þriðjudagur, júlí 29, 2008

Hvert fór tveggja vikna fríið mitt? Leikskólinn var lokaður í tvær vikur en þær flugu frá mér og nú er ég byrjuð aftur að vinna. Ég gerði auðvitað eitthvað gáfulegt í fríinu, fór t.d. norður og var þar í nokkra daga. Þökk sé móður minni á krílið nú nokkuð af fötum en stóru hlutirnir eru eftir. Við förum rólega í að kaupa þá, flytjum vonandi fyrst.
Ættingjar mínir fyrir norðan ráku upp stór augu er þeir sáu mig enda hefur bumban tekið góðan vaxtakipp;) Þótt ótrúlegt megi virðast er ég að verða komin 19 vikur og meðgangan næstum því hálfnuð. Við förum í 20 vikna sónarinn í næstu viku og erum enn að reyna að ákveða hvort við eigum að forvitnast um kynið.

Í fríinu hitti ég líka Svövu og Jan sem voru á Íslandi og það var auðvitað frábært. Verst bara hvað ég gat hitt þau lítið þar sem þau keyrðu hringinn í kringum Ísland og eyddu litlum tíma í Reykjavík. Ég hitti líka Kjartan minn sem er orðinn svo stór en alltaf jafn yndislegur. Við Styrmir fengum að æfa okkur í að halda á Agnari litla sem er orðinn 4 mánaða og algjört yndi. Ætlaði að taka fullt af myndum af þeim bræðrum en því miður datt myndavélin í gólfið og eyðilagðist.
Styrmir átti afmæli þann 24. júlí og við fórum á Damien um kvöldið. Damien var algjört æði, virkilega góður performer og var jafnvel enn betri en ég bjóst við. Tónleikarnir voru reyndar standandi tónleikar og það var alltof heitt þarna inni sem ég átti erfitt með. Ég var svo heppin að mér var boðið eitt af örfáum sætum sem voru þarna sem sannar að fólk er farið að taka eftir óléttunni og heldur ekki að ég hafi gleypt vatnsmelónu í heilu lagi.

Ætla að enda á nokkrum bumbumyndum sem voru teknar þegar ég var komin 16 vikur og 5 daga. Þarf svo að fara smella af nýjum myndum (notast við gömlu myndavélina meðan ég bíð eftir að fá nýja)