Í fréttum er það helst að við erum búin að fá úthlutað íbúð á Vetrargörðum þann 24. nóvember. Íbúðin er ekki stærri en sú sem við erum í núna en hún er fjölskylduvænni í alla staði. Getum t.d. verið með eigin þvottavél sem er ekki amalegt þegar ungabarn bætist við. Einnig er mjög jákvætt að verið er að gera íbúðina upp, mála og skipta um gólfefni svo við flytjum bara inn í nýja íbúð nánast:)
Það fylgja því ýmsir gallar að vera komin 8 mánuði á leið þegar að flutningunum verður en kostirnir eru þeir að allir eru boðnir og búnir að hjálpa. Hvorki veður né vinna fá stoppað minn stóra og sterka föður og fleiri ætla að leggja okkur lið svo ég og krílið þurfum ekki að reyna á okkur. Ætli ég komi mér ekki bara vel fyrir og gefi skipanir í allar áttir ;)
Annars er brjálað að gera, þá aðallega í að vera óléttur, sinna sundi, jóga og námskeiðum. Svo þýðir ekki annað en byrja á Ritgerðinni á fullu í þessari viku. Er ennþá bara að dunda mér í forvinnu en kemst ekki mjög langt á því. Var einmitt með fyrirlestur í síðustu viku og barnið var í svaka stuði og ákvað að koma sér fyrir eins ofarlega og það gæti. Við það átti ég afar erfitt með andardrátt og átti í miklum erfiðleikum með að koma fyrirlestrinum frá mér. Ég gat nánast ekki lesið heilar setningar án þess að anda og hvað eftir annað átti ég von á að líða út af. Þetta tókst þó og ágætir bekkjarfélagar mínir voru svo vingjarnlegir að ljúga því að þeir hefðu ekki tekið eftir neinu. Verst að ég þurfti að tala í hljóðnema þar sem þetta er allt tekið upp fyrir fjarnema.
Kreppan bítur okkur eins og aðra en ekki alvarlega. Enda ágætt að vera eymingi sem á ekki neitt og vinnur ekki neitt á þessum síðustu og verstu. Sá reyndar auglýsingu í dagblaði um daginn þar sem stóð "..besta LCD í Evrópu." Sem snöggvast hélt ég að þarna stæði besta LSD í Evrópu og var viss um að Davíð, Geir og félagar væru búnir að finna lausn á kreppunni. Breyta Íslandi í eiturlyfjaparadís! Lögleiða eitrið og hingað myndu útlendingar streyma og þjóðin verða moldrík á nó tæm (svo ég sletti). Alveg væri það eftir þeim blessuðum en í þetta skipti hafði ég rangt fyrir mér. Spurning um að ég fái einkaleyfi á hugmyndinni...
<< Home