föstudagur, nóvember 07, 2008

Ég var aðeins of fljót á mér að fagna nýuppgerðri íbúð. Við fengum rangar upplýsingar og það er önnur íbúð sem verið er að gera upp. Við flytjum því ekki inn í nýmálað með nýjum gólfum en flytjum þó. Það eru ekki nema tvær vikur til stefnu (tíminn líður) og ef einhver á kassa eða kann leið til að redda nokkrum góðum má sá hinn sami gjarnan láta mig vita.

Í síðustu viku var full vinna við að fara á námskeið en ég hugsa að ég skrifi um það allt á krílasíðuna okkar. Verður vonandi einhver tími í næstu viku til að sinna námi en ég þarf að skrifa eina stóra ritgerð og svo er það alltaf BA ritgerðin. Það er eitthvað við orðið BA sem gerir það að verkum að samviskubit og ótti hríslast um mig. Held ég sé ekki ein um þetta vandamál í sögunni.

Svo þarf alltaf að huga að væntanlegu barni, kaupa ýmislegt smálegt og sækja um fæðingarstyrk. Fæðingarorlofssjóður er víst undir Vinnumálastofnun svo nú er bara að vona að Runólfur góðvinur minn og félagi sé ekki með puttana í þessu. Honum væri eflaust sönn ánægja að svipta námsmanni þeim skitna 100.000 kalli á mánuði sem fæðingarstyrkurinn er. Krossum putta