miðvikudagur, júní 25, 2008

Þessi mynd (sem ég stal af myndasíðu pabba öðru nafni afa gamla) var tekin þegar við skruppum norður á útskrift Örnu. Henni til heiðurs drógum við upp húfurnar og burstuðum af þeim rykið. Það var reyndar frekar tæpt að við kæmumst norður þar sem ég tók upp á að æla allan morguninn og þurfti heim úr vinnunni. Ég er náttúrulega orðin sérfræðingur í að æla og kann ýmis góð ráð.
Hér koma nokkur:
*Appelsínur í morgunmat, fínt að æla þeim.
*Taka skal rúsínur með í bíó.
*Legðu vatnsbrúsa aldrei frá þér.
*Bannaðu kærastanum að nota rakspíra eða annan óþverra.
*Forðastu kerlingar sem anga að ilmvatni.
*Ef ætlunin er að æla í vaskinn vertu þá viss um að það komi ekki upp um niðurfallið!
*Þegar þú ert úti og átt eftir nokkur skref heim skaltu syngja í huganum, þannig má fresta ælunni um þessa dýrmætu aukamínútu.
*Ekki vinna á leikskóla þar sem börn nota bleyjur.
*Fyrir fleiri ráð má slá á þráðinn.

Langar að þakka kærlega fyrir allar hamingjuóskirnar og fallegu kommentin í síðustu færslu. Nokkuð skiptar skoðanir eru á kyni barnsins en ljóst er að einhverjir hafa rétt fyrir sér. Við höfum enn rúman mánuð til þess að ákveða hvort við viljum vita kynið.

Við vorum svo heppin að ná miða á Damien Rice á NASA þann 24. júlí (afmælisdag Styrmis) en það seldist upp á fimmtán mínútum. Ég er mjög sátt, enda kappinn í miklu uppáhaldi. Annars áttum við 5 ára sambandsafmæli um daginnn (ég og Styrmir allt svo , ekki Damien) og ákvað Styrmir að baka vöfflur í tilefni þess. Sem betur fer féll hann frá þeirri hugmynd að færa mér þær sem morgunmat í rúmið og voru þær í kaffinu í staðinn. Með smá leiðbeiningum tókst þetta ansi vel. Um kvöldið bauð ég í bíó og var Narnía fyrir valinu. Myndin er ágætt en á ekkert í bókina.

Án þess að vilja enda á leiðinlegu nótunum langar mig að taka fram að ég hef ekki húmor fyrir heilalausum og óþroskuðum kommentum. Má ef til vill kenna um óléttuviðkvæmni en hingað til hafði ég aldrei eytt kommenti. Vissulega ríkir tjáningafrelsi og mega lesendur skrifa það sem þeim dettur í hug en þegar "húmorinn" beinist á ömurlegan hátt að ófæddu barni mínu er mér hins vegar ekki skemmt og eyði ég slíkum kommentum tafarlaust.

Fyrst ég er farin að tala um leiðinlega hluti þá er EM stór vonbrigði. Gæti eytt löngum tíma í að baktala Þjóðverja, hinn ofmetna Ballack og svo hinn ömurlega Schweinsteiger. Nenni því bara ekki núna.

Sumarfrí eftir rúmar tvær vikur, vúhú :)