föstudagur, nóvember 24, 2006



Það tókst, erum við ekki glæsileg? Takið sérstaklega eftir listræna föndrinu hjá Steinari:)

Elskulega bloggsíðan mín hefur verið frekar treg síðustu daga. Ég bloggaði um daginn og setti meira að segja inn glæsilega mynd af mér og Steinari við jólakortagerð. Síðan mín virðist bara alltaf mótmæla þegar ég reyni að birta myndir.

Ég er búin að panta flug norður um jólin. Er búin í síðasta prófinu klukkan 12 þann 20. desember og á flug klukkan 13:15. Mikið hlakka ég til að losna úr stressinu. Er einmitt búin að vera frekar stressuð síðustu daga, dreymdi í sífellu að ég fengi illilega sexu fyrir ljóðaritgerðina. Sem betur fer gekk það nú ekki alveg eftir. Nú er ég meira að segja búin með ritgerðina úr Aftureldingu og búin að skila henni, mikill léttir. Ég er svo loksins að fara í leikhús annað kvöld, hef ekkert farið síðan ég flutti suður. Ástæðan er reyndar sú að ég þarf að skrifa leikritagreiningu og fer því með skólanum. Ég fer þó allavega í leikhús.

Fór í gærkvöldi til Ástýjar og Ernu, þar var einnig hún Bára mín. Við skemmtum okkur mjög vel við að blaðra um heima og geima, meðal annars úthúðuðum við nágrönnum svona almennt. Bára ætlar svo að bjóða okkur heim fljótlega og af rausn sinni hyggst hún gefa okkur afleggjara af brjáluðu aloe vera plöntunni sinni. Bára er svo góð stúlka:)

Það er margt gleðilegt á döfinni, þar má helst nefna jólin og Edinborgarferðina. Malena Mina Johanna var einmitt að panta ferð til Edinborgar á sama tíma og ég verð þar. Þessi stúlka er algjör snillingur. Ég væri samt alveg til í að geta hlakkað til Rockstar tónleikana 1. des. Ég veit að Inga og Brynja eru að fara og ef ég fyndi 5000 kall á götunni væri ég líka að fara. Ég bíð bara eftir kraftaverki.

Að lokum skal taka fram að þið getið hætt að hafa áhyggjur af okkur. Við erum loksins komin á vetrardekk þökk sé Jóni Ágústi. Kærar þakkir fyrir það Jón.

laugardagur, nóvember 11, 2006

Þessi atburður hófst fyrir rúmum sólahring....

Ég vaknaði klukkan fjögur í nótt við vindinn. Hann var í essinu sínu svo hávær og kröftugur að það var engin leið að sofna. Eftir að hafa talið 2000 kindur, bylt mér 300 sinnum og drukkið tvö vatnsglös lognaðist ég út af um áttaleytið. Ég átti að mæta í skólann klukkan 10 í frekar mikilvægan tíma en svaf yfir mig. Ég hafði það samt af að fara í seinni tímann og í ræktina á eftir, þótt dauðþreytt væri. Á heimleiðinni hlakkaði ég til að komast inn í hlýjuna og ákvað að hita mér samlokur. Niðursokkin í hugsanir mínar tók ég ekkert eftir því hvernig skyndilega dimmdi yfir öllu. Það var ekki fyrr en höglin buldu á mér sem ég hrökk upp. Mér vað hugsað til bókarinnar sem ég hef nýlokið við og ber nafnið Afturelding. Þar er mikið um lýsingar á þeim sársauka sem fylgir því að vera skotin með haglabyssu. Haglélin olli vissulega sársauka, hún smaug allstaðar í gegn, lamdi fæturnar í gegnum þunnar buxurnar og skarst inn í óvarið andlitið. Ég fauk inn á bókhlöðu og beið þar nokkra stund. Ég gat ekki hrist af mér ónotin sem líkindin við Aftureldingu sköpuðu. Tilhugsunin um að fá í mig hagl úr byssu olli mér ónotum og ég rifjaði upp hvernig einn missti fót, annar auga. Hvort þessi nýji skilningur minn hjálpi mér við að skrifa ritgerð um bókina er önnur saga.

Veðrið skánaði ekkert svo ég vafði treflinum fyrir vitin og lagði af stað heim. Það var dásamlegt að koma inn. Ég var köld í gegn og setti strax samlokugrillið í samband. Eftir að hafa sett samlokurnar í grillið ákvað ég að setja í eina vél á meðan ég biði. Ég fór fram í þvottahús en á meðan stakk pósturinn bréfum inn um útidyrnar. Ég tók þau og sá að þau voru hvorki stíluð á mig né Styrmi. Ég opnaði því dyrnar og rétti póstinum þau aftur. Það var ekki fyrr en ég snéri mér við sem ég sá að vindurinn hafði lokað dyrunum inn í íbúðina. Þarna stóð ég á sokkunum, símalaus, allslaus og læst úti á meðan lyktin af grilluðum samlokum barst í gegnum hurðina. Ég fékk auðvitað áfall, hvað átti ég að gera? Ég hljóp út á sokkunum sem urðu samstundis rennandi blautir og hringdi dyrabjöllunni hjá nágrannanum á efstu hæðinni. Hann var ekki heima og ég horfði efins á dyrnar við hliðina. Þau voru heima svo mikið var víst. Á meðan ég stóð þarna á þunnum bolnum og blautum sokkunum og reyndi að ákveða mig sá ég miða á hurðinni. Þar stóð með barnalegri skrift: ,,Enga votta jehóva hér. Farið burt segir.... "og svo nafnið á þeim sem skrifaði miðann. Þó ég væri alls enginn vottur efaðist ég um að ég væri velkomnari. Skyndilega sá ég vegfaranda svo ég hljóp til hans og bað hann um síma, hann horfði á mig hneykslaður og gekk burtu. Ég íhugaði að hringja bjöllunni í einhverju af næstu húsum þegar annar vegfarandi kom gangandi. Skjálfandi af kulda og vosbúð spurði ég hvort að hann væri með síma. Unglingurinn sem var á aldur við Sindra var ósköp vingjarnlegur en inneignarlaus. Ég bað þá um að hringja collect hjá honum. ,,Ég er hjá Vodafone" var svarið. Þessi piltur fór þó ekki, hann vorkenndi mér augljóslega og var eflaust gæddur því fágæta eðli að vilja hjálpa konu í nauð. Það var ekki fyrr en þriðji vegfarandinn kom sem ég kvaddi piltinn með virktum. Þetta var kona, ég horfði löngunaraugum á skjólgóðan hlífðarfatnað hennar. Ég held ég sé með símann sagði hún við þessa stúlkukind sem stóð skjálfandi fyrir framan hana, hálfblá að kulda. Enda búin að vera úti í meira en 10 mínútur. Hún hóf að róta í töskunni sinni og ég nánast grét að gleði þegar hún dró upp gljáandi síma. Ég hringdi í Styrmi og sagði honum að flýta sér og þakkaði konunni lífgjöfina í flýti. Að því búnu hljóp ég inn aftur.

Ég dreif mig úr sokkunum og horfði örvæntingarfull á hurðina. Lyktin sem barst í gegnum hana var ekki góð lengur heldur óþægileg. Ég beið í heila eilífð og brunalyktin magnaðist með hverri mínútu. Loks kom Styrmir (það tekur tíma að keyra frá höfðanum í Vesturbæinn) Ég hljóp inn og kippti grillinu úr sambandi, svartar samlokurnar fóru í ruslið. Málinu var bjargað, það hafði ekki kviknað í.

Þótt ótrúlegt megi virðast þá endaði þessi óhappadagur vel. Okkur var boðið í mat til Ingu og Jóns ásamt Lilju og Andra. Fengum rosalega gott að borða og áttum góða kvöldstund. Ég átti það líka skilið, er það ekki?

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Þá er ósköp ljúf helgi að líða undir lok. Foreldrar mínir og bróðir voru hjá okkur og fæddu oss og klæddu. Nú tekur raunveruleikinn við, núðlur í kvöldmatinn og tími til kominn að taka skólabækurnar upp úr töskunni. Er á meðan er, sagði maðurinn.