miðvikudagur, nóvember 26, 2008

Mikið er ég fegin að vera flutt. Ég mæli ekki með því að flytja þegar maður er komin 8 mánuði á leið og hefði aldrei getað það án hjálpar. Hjálpin var ómetanleg og vil ég þakka öllum kærlega fyrir og þó mest pabba að öðrum ólöstuðum. Held hann hafi varla vitað að hann væri í Reykjavík þessa tvo daga enda fóru þeir alveg í að hjálpa okkur.
Ég slapp við þrifin og burð en tók að mestu sjálf upp úr öllum kössum, erum búin að koma okkur fyrir núna nema okkur vantar gardínur og þá væri nú aldeilis gott að eiga ömmu örlítið nær sér.

Inga fór svo með mig í jólagjafa- og barnadótskaup um daginn og nú er bara lítið eftir. Hefði sennilega komið tómhent heim án Ingu sem hjálpaði mér að muna í hvaða búðir ég ætlaði, vissi hvar bíllinn var og fleira. Er sjálf illa haldin af meðgönguþoku svo takk Inga mín.

Í tilefni þess að það er rétt um mánuður í krílið ætla ég að láta undan þeim sem hafa verið að biðja um óskalista. Hér kemur hann

*Ömmustóll, þeir eru til rándýrir með tónlist og titring en mér nægir alveg góður stóll sem hægt er að stilla bakið á. Væri mjög gott ef hægt væri að festa stöng á hann með leikföngum en ekki nauðsynlegt.

*Leikteppi, helst með áfastri mjúkri leikslá og leikföngum, e-ð í þessum dúr:



*Tripp trapp stóll, með ungbarnaslá og stuðningi fyrir krílið þegar það er að byrja að sitja

*Leikföng (ekki bangsa, krílið á fjóra en engin leikföng)

*Flísföt úr 66° norður

*Burðarsjal, svokallað hringjasling eða hringjasjal, (eða annað einfalt burðarsjal sem má nota frá fæðingu) ætti að fást í einhverjum barnavöruverslunum annars eru nokkrar vefverslanir með þessi sjöl. Skilst að það sé voða gott að eiga þetta frá fæðingu.

*Manduca burðarpoki, þeir eru reyndar uppseldir núna en það má sjá þá hér:
http://www.123.is/pokadyr/page/19026/
Þeir fást ekki í neinum búðum en ég vil alls ekki Baby björn poka, er búin að lesa mér mikið til um þá og þeir eru slæmir fyrir börnin.

*Sólarskyggni á bílinn (ekki með mynd af hundi, sá svoleiðis um daginn)

*Lítinn spegil í bílinn

*Hlýr poki í bílstólinn, t.d. úr flís. ATH að það þurfa samt að vera hendur á honum eða hann hannaður þannig að beltið komist utan um barnið.

*Vantar eitt hettuhandklæði

*Langar í sængurver með bleiku eða bláu í, fer eftir kyni;)

*Föt eru auðvitað vel þegin en ég er ágætlega sett í minnstu stærðunum 50 og 56. Vantar meira í stærri stærðum en sé kannski frekar hvað það er þegar krílið er komið.

Setti þennan lista upp bara vegna þess að það er alltaf verið að spyrja mig hvað vanti. Þetta er fyrir ykkur sem eruð að huga að sængur/nafngiftargjöfum. Mikið af stórum hlutum þarna svo það er um að gera að vera margir saman ef á að fara út í slík ósköp. Annars er það hugurinn sem gildir og það nægir okkur alveg að fá ykkur í heimsókn og krílinu að fá einn koss :)

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

Þessi vika hefur aðallega snúist um flutninga, að pakka og sinna pappírsvinnu. Ótrúlegt hvað vikurnar virðast snúast um allt annað en nám. Ég er að byrja að sætta mig við að líkurnar á að klára BA ritgerðina á þessari önn eru hverfandi. Fæ samt meirihlutann af námslánunum en spurning hvort þetta hafi áhrif á blessaðan fæðingarstyrkinn.

Af krílinu er allt gott að frétta, það er orðið ansi þröngt um það í bumbunni þrátt fyrir að hún hafi vaxið töluvert. Setti inn nýjar bumbumyndir á síðuna fyrir ykkur sem njótið ekki þeirra forréttinda að eiga í daglegum samskiptum við mig ;)
Krílið er svo heppið að eiga góða að og við erum komin með mest af stóru hlutunum sem er nauðsynlegt að eiga fyrir fæðingu. Auðvitað ýmislegt sem vantar, eins og leikteppi og ömmustóll en það má alveg bíða. Við ætluðum reyndar í dag að kaupa barnapíugræju en hrökkluðumst út þegar við sáum verðið. Eigum smá von um að fá notaða og ætlum aðeins að bíða og sjá til.
Á morgun er svo aukasónarinn til að athuga hvort það sé allt í lagi með nýrun á litla krílinu. Við höfum reynt að hafa sem minnstar áhyggjur en auðvitað erum við svolítið kvíðin. Vona að við fáum góðar fréttir, skrifa inn á barnalandssíðuna eftir sónarinn.

Á laugardaginn er stefnan tekin á samstöðutónleika með fríðu föruneyti. Skilyrðið er eiginlega að ég fái sæti enda erfitt að standa í fjóra tíma komin tæpa 8 mánuði á leið. Á sunnudagskvöldið verður svo síðasta Dagvaktarkvöldið í þessari íbúð og er ég bæði spennt og kvíðin. Þættirnir standa fyrir sínu og eru snilld en ég roðna og blána vegna þess að ljóshærði sakleysinginn er ekki svo saklaus eftir allt saman. Hvað segir þú Ævar, á ég að vera tilbúin með púða fyrir augun :P ?

föstudagur, nóvember 07, 2008

Ég var aðeins of fljót á mér að fagna nýuppgerðri íbúð. Við fengum rangar upplýsingar og það er önnur íbúð sem verið er að gera upp. Við flytjum því ekki inn í nýmálað með nýjum gólfum en flytjum þó. Það eru ekki nema tvær vikur til stefnu (tíminn líður) og ef einhver á kassa eða kann leið til að redda nokkrum góðum má sá hinn sami gjarnan láta mig vita.

Í síðustu viku var full vinna við að fara á námskeið en ég hugsa að ég skrifi um það allt á krílasíðuna okkar. Verður vonandi einhver tími í næstu viku til að sinna námi en ég þarf að skrifa eina stóra ritgerð og svo er það alltaf BA ritgerðin. Það er eitthvað við orðið BA sem gerir það að verkum að samviskubit og ótti hríslast um mig. Held ég sé ekki ein um þetta vandamál í sögunni.

Svo þarf alltaf að huga að væntanlegu barni, kaupa ýmislegt smálegt og sækja um fæðingarstyrk. Fæðingarorlofssjóður er víst undir Vinnumálastofnun svo nú er bara að vona að Runólfur góðvinur minn og félagi sé ekki með puttana í þessu. Honum væri eflaust sönn ánægja að svipta námsmanni þeim skitna 100.000 kalli á mánuði sem fæðingarstyrkurinn er. Krossum putta