sunnudagur, júlí 13, 2008

Minning

Ég hef því miður lent í því oftar en einu sinni að missa einhvern mér nákominn. Þá hefur mér alltaf þótt mikil huggun að vera umkringd fólki sem stendur í sömu sporum og leita stuðnings og huggunar hjá hverju öðru. Svo ekki sé minnst á minningarnar sem hægt er að rifja upp saman.
Í dag fékk ég þær hræðilegu fréttir að góður vinur minn, Chris, lést í mótorhjólaslysi. Ég kynntist Chris ásamt fleirum þegar ég bjó í Edinborg og gekk í Edinburgh Acting School. Við héldum sambandi eftir að skóla lauk og fyrir mér var stór hluti af heimsóknum mínum til Edinborgar að hitta vini mína úr skólanum. Þetta er fólkið sem ég vildi vera hjá á þessari stundu, fólk sem er að ganga í gegnum sama missi og ég. En það er ekki missirinn og sorgin sem mig langar að tala um, ekki heldur reiðin yfir að svo ungur maður hafi þurft að deyja. Þeim tilfinningum ætla ég að halda fyrir mig. Mig langar til að rifja upp minningar um Chris þar sem ég hef engan til að deila þeim með.

Þegar ég hitti Chris í fyrsta skipti var hann kynntur fyrir mér sem Big Chris. Mér þótti það töluvert undarlegt þar sem hann var alls ekki stór maður en þegar ég var kynnt fyrir Little Chris og Female Chris gerði ég mér grein fyrir að nafnið var aðeins til aðgreiningar. Litli Chris er bara svo rosalega lítill að sá stærri var stór við hliðina á honum:)
Stóri Chris varð einn af fyrstu vinum mínum í skólanum, með breiðu brosi bauð hann mig velkomna og tók mig undir sinn verndarvæng. Undrun hans varð ekki lítil þegar hann sá mig í fyrsta skipti með "pint af Stellu" en hann sagði mér að sá drykkur væri nefndur wife beater í Skotlandi. Þeir urðu svo nokkrir pintarnir sem við drukkum eftir skóla en hinar stelpurnar fengu sér að sjálfsögðu bara appelsínusafa. Ég er ekki frá því að Chris hafi borið vissa virðingu fyrir mér fyrir vikið.

Ég get auðveldlega heyrt rödd Chris fyrir mér. Hann var svo sannarlega Skoti og fáir töluðu jafn skoskt og hann. Þar af leiðandi tók smá tíma að læra að skilja hann almennilega en hann tók því með þolinmæði. Seinna lærði ég að meta skoskuna og þegar ég fór í heimsókn til Edinborgar gleymdi ég næstum því að hlusta á það sem hann sagði svo gaman hafði ég að heyra hann tala. Ég man sérstaklega vel eftir tíma hjá Crispin í skólanum þar sem við vorum að lesa Shakespeare, þar kom orðið Hurly-Burly fyrir og það var hrein dásemd að hlusta á Chris bera það fram.

Það er svo margs að minnast, Chris vissi ekkert skemmtilegra en að vera í góðra vina hópi enda mat hann vini sína mikils. Hann skutlaði mér stundum heim úr skólanum og ég minnist samtala okkar, hann var alltaf tilbúinn að hlusta. Það var ekki alltaf auðvelt að vera au pair og gott að hafa einhvern að tala við. Chris hafði yndi af mótorhjólinu sínu og fór víða, t.d. til Prag og Svíþjóðar. Leiklistin var líka í blóðinu, hann hélt áfram eftir að skólinn hætti. Hann sendi mér t.d. myndir af sér í hlutverki vondu stjúpsysturinnar í Öskubusku og aðra þar sem hann var í hlutverki Brasilíumanns með heljarinnar mottu. Við héldum sambandi í gegnum tölvupóst og hann ítrekaði alltaf að við Styrmir værum velkomin að gista hjá sér þegar við kæmum til Edinborgar. Svo bætti hann einu sinni við að einhleypar vinkonur mínar væru velkomnar með ;)
Ég hafði hugsað mér að þiggja boð hans, það stóð alltaf til að fara á þessu ári. Það er óraunverulegt að hugsa til þess að næst þegar ég fer verður enginn brosandi Chris þar.
Læt þetta nægja í bili um minn góða vin Chris Richardsson og enda á myndum.

Chris ásamt Pammie og May úr skólanum.





Vinirnir úr skólanum; Stóri Chris, Jo, Litli Chris, Pammie og ég

Heimasíða Chris