miðvikudagur, janúar 28, 2009



Hér má sjá litlu dömuna á leikteppinu í fyrsta skipti, við ætluðum reyndar að ná brosi en það tókst ekki í þetta skiptið.

Allt gott að frétta, mótmælin skiluðu árangri þrátt fyrir að við höfum ekki tekið þátt í þeim, höfum haft um annað að hugsa. Nóg að gera í blessuðum skólanum og svo þarf víst að kaupa skólabækur sem eru ekki gefins þetta árið.

Á sunnudagskvöldið vorum við boðin í mat til Ingu og Jóns í hangikjöt hvorki meira né minna. Mjög mikil sárabót fyrir einhvern sem fékk ekkert reykt um jólin. Krúttið var svo þæg hjá þeim skötuhjúum að ég er viss um að þau halda að það sé ekkert mál að eiga barn ;)

Í gær horfði svo öll fjölskyldan á United bursta WBA 5-0 og vorum við frekar sátt með þetta allt saman. Litla Styrmisdóttir kippti sér reyndar ekki mikið upp við þetta enda var hún alveg viss um að sínir menn myndu hafa þetta :)

Jæja nú er einhver orðin svangur, best að hlýða kallinu.

fimmtudagur, janúar 22, 2009

Au pair óskast. Ekki til að sinna barninu mínu, því tími ég ekki. Nei öllu heldur til að sinna heimilsstörfum, eins og þrifum, þvotti, eldamennsku og uppvaski. Hún mætti líka læra aðeins fyrir mig líka. Og launin, ja ánægjan af því að umgangast okkur ;)

Var að setja inn fréttir í vefdagbók og myndir á heimasíðu dótturinnar, njótið vel.

laugardagur, janúar 17, 2009

Þá er maður smátt og smátt að venjast nýja hlutverkinu. Það er krefjandi og skemmtilegt í senn og mikil ábyrgð. Okkur finnst foreldrahlutverkið mjög gefandi og hlökkum til hvers dags, hver kúkableyja er hin besta skemmtun :)
Litlan er orðin 2 vikna og hefur stækkað töluvert, hún er farin að taka betur eftir og grandskoðar á okkur andlitin. Við getum ekki beðið eftir að hún fari að brosa, fallegu brosin hennar hingað til eru víst bara vindverkir;)

Mér reynist afar erfitt að byrja í skólanum, nóg að gera við að sinna heimili og barni. Faðir minn bloggaði um kúkableyjur á dögunum en um var að ræða taubleyjur af mér. Ekki skil ég hvernig þau gömlu fóru að þessu, við eigum um 50 taubleyjur sem við notum á skiptiborðið og undir ælu en erum samt alltaf að þvo og strauja, merkilegt nokk.
Ég verð nú að grobba mig af því að ég stóð við stóru orðin og léttist um tíu kíló eftir jólin, geri aðrir betur ;) Þrjú eru svo farin í viðbót því bjúgurinn fer minnkandi. Það er þó af nægu að taka og efast ég um að ég bloggi frekar um holdarfar mitt. Ég ætti samt kannski að selja hugmyndina að megruninni til Hollywood.. Eignastu barn og misstu 10 kíló á einu bretti.

fimmtudagur, janúar 08, 2009

Takk innilega fyrir allar kveðjurnar, setti inn myndir á heimasíðuna hennar fyrir ykkur að skoða. Hér er líka eitt lítið myndband sem pabbinn tók á fyrsta degi :)

þriðjudagur, janúar 06, 2009

Litla dóttir okkar kom í heiminn þann 3. janúar klukkan 15:55. Hún var 4020 grömm og 52 cm. Hún var ekkert að flýta sér en fæðingin tók 50 klukkutíma. Við vorum svo bara að koma heim í dag þar sem ég missti svo mikið blóð að ég þurfti að liggja inni á sængurkvennadeild. Því hef ég lítið svarað í símann og við erum enn ekki tilbúin að fá gesti en vonandi fer þetta allt að koma. Set inn myndir á síðuna hennar við fyrsta tækifæri en hér er smá sýnishorn af fullkomnu litlu stelpunni okkar.

Hér er hún bara nokkra tíma gömul :)

Þessi mynd var tekin í dag, rétt fyrir heimferð. Hér er hún í fínu fötunum sem langamma Auður prjónaði, í fanginu á besta pabbanum.Það kom flestum á óvart að hún virðist ætla að vera ljóshærð :)