt. Litla krílið byrjað að stjórna öllu og það er ennþá í bumbunni:)
Tengdó koma svo á annan í jólum og ætla að vera framyfir áramót.

Varðandi heimsóknir þegar krílið er komið er best að hringja bara. Svörum í símann ef við getum annars hringjum við til baka. Ætlum ekki að fá neinn upp á deild nema í mesta lagi foreldra okkar. Verðum vonandi ekki meira en sólahring ef allt gengur vel. Ætli ég setji svo ekki fyrstu myndina hér inn, einfaldara en barnalandssíðan. Svo það er um að gera að fylgjast spennt með. Svo fá nú útvaldir sms þegar krílið er komið:)

fimmtudagur, desember 11, 2008

Mamma mín á afmæli í dag. Þessi unga verðandi amma á enn nokkur ár eftir í fimmtugt en ekki er útlit fyrir að hún fái krílið í afmælisgjöf. Allt með kyrrum kjörum í bumbunni og ég er nokkuð viss um að það kúri einhverja daga í viðbót hjá mömmu sinni.

Til hamingju með daginn mamma mín, afmæliskveðjur úr Eggertsgötunni :*

þriðjudagur, desember 09, 2008

Ég var i mæðraskoðun í dag og hún kom ekki alveg nógu vel út. Fréttir í vefdagbók.

föstudagur, desember 05, 2008

Nú finnst mér kominn tími á smá hrósblogg. Að vera ólétt getur tekið á og þá er ómetanlegt að eiga góðan mann. Minn hefur staðið sig ofboðslega vel og get ég ekki ímyndað mér hvernig er að vera einhleyp í þessum sporum.
Þannig hefur hann meðal annars:

*Haldið uppi hárinu þegar ég er að æla svo ég æli ekki í það

*Fært mér óteljandi vatnsglös á hvaða tíma sólahrings sem er

*Haldið sér vakandi fram á nótt til að mér leiðist ekki að vera ein andvaka

*Vaknað á næturnar til að hjálpa mér að standa á fætur og finnst það ekkert tiltökumál

*Komið með í hvern einasta sónar og mæðraskoðun

*Nuddað mig nánast daglega alla meðgönguna.

*Tekið öllum hormónasveiflum með bros á vör

*Farið með mér á öll námskeið sem eru í boði

*Er alltaf tilbúinn að tala um og við barnið

*Hrósað mér daglega

*Farið í óteljandi búðarferðir af því mig langar í eitthvað

*Tekið á sig æ meira af heimilisstörfunum eftir því sem líður á meðgönguna

*Fært mér morgunmat í rúmið

*Hringt úr vinnunni til að athuga hvernig mér líður þó hann sé bara búinn að vinna í klukkutíma

og ég gæti haldið áfram en einhverstaðar verður maður að hætta. Svei mér þá held hann sé alveg tilbúinn í föðurhlutverkið, hann hefur a.m.k. fengið ágætis aðlögun:)

mánudagur, desember 01, 2008

Það er kominn desember. Ég hef aldrei verið spenntari fyrir þessum mánuði og það tengist jólunum ekki neitt. Heldur því (sem hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinum) að settur dagur er eftir aðeins 24 daga:)
Ég er að verða ansi þung á mér en lítum á björtu hliðarnar. Eftir jól missi ég 5-10 kíló á einu bretti á meðan aðrir detta í þunglyndi þegar þeir stíga á vigtina;)

Ég gleymdi nokkrum hlutum á óskalistanum góða svo það er eins gott að bæta þeim inn. Árangurinn af listanum lét líka ekki á sér standa, stelpurnar mínar og fylgifiskar komu með æðislegt leikteppi í gærkvöldi. Styrmir var svo spenntur að hann reif það upp og byrjaði að leika sér. Erum ótrúlega ánægð með teppið, vel valið elskurnar:*

En hér kemur það sem gleymdist:

*barnapíutæki

*Bók-Svona fyrstu ár barnsins sem maður skrifar í

*Rammi þar sem maður lætur grafa fæðingardag, lengd og fleira

*E-ð sætt albúm sem fyrsta albúmið

*Bleyjufata

Þar sem ég er öll í listunum set ég inn smá lista yfir jólagjafir sem við hjúin óskum okkur og tengist ekki barninu;)

*Þráðlaus heimasími

*Stór pottur

*Rúmteppi á queen size rúm með hnausþykkri dýnu

Þá held ég að hafi svarað vel og vandlega hvað okkur vantar en munið þó að það er alveg nóg að fá ykkur í heimsókn í nýju íbúðina að kíkja á okkur og svo barnið þegar þar að kemur. Var að fá sendingu að norðan frá ömmu með heimabökuðum smákökum. Er búin að smakka allar og þær eru dásamlegar. Ekki amalegt að eiga svona góða ömmu. Þið njótið góðs af ef þið kíkið á okkur en Styrmir tímir ekki að bjóða upp á kossana. Verðið að gera ykkur hinar tegundirnar að góðu.