föstudagur, janúar 11, 2008

Hér kemur örlítil samantekt yfir það sem á daga mína hefur drifið.

Í desember hætti ég að vinna og hófst handa við próflestur. Mér tókst að næla mér í veikindi og tók síðasta prófið mitt 20. desember, veik og eftir tveggja tíma svefn. Að prófi loknu fór ég heim og ældi, mikið stuð. Að því búnu pakkaði ég niður og héldum við Styrmir norður ásamt henni Ástu okkar.
Fyrir norðan var gott að vera, ég eyddi reyndar mestum tíma upp í rúmi að safna upp þreki og jafna mig á veikindum mínum. Ég las mikið af bókum í fríinu, Dauði trúðsins stóð fyrir sínu og endurmininngar Erlendar í Harðskafa voru fínasta afþreying. Jólin komu og fóru með tilheyrandi áti, gjöfum, boðum og árlegu djammi 26.
Vonbrigði ársins 2007 var myndin Gyllti áttavitinn eftir samnefndri bók. Bók þessi er hluti af þríleik sem er í miklu uppáhaldi hjá mér og myndin stóð alls ekki undir væntingum. Það sem fór mest í taugarnar á mér var að endinum var sleppt en hann er ómissandi fyrir sögurþráðinn og skilning áhorfanda, ótrúleg vinnubrögð.
Ég vona innilega að Sweeney Todd standi undir væntingum, ætla að sjá myndina sem fyrst, trailerinn lofar mjög góðu!
Besta bók sem ég hef lesið lengi er Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson. Algjör skyldulesning, lét loksins verða að því að kaupa mér þessa mögnuðu sögulegu skáldsögu.

29. desember kvaddi ég heimabæ minn og hélt til Reykjavíkur. Þar hitti ég Kjartan og fjölskyldu sem var yndislegt. Kjartan verður stóri bróðir í mars og tjáði hann mér að hann teldi 80% líkur á að það yrði stelpa. Hann söng líka fyrir mig fullt af jólalögum sem hann hafði lært í skólanum og var frammistaðan óaðfinnanleg. Við Styrmir erum að hugsa um að heimsækja þau til Edinborgar í ágúst:)

30. desember hélt ég til Kaupmannahafnar þar sem Malena beið mín.

31. desmeber eyddum við Malena í Kaupmannahöfn, var það mikið ævintýri. Flugeldum var skotið í átt að fólki og bílum. Það voru löggu- og sjúkrarbílar, hávaði og reykur út um allt. Ég get næstum gert mér í hugarlund hvernig er að vera stödd í stríði eftir þessa lífsreynslu. Skelkaðar komumst við upp á hótel við illan leik.

1. janúar var mjög fínn, um kvöldið fórum við á skoskan bar, ræddum við tvo Englendinga sem reyndust svo vera leiðinlegir og Malena ávarpaði nokkra Íslendinga með fyrsta orðinu sem hún lærði ruslapoki.

2. janúar hélt ég til Horsens þar sem Hemmi, Freyja og stelpurnar þrjár búa. Það var rosalega gaman að sjá þau öll og held ég að gleðin hafi verið á báða bóga. Hanna og Hildur gáfu mér fallegar myndir sem þær teiknuðu handa mér og skemmtum við okkur við að spila saman og fleira skemmtilegt. Einhvernveginn tapaði stóra frænka alltaf... Eva litla er alveg yndisleg og leyfði hún frænku sinni að halda heilmikið á sér án þess að mótmæla.
P.S. Til hamingju Hemmi minn með tólfuna, ég er ekki lítið stolt af þér.

3. janúar kvaddi ég Horsensbúa og skellti mér til Århus þar sem Svava mín býr. Var gaman hjá okkur eins og alltaf og byrjaði ég að versla fyrir alvöru með hjálp Svövu. Að sjálfsögðu kynnti hún mig fyrir Jan kærastanum sínum og syni hans Laust. Mér leist ljómandi vel á þá báða og er Laust alveg yndislegt barn sem sagði við mig eftir 10 mínútur ,,Jeg elsker dig"

5. janúar kvaddi ég Laxann minn en þau Jan ætla að koma til Íslands í sumar svo ég hlýt að lifa af. Förinni var heitið til þeirra sómahjúa Hildigunnar og Kalla í Odense. Var dvöl mín hjá þeim afar ánægjuleg eins og öll ferðin og hélt ég áfram að versla í Odense. Hildigunnur stóð sig vel í hlutverki húsmóður en verr í hlutverki strætófylgdarmanns. Um það er hægt að lesa á síðunni hennar. Leka vindsængin var ekki svo slæm en eitthvað heyrðist mér að hjúin ætli að fjárfesta í nýrri áður en Ásta og Brynja koma í heimsókn.

7. janúar hélt ég heim og byrjaði aftur í skólanum í gær. Því miður tók ég fáar myndir í heimsreisunni, var aldrei með vélina þegar á þurfti að halda. Set einhverjar inn þegar ég hef tíma, allavega af sætu frænkunum.

Á döfinni er fimmtugsafmæli Auðar og Ingu, fylgist spennt með:)

P.S. afhverju geta kennarar ekki verið svo vænir að skila inn einkunnum, mikill pirringur í gangi!