þriðjudagur, september 26, 2006

Ég á mér ekkert líf. Það er að segja fyrir utan skólabækurnar. Ég sé fyrir mér að innan skamms verð ég einangruð félagslega. Fyrrum vinirnir segja vandræðalegt hæ þegar þeir mæta mér fyrir tilviljun og smá saman hætta þeir því líka. Ég sökkvi mér æ dýpra í bækurnar og þar með beinustu leið til glötunnar og með hverju árinu þarf ég sterkari gleraugu.

Ýkjur? Ég viðurkenni að það gæti verið. Þó finnst mér alveg ófyrirgefnalega mikið að gera og ég hef ekki farið út með einhverjum af mínum kæru vinum síðan á miðvikudagskvöldið sem verður að teljast hræðilegt. Þó er árangurinn ekki meiri en sá að mér rétt tókst að skila verkefni fyrir fimm í dag en það var ekki tekið við verkefnum eftir það. Miðað við dagana sem tók mig að gera þetta verkefni (sem kemur beint úr iðrum jarðar) þá hefði ég ekki verið mjög sátt ef ég hefði ekki náð að skila því á réttum tíma. Raunar held ég hefði endað á sama stað og nágrannakona mín. Einnig tókst mér að lesa upp í einu fagi svo nú er ég bara á eftir kennsluáætlun í öllum hinum. Magnað! Reyndar er ég orðin svo heilabiluð að mér fannst óumræðilega fyndið að hann Kristján Árnason skyldi alltaf nota orðið saur sem dæmi um tvíhljóðið au. Þessa skemmtun má finna í hinu virðulega riti Íslenskri tungu.

Brynja var auðvitað hjá okkur um helgina svo við þræddum Kringluna og Smáralindina, svo fórum við stelpurnar í bíó á Step up, skyldi alla undra að Styrmir hafi ekki viljað koma með. Ég held að Brynju hafi bara þótt mjög gaman hjá okkur, hún allavega var ekki alveg tilbúin að fara heim og ætlar að koma fljótt aftur.

Það er hættulegt að taka sér lengri pásu frá námi, hef meira að segja lofað Lilju og Andra að heimsækja þau annað kvöld og taka í nokkur spil. Því má ég ekki slá slöku við núna. Að lokum; hversu fátækur er maður þegar ekki eru til 200 krónur fyrir möppu? Mín er að springa, eftir aðeins þrjár vikur. O, jæja....

föstudagur, september 22, 2006

Eins og sjá má hef ég snarlega hætt við að hætta skrifum á síðu þessa. Er það eingöngu vegna þess að ömmu minni varð svo mikið um fregnirnar að hún varð svefnvana. Eins og allir vita er afar mikilvægt fyrir eldra fólk að fá góðan nætursvefn svo ég er byrjuð á ný.

Þriðja vikan í skólanum er liðin og var hún nákvæmlega eins og þær fyrri, endalaus stafli af verkefnum svo ekki gefst tími til að lesa í skruddunum. Því er ég komin í töluverða lesskuld í nokkrum fögum og þyki ég þó hraðlæs. Ég vonast til að ná að vinna þetta upp um helgina en tel ég afar ólíklegt að markmiðið náist. Þarf að skila verkefni fyrir mánudaginn sem að tekur óratíma. Er einmitt að því núna á meðan ég hlusta á Pink Floyd. Það gæti táknað að ég sé dóttir föður míns eða það gæti táknað eitthvað allt annað.
Ég komst óvenju lítið út í vikunni en mér tókst samt að hitta Aggið mitt tvisvar í hádeginu:) og svo var ég að koma úr lunch með Brynju vinkonu. Síðan fórum við á kaffihús á afmælisdaginn hennar Kristínar, mjög gaman allt saman. Ég verð þá að vera enn duglegri að stunda kaffihúsin í næstu viku, er það ekki Margrét? :)

Verð að snúa mér að verkefninu, Brynja systir fer alveg að koma til okkar og þá þýðir ekki að vera með nefið ofan í bókum.
Ekki gleyma að horfa á Prison Break, komnir fimm þættir í nýju seríunni. Alger snilld, veit að Lugure frændi og Agg eru á sama máli.

þriðjudagur, september 19, 2006

Í dag er nákvæmlega mánuður síðan ég flutti til Reykjavíkur. Það er margt búið að gerast, skiptast á skin og skúrir eins og sagt er. Hér á Víðimelnum er gott að vera, sérstaklega í augnablikinu þegar vissir nágrannar eru að leita sér lækninga. Það ku vera mjög jákvætt og því er friðsælt í húsinu. Þvotturinn fær að hanga í friði, við Styrmir fáum að vera í friði og fólk þarf ekki að vera með hjartað í buxunum þegar það kemur í heimsókn.

Vesturbærinn er auðvitað eini staðurinn sem hægt er að búa á í Reykjavík og ég fer helst ekki langt frá honum. Ég er því lítið farin að rata utan hans en mér finnst það líka allt í lagi. Maður verður að halda í sérviskuna, norðlenskan framburð og annað. Það er fínt í skólanum, samt er auðvitað alltof mikið að gera en þannig er samt að vera í Háskóla. Eða hvað, ætli það sé misjafnt á milli deilda? Sumir virðast að minnsta kosti ekki gera svona mikið af verkefnum. Ég held að félagslífið í skólanum verði fínt, ég er komin með sessunaut sem heitir Álfhildur og er einnig orðin málkunnug fleiri stelpum. Utan skólans er brjálað að gera í félagslífinu hjá mér, örlítil breyting síðan í fyrra. Þá átti ég um tvo vini eftir á Akureyri þó það hafi auðvitað breyst með Leikklúbbnum Sögu. Núna á ég fleiri vini í Reykjavík en ég get talið með fingrum og tám og stunda kaffihúsin grimmt.

Á döfinni er svo að Brynja "systir" kemur til okkar um helgina:) Hlökkum mikið til að sjá hana, ég ætla að reyna að plata hana með mér í bíó á einhverja stelpu mynd. 12. október kem ég svo til Akureyrar, þarf að fara til tannlæknis, ekki spyrja! Ég get ekki beðið eftir að koma við á Pálmholti og kíkja á börnin. 2. janúar er för minni heitið til Edinborgar, þá fæ ég að sjá Kjartan í fyrsta skipti í eitt ár. Sá verður orðinn stór. Það er til margs að hlakka:) Kristín Inga á afmæli á morgun, hún hélt upp á það um helgina og ég lét mig ekki vanta. Til hamingju með daginn á morgun Kristín mín.

föstudagur, september 15, 2006

Hætt? Veit ekki, held ekki...