föstudagur, október 29, 2004

Ég var búin að blogga á hverjum degi í rúma viku svo ég ákvað að taka mér smá hlé. Er reyndar búin að vera frekar upptekin síðustu tvo daga. Var með Kjartan langt fram á kvöld báða dagana og á miðvikudaginn frá 8 um morguninn. Það hefur gengið mjög vel, við erum búin að fara í hina ýmsustu leiki, svosem Karíus og Baktus og riddaraleik. Þá var Kjartan riddari sem átti fjólubláan asna, sá át reiðar flugur og köngulær. Börn hafa svo skemmtilegt ímyndunarafl:)
Svo var auðvitað þrifdagur í gær. Það er alltaf ábyrgð að þrífa fyrir annað fólk svo ég tali nú ekki um þegar fólk er að koma og skoða íbúðina. Ég þreif því af öllum mínum kröftum. Ingibjörg var afar ánægð þegar hún kom heim, hún gat bara slakað á þangað til fólkið kom. Það komu bara tveir í gær, gengur hægt en gengur vonandi.
Svo koma amma Kjartans og Guðrún frænka hans eftir smá stund, heppilegt að húsið er svona fínt. Ég á að vísu eftir að búa um þær í mínu herbergi. Ætli það sé ekki best að koma því frá.

Að lokum. Veit ekki hvað ég geri um helgina. Það getur hugsanlega verið að Soffía nenni að hitta mig. Svo var Áslaug að hafa samband við sætu sveitastelpuna. Þannig ég mun líklega hafa eitthvað fyrir stafni. Það er líka Halloween á sunnudaginn. Við Kjartan og Ingibjörg erum búin að gera Mr. Pumpkin, hann passar húsið fyrir draugunum. Gott mál.

þriðjudagur, október 26, 2004

Í dag var ég alveg óvænt í fríi. Þurfti að vísu að fara með Kjartan á leikskólann og sinna heimilisstörfum en þar með eru skyldur mínar upptaldar. Kristján var nefninlega í fríi í dag til að gera við baðvaskinn á heimilinu. Betra að hafa allt í toppstandi ef hugsanlegir kaupendur fara að skrúfa frá krönum. Því miður var þessum frídegi frekar illa varið þar sem ég vaknaði með rosalegt tak í bakinu. Er alveg við dauðans dyr en tórði frameftir degi með því að horfa á sjónvarpið og eta súkkulaði. Var svo sárkvalin að ég íhugaði að sleppa skólanum en harkaði af mér.

Það kom einhver með þá snilldarhugmynd að hafa aðra hópa á þriðjudögum og hún var samþykkt. Þar með losna ég við Zoe en Fiona er því miður líka í þriðjudagshópnum mínum. Þar er líka hún Samara vinkona mín og ég er líka með Ansley og Dönu í þessum hópi svo ég kvarta ekki.
Mánudagshópurinn minn ber nafnið Kings en náði ekki alveg nafninu á þriðjudagshópnum. Crispin mun kenna mér acting fyrstu tvær annirnar en svo skiptum við á þriðju önn og þá mun ég fá Justin. Allt fyrir fjölbreytnina. Fengum það heimaverkefni að fylgjast með ókunnri manneskju sem við sjáum daglega í fjórar vikur. Að þeim tíma liðnum eigum við að leika þessa manneskju í tíma, herma eftir henni í hreyfingum og háttum. Ætli ég velji ekki einhvern skrítin úr ræktinni, veit það annars ekki.
Í kvöld áttum við meðal annars að vera tvö og tvö saman og segja hvort öðru frá eftirminnilegum atburði í lífi okkar. Ég sagði frá því þegar ég fékk langþráðan, lítinn bróður og félagi minn sem var stúlka að nafni Sharon táraðist, híhí. Síðan átti maður að standa upp og segja öllum söguna sem félagi manns deildi með manni, nema maður átti að láta eins og þetta hefði komið fyrir mann sjálfan. Við Sharon komumst reyndar ekki að, kannski eins gott, stúlkan hefði varla komist ógrátandi frá þessu.

Þegar ég kíkti í gestabókina mína í dag sá ég forvitnilega færslu frá henni Elínu. Hún sagði að Áslaug, íslenska stelpan sem ég er nýlega búin að kynnast hefði skrifað um mig á blogginu sínu og hefði það ekki verið fallegt. Ég varð mjög forvitin og leitaði bloggið hennar Áslaugar uppi. Þetta var reyndar alls ekki slæmt, ég hafði gaman af. Hérna kemur það orðrétt: Hitti samt íslenska stelpu sem er au pair hérna og heitir Auður. Hah! það er sama hvert ég fer, alltaf finn ég Auði. Hún er voða fín, svona ofboðslega sweet og naíf sveitastelpa (enda frá Akureyri, sem ég hef heyrt að sé einhvers staðar lengst út á landi!) Jahá, þar höfum við það, hvað finnst ykkur, er þetta ég? :) Þeir sem hafa áhuga á að skoða allt bloggið hennar Áslaugar geta kíkt á það hér
Ég held ég fari að halla mér núna

mánudagur, október 25, 2004

Ég er svo óheppin. Þetta getur bara ekki verið eðlilegt, ég lenti í hóp með báðum leiðinlegu stelpunum í skólanum. Þær Zoe og Fiona eru svo leiðinlegar að það er skelfilegt. Ég virkilega vorkenni þeim og vona þeirra vegna að það séu til lyf við þessu.
Ég er ekki alveg nógu ánægð með hópinn minn en ljósu punktarnir eru félgar mínir Ansley og Derrik ásamt Dönu sem er mjög fín stúlka, nokkrum árum eldri en ég myndi að ég held. Drengur að nafni Finn er þarna líka, hann virðist öðlingspiltur en er frekar feimin. Við erum yngst í hópnum, svo eru það þær leiðindapíur (sem eru á óræðum aldri, einhverstaðar á milli 20-40) Pammie er líklega rúmlega 30, hún er fín, hress og laus við að vera góð með sig. Svo er það Mel gamli, svosem allt í lagi að hafa hann og að lokum er nýr gaur í hópnum að nafni Darren , giska á að hann sé um þrítugt.
Þá er það upptalið. Ég myndi vilja hafa Samöru hjá mér og ýmsa fleiri úr hinum hópnum, allar stelpurnar eru þar, en það þýðir víst ekki að sýta það. Við byrjuðum í voice hjá Anne, það var mjög fínt, lágum mestallan tímann á gólfinu með fæturnar upp á stól og bækur undir höfðinu. Gerðum allskonar styrktar- og öndunaræfingar. Ef maður nær að slaka vel á í þessari stellingu í 15 mín, jafnast það á við klukkutíma svefn!
Svo var fyrsti movement tíminn hjá Crispin, það gekk vel, óttaðist að við þyrftum að fara að dansa ballett en sú varð raunin ekki. Við gerðum mikið af því að ganga, æfa okkur að bera okkur eftir mismunandi þjóðfélagsstöðu. Gerðum samt eina mjög óþægilega æfingu. Við vorum tvö og tvö saman og þurftum að standa svo þétt að við snertumst og horfast í augu. Ég lenti með Darren, nýja gaurnum, og það eina sem hann gat aulað út úr sér var "they are brown", alltsvo augun í mér. Ég tjáði honum frekar snúðugt að sú vitneskja væri mér þegar kunn og andaði léttar þegar þessi æfing var búin.
Eftir skólann fórum við flest á bar sem við fundum í nágrenninu. Það er nefninlega búið að flytja skólann og ekki er bar í nýja húsinu. Það var gaman hjá hópnum að sameinast á ný og Mel kom með þá hugmynd að setja upp lítið leikrit í endann janúar, og hafa svo partý á eftir. Leikritið er nokkurskonar barnaleikrit, undarleg útgáfa af öskubusku eftir Mel sjálfan. Hugmyndin er góð en ég er ekki viss um að handritið sé það. Mel finnst hann ráða svolítið miklu af því að hann er fullmenntaður leikari og svo er hann miklu eldri en við, það er frekar pirrandi. Fólki leist þó vel á þetta, það eru 10 hlutverk í leikritinu, en bara eitt kvenhlutverk, öskubuska sjálf. Fiona sagði samt strax að þetta yrði erfitt fyrir hana af því hún þyrfti að læra 12 mismunandi texta fyrir þá tólf leiklistarskóla sem hún ætlar að sækja um. Hún bætti þó samstundis við að það væri engin hæfari en hún til að leika öskubusku, því auðvitað þyrfti öskubuska að geta sungið. Eitthvað fékk hún dræmar undirtektir, þetta kemur allt í ljós bara.

Á morgun förum við í acting og þá kemur í ljós hvort að Justin eða Crispin verður minn leiklistarkennari. Sem betur fer er ekki eins mikið vandamál og ég hélt að komast í skólann. Það tekur svona 40 mín með þessum 2. strætóum.
Ég er að hugsa um að fara að leggja mig, vonandi öðlast ég styrk til að þola Fionu og Zoe í heilt ár.
P.S. Ég er viss um að þær tala ekkert skár um mig. Þær hafa aldrei yrt á mig, þær halda líklega að ég sé vangefin af því að ég tala ekki fullkona ensku..

sunnudagur, október 24, 2004

Þetta er búið að vera frekar rólegur dagur hjá mér. Er búin að dingla mér í bænum bara, vildi ekki vera fyrir þegar fólkið kom að skoða. Það komu sem betur fer 5 í dag svo það er aldrei að vita nema þeim takist að selja fljótlega.
Fór svo í bíó áðan á Alfie með Jude Law, (hann lék sumsé í myndinni, hann kom ekki með mér á hana) mynd sem byrjaði ekki nógu vel en vann á og var bara nokkuð góð. Þegar ég kom heim beið mín afmæliskaka því Kristján á afmæli. Ég gerði henni góð skil og át svo nokkra þrista meðan ég talaði við foreldra mína og elskulegan litla bróður í síma.
Næsta vika kemur líklega til að vera nokkuð einmannaleg hjá mér því þeir fáu vinir sem ég á munu allir flýja land nema Soffía. Vonast til að fá hana til að gera eitthvað með mér um helgina. Skólinn mun þó halda mér uppi á morgun og hinn. Það er að segja ef ég kemst í hann, það er nefninlega búið að færa hann. Ég get ekki lengur tekið strætó beint svo ég þarf að skipta um strætó og hef ekki hugmynd um hvar á að fara út, slæmt. Svo verður hópnum skipt á morgun, er svolítið kvíðin útaf því.

Það er ekki búið að breyta tímanum, það verður ekki fyrr en næstu helgi svo ég er enn um sinn klukkutíma á undan ykkur á Íslandinu.
Á föstudaginn koma svo amma Kjartans og frænka hans og jafnaldra í heimsókn. Þær verða fram að þriðjudag og fá að sjálfsögðu afnot af herberginu mínu. Svona er maður góður eða eitthvað. Jæja geisp, ætla að halla mér.

laugardagur, október 23, 2004

Þegar ég vaknaði í morgun beið mín risasending frá ömmu og afa í Garðabænum, já og ekki má gleyma Oddnýju. Heilt haf af nammi og Séð og heyrt með Idolinu frá Akureyri. Alls ekki slæmt verð ég að segja, ég er mjög þakklát. Gott að vita að maður er ekki alveg gleymdur, auk þess sem allt er gert til að ég haldi öllum mínum kílóum;)
Þetta hefur verið rólyndisdagur hjá mér. Kom mér til Soffíu um fjögur. Hún var jafnvel latari en ég svo við rétt fórum út og fengum okkur pitsu og eyddum svo kvöldinu fyrir framan sjónvarpið. Lenti samt í einhverjum skrítnum gaur í strætó á leiðinni heim. Örugglega dópaður, með hatt og hélt á stórum myndaramma með fullt ljósmyndum í. Hann settist fyrir aftan mig í strætó og teygði höndina yfir í sætið við hliðina á mér, ég var öll á nálum og flýtti mér út fyrr en ég átti að gera. Gaurinn elti mig bara, hafði það á tilfinningunni að hann myndi gera eitthvað svona og hljóp smá spotta. Þegar hann fór að hlaupa á eftir mér dró ég upp skæri (sem ég er óvart með í töskunni, fékk þau lánuð hjá Habbý til að klippa toppinn. Ég var því tilbúin að mæta gaurnum en hann missti rammann sinn og ljósmyndirnar fóru út um allt. Hann tók myndirnar fram yfir mig og lét sér nægja að kalla á eftir mér. Ég gekk hinsvegar heim vopnuð skærum allan tímann.

Yfir í aðra sálma. Ég horfði á Pirats of the Carabian í gær. Þegar Johhny nokkur Depp kom á skjáinn með þessar dásamlegu hreyfingar brá mér heldur en ekki í brún. Ég sá fyrir mér stúlku nokkra í bleikum, virkilega ljótum kjól með hvítmálað andlit og rauðar kinnar. Einnig heyrði ég fyrir mér drafandi rödd stúlkunnar segja "Ég á enga peninga." Já Sessý mín, enda viðurkenndir þú fyrir mér að þú hafir notað Jack Sparrow til að túlka drukknu hóruna í Sweeney Todd:)
Það getur verið að tímabreytingin verði í nótt. Soffía heldur það að minnsta kosti, veit það ekki með vissu. Þá verður tíminn hér sá sami og á Íslandi, gott mál. Svo er opið hús aftur á morgun, ég hugsa að ég forði mér bara á meðan.

föstudagur, október 22, 2004

Mikið langaði mig að dangla í hausinn á sendlinum sem kom loksins með golfkylfuna í dag. Ég búin að sitja inni í þrjá daga og bíða og svo var sendillinn bara ekki hið minnsta kurteis. Þó svo ég hafi verið mygluð, með úfið hár þá þýðir ekki fyrir hann að mögla. Það væri nú síðasta sort að vera að hafa sig til fyrir hann!
Ég gat því farið með Kjartan aðeins út, við fórum í bæinn og enduðum á kaffihúsi. Þar gaf ég honum mandarínur og kenndi honum að búa til báta og leika sér með matinn, úpps. En honum þótti það mjög gaman:)
Í kvöld er bara rólegt kvöld hjá mér, ætla að vera heima og kannski glápa á eitt stykki DVD mynd eða svo. Er líka búin að vera að fikta við að setja fleiri tengla inn á síðuna mína, setti svo allt heila klabbið í stafrófsröð. Andri er ekkert efstur af því að ég elska hann mest, alveg satt Lilja;)

Ég var með Kjartan alveg til sjö í gær og fór svo með hann yfir til Habbýar meðan húsið var opið fyrir fólk að skoða. Það kom því miður bara einn, en hann var víst voða hrifin. Svo er aftur opið hús á sunnudaginn, þá koma víst venjulega fleiri.
Ég reyndi að finna íbúðina á netinu, ætlaði að setja link svo fólk gæti skoðað hvernig ég bý. Það tókst ekki, kemur kannski seinna.
Á morgun ætla ég að kíkja í bæinn með Soffíu, hún ætlar líka að reyna að plata mig í bíó annað kvöld. Veit ekki alveg hvernig það fer útaf margumtöluðu peningaleysi.

Ég er búin að hugsa mikið síðustu daga. Eftir að ég byrjaði í leiklistarskólanum þá hafa augu mín opnast fyrir því að það getur virkilega verið gaman að vera í skóla. Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri, ég virkilega nýt þess. Afhverju að fara þá í gamla farið aftur? Byrja í venjulegum skóla og þurfa alltaf að gera eitthvað sem manni finnst virkilega leiðinlegt. T.d. ef ég fer í íslensku eins og ég hef hugsað mér. Þá þarf ég að taka hljóðfræði sem mér er meinilla við. (Hefði sagt hata en sá fyrir mér ávítandi augnvip ömmu Auðar) Já hljóðfræðiáfanginn í 4. bekk gerði alveg útaf við alla þolinmæði í þá átt. Ansans vandræði, kannski gerist ég bara rithöfundur, eyði tímanum á kaffihúsum með skrifblokk og blýant og naga blýantinn hugsandi á svip á milli þess sem ég fæ hugmyndir. Hvað finnst ykkur?

fimmtudagur, október 21, 2004

Það er þrifdagur hjá mér í dag. Ég er meira að segja bara sátt við það því það er skárra að þrífa á fimmtudögum en föstudögum. Ástæðan fyrir þessum breytingum er sú að húsið er opið til skoðunnar á fimmtudögum. Því á ég von á því að allt fyllist af brjáluðu fólki í kvöld sem þuklar á öllu og færir til húgögnin. Eins gott að ég ryksugaði bakvið allt og undir öllu.
Þarf svo að eyða deginum heima því ég er að bíða eftir einhverjum golfkylfum fyrir Kristján auk þess sem kona nokkur ætlar kannski að kíkja á íbúðina því hún nennir ekki að bíða þangað til í kvöld.

Það gekk ótrúlega vel að passa fyrir Habbý í gær. Ég var bara ein með þau og þau voru eins og englar. Svo kom Habbý heim og leyfði Kjartani að vera áfram. Ég þurfti nefninlega að fara heim að bíða eftir golfkylfunum sem komu ekki. Það var mjög skrýtið að vera svona í fríi og ég vissi varla hvað ég átti að mér að gera svo ég lagaði bara til.
Þegar var orðið alveg ljóst að það kæmu engar golfkylfur fór ég aftur yfir til Habbýar og var þar fram eftir kvöldi því okkur á Darnell road var boðið í mat. Eftir það kom hún Eva til mín og við horfðum á Nip/Tuck og fórum í mjög misheppnaða búðarferð. Já, hún Eva er eitthvað hrædd við hringtorgin. Svo fara hún og hennar "fjölskylda" og Habbý og fjölskylda til Íslands á morgun. Ég veit ekki hvað ég á að mér að gera um helgina, á líka enga peninga. Hvert fóru þeir..?

miðvikudagur, október 20, 2004

Ég lenti í alvöru rigningu í gær, það hefur ekki gerst þessa tvo mánuði sem ég hef verið hérna. Ég var með Kjartan í Botanics þegar skyndilega.... opnuðust flóðgáttir himinsins og við fengum að finna fyrir reiði guðanna (eða eitthvað). Það var reyndar ekki kalt en við vorum ekki klædd til að þola þessa rigningu svo það þýddi ekki annað en að skipta um alklæðnað þegar við komum heim. Ég er samt ekkert að kvarta, ömurlegt veður á Íslandi hef ég heyrt.
Ég mætti svo í skólann í gær og við fengum aðeins að sjá Crispin, Justin var ekki mættur ennþá. Crispin virðist fínasti náungi og hann á eflaust eftir að geta hjálpað mér að hreyfa mig þokkafullt á sviði, hehe.
Annars var bara mjög gaman í gær, okkur var meðal annars skipt í hópa og hver í hópnum fékk miða með einu orði. Ég var í hóp með Samöru, Ansley og Mel. Ég fékk orðið sykur, Ansley regnbogi, Samara rakvélarblað og Mel þrumur. Síðan fengum við tíma til að útfæra þessi orð sem karaktera og svo áttum við að leika þá fyrir hina. Þeir áttu svo að giska á hvaða orð við hefðum fengið. Ég skilaði mínum sykursæta og smeðjulega karakter bara vel, skemmtilegt. Held meira að segja að minn hópur hafi verið bestur.
Eftir skólann tókst Samöru það sem Gary tókst ekki, að fá mig með sér á barinn. Þar voru fyrir Chris (einn af 3. Chrisunum) Mel, Pam og May. Ég spjallaði aðeins við þau öll, May sýndi mér mynd af börnunum sínum sem eru 10, 8 og 5 ára, algjörar dúllur. Chris deildi með okkur áhyggjum sínum af að verða þrítugur sem hann verður í næsta mánuði, hann á alla mína samúð. Eftir góðar stundir á barnum röltum við Samara út á strætóstöð. Við spjölluðum heilmikið, komst að því að hún er 22 ára, búin með háskóla og ætlar að reyna í annað skipti við fullt nám í leiklistarskóla. Ég get ekki annað en verið leið yfir að það sé ekki skóli á hverju kvöldi.

Núna er ég bara að reyna að safna kröftum því ég þarf að fara yfir til Habbýar á eftir að passa öll villidýrin. Það er engin orka til en einhvernvegin hlýt ég að komast í gegnum þetta. Eva kemur kannski með "sín börn" og hjálpar mér. Svo ætlum við hugsanlega að hafa sjónvarpskvöld í kvöld. Ég þarf að kveðja hana því hún er að fara til Íslands á föstudaginn og verður í 9 daga. Fussum svei, ég er ekki bitur!

þriðjudagur, október 19, 2004

Sunnudagurin hjá mér fór bara í algjöra leti, fyrir utan bíóferðina náttúrulega. Það endaði með að ég og Malena fórum bara tvær því hinar voru svo latar að þær nenntu ekki. Myndin var mjög góð, heitir Bride and prejudice. Lauslega byggð eftir sögu Jane Austin, Pride and Prejudice. En þessi saga gerist í Indlandi nútímans og er eftir sömu framleiðendur og Bend it like Beckham. Þið þurfið örugglega að bíða eitthvað eftir að þessi mynd komi til Íslands, sei, sei já.
Við Malena ræddum einnig um ófríðleika karlmanna hér á landi. Hún og Johanna sem eru lausar og liðugar óttast að ekkert bætist úr þeim málum með þessu áframhaldi.

Í gær vaknaði ég svo hress og kát og fór í sund. Svo hringdi Habbý og bað mig að passa aðeins, það var skiljanlegt því svolítið óvænt kom upp á hjá henni. En gaman var það ekki. Ég var með Helgu og Sæmsa Palla og tvö önnur sem Habbý var að passa. Þau voru að vísu 8 og 11 ára, en komu að engu gagni. Max sem er 8 kom að miklu ógagni því hann espaði hina krakkana upp. Svo var ég með Kjartan líka og svo kom Dísa með Tom sem hún er að passa. Dísa hjálapaði mér að reyna að hafa hemil á þeim en það gekk samt illa. Sérstaklega var Helga erfið, henni tókst að; sulla niður, pissa á sig, brjóta nokkur egg, vera sífellt að fara úr fötunum, fara í öll herbergi sem hún má ekki og hlaupa út í tíma og ótíma. Eftir þrjá tíma í helvíti komu Habbý og Simon heim og við Dísa vorum niðurbrotnar eftir þetta svo við fengum okkur súkkulaði.

Svo dreif ég mig í skólann í gær. Það var bara fínt, vorum ennþá bara í voice afþví hinir kennararnir koma ekki fyrr en í dag. Við hlógum öll eins og hálfvitar því við sátum í hring og vorum að gera grettur af ýmsu tagi. Svo gerðum við öndunaræfingar, þótti reyndar erfitt að liggja á ísköldu gólfinu og ímynda mér að líkami minn væri léttur sem fjöður, sumt er bara of óraunverulegt. Svo sagði Anne (kennari) að þeir Justin (acting) og Crispin (movement) kæmu í dag og hópnum verður skipt í tvennt, vona að ég lendi með skemmtilegu fólki. Eftir skólann bauð Gary ( einn af strákunum) mér á barinn en ég afþakkaði. Þurfti að ná strætó og svo má maður ekki vera of vingjarnlegur við strákana;)

sunnudagur, október 17, 2004

Ég hef nánast ekkert komist í tölvu og því lítið getað uppfært þessa síðu. Hef nóg fyrir stafni og í þau fáu skipti sem ég er heima er tölvan oftar en ekki upptekin.
Á miðvikudagskvöldið var ég ein heima, (jihú) og ég bauð Evu í heimsókn. Við höfðum hugsað okkur að elda eitthvað en afraksturinn varð pöntuð pitsa, hehe. Svo gláptum við bara á sjónvarpið og létum eins og bavíanar, nutum þess í botn að vera einar heima.
Fimmtudeginum verður ekki lýst hér, því þá gerðist atburður sem er það merkilegur að annað kemst ekki að. Ég hef fyrir því öruggar heimildir að álfakóngurinn hafi skilað hringnum til stúlkunnar. Ekki veit ég hvernig hann fór að því en ég skila til hans bestu kveðjum og þakklæti frá stúlkunni.

Á föstudaginn var hinn vanalegi þrifdagur. Eitthvað gekk nú illa að ljúka þrifunum því ég þurfti að þrífa um 7 stk rúllugardínur líka. Og það tók allt tímann sinn og fór mikið í mínar fínu taugar. Ég náði þó pirringnum úr mér og hélt til Evu, vopnuð sæng. Hún bauð mér nefninlega í mat og gistingu og við höfðum það bara mjög kósí. Og þar sem hún hefur heila hæð útaf fyrir sig, svaf ég út:)

Laugardeginum eyddum við Eva í að kaupa jólagjafir, ég keypti reyndar bara eina gjöf og svo föt og snyrtivörur fyrir mig. Ég uppgötvaði mér til skelfingar að ég væri að verða peningalaus eftir þessa búðarferð. Ég sem fékk útborgað á föstudaginn, ákvað snarlega að fresta frekari gjafakaupum.
Um kvöldið vorum við boðnar til Dísu, ásamt Malenu, Johonnu og Áslaugu. Þegar allir voru komnir í stuð héldum við út á lífið, Dísa og Áslaug fóru á einhvern dýran stað en við hinar fátæku á ódýran. Skemmtum okkur mjög vel og hittum fullt af afar ómyndarlegum karlmönnum sem náðu mér ekki upp á öxl, spennandi!

Ég vaknaði eiturhress í morgun og fékk mér íslenskt súkkulaði í morgunmat. Takk fyrir mig far, mor og Si. Í kvöld stefni ég í bíó með Soffíu, Malenu og Johanna. Svo er það bara skóli á morgun og hinn, aber ja.

miðvikudagur, október 13, 2004

Það hefur margt á daga mína drifið síðan ég settist hér niður við skriftir síðast. Laugardeginum eyddi ég í að útrýma öllum ummerkjum um að ég byggi í húsinu. Þetta var að sjálfsögðu gert vegna þess að ljósmyndarinn kemur í dag og tekur myndir fyrir fasteignarsöluna. Og það væri náttúrulega hræðilegt ef það sæist í eitt stykki persónulegan mun.
Það var svo partý hjá Soffíu á laugardagskvöldið. Skemmti mér mjög vel. Þarna voru allra þjóða kvikindi, Íslendingar, Svíar, Finnar, Norðmenn, Írar og Skotar. Ég spjallaði heilmikið við þær Malenu og Johanna. Þær ráku augun í flösku af íslensku brennivíni og fengu að smakka. Johanna var mjög hrifin, henni fannst þetta bara eins og finnskur vodki.
Það var þarna íslensk stelpa sem er nýkomin til Edinborgar, Áslaug heitir hún og við tókum hana strax inn í íslenska hópinn okar. Annars eyddi ég kvöldinu að mestu leyti í að kenna fólki að segja ð og þ sem mér fannst bráðnauðsynlegt að kunna. Veit ekki hvort fólk var ofurölvi því öllum fannst þetta mjög áhugavert.

Á sunnudaginn fór ég með Kjartan í bæinn. Ingibjörg og Kristján þurftu nefninlega að fá flutningabíl heim til að setja alla persónulegu munina í geymslu. Ég fór með Kjartan í fatabúðir þar sem ég var að leyta mér að fötum. Hann var mjög áhugasamur og hvatti mig til að kaupa buxur sem ég mátaði. Honum fannst þær jú mjög fínar. Þegar ég spurði hvort ég ætti ekki að kaupa peysuna líka sagði hann bara "Auðvitað" Ekki slæmt að fara með hann í búðir. Ég verðlaunaði okkur svo með pylsu og keypti bók handa honum, við vorum bæði ánægð með þessa bæjarferð.
Um kvöldið fór ég svo til Evu og við áttum skemmtilegt kvöld fyrir framan breiðtjaldið. Austin Powers var það í þetta skiptið, vorum eiginlega búnar að gleyma hvað hann væri hallærislegur.

Á mánudaginn kom svo stóri dagurinn. Ég byrjaði í skólanum. Það gekk vandræðalaust að komast þangað. En tók mig svolítinn tíma að finna rétta herbergið. Mér brá svolítið þegar ég sá fólkið. Held ég geti fullyrt það að ég sé yngst eða allavega með þeim yngstu. Það eru samt örugglega nokkrir 20 +, allavega strákarnir 5 og nokkrar stelpur. Svo eru þarna fertug þriggja barna móðir, hún May, hún hefur leikið í myndum og leikritum á sínum yngri árum en langar nú að komast aftur inn í leiklistina. Svo er það Mel, hann er um sextugt og er fullmenntaður, starfandi leikari. Veit þess vegna ekki alveg hvað hann er að gera þarna. Hann er með mikið hvítt skegg því hann mun leika jólasveininn í leikriti nú í desember. Við erum um 20 en okkur verðu skipt í tvo hópa í næstu viku. Þarna eru söngvarar, leikarar, dansarar, lagahöfundar og ég. Sumsé allskonar fólk.
Á mánudögum lærum við Voice/speech og movement. Fórum samt ekki í movement því sá kennari er ekki kominn. En Anne, sú sem tók mig inn í skólann er Voice kennarinn og hún er mjög fín. Við þurfum að kaupa bók, því það er svo mikið að öndunaræfingum og ég veit ekki hvað og hvað. Þurfum líka að mæta í leikfimisbúningum og nánast ballettskóm í movement tímana.
Þegar ég gekk að strætóstöðinni var ég þungt hugsi og vissi ekki alveg hvernig mér litist á þetta allt saman. Ég uppgötvaði svo að strætóinn heim var hættur að ganga. Svo ég varð að taka annan sem gerir það að verkum að ég þarf alltaf að bíða í hálftíma, auk þess sem hann fer mikla krókaleið. Alltaf jafn heppin.

Í gær átti ég svo í vandræðum með að komast í skólann. Strætóinn fór víst ekki alla leið svo hann henti mér út. Þannig ég hringdi í Ingibjörgu sem vísaði mér leiðina í gegnum síma, mér tókst að koma nánast tímanlega á hlaupum. Á þriðjudögum er leiklist, sá kennari er heldur ekki komin svo Anne var aftur með okkur. Mér leist miklu betur á þetta, maður er strax farin að venjast fólkinu. Ekki skemmdi fyrir að Gary kom með Galaxy muffins og gaf öllum, namm.
Í gær var mikið um umræður en einnig vorum við tvö og tvö saman að vinna verkefni. Ég hló bara þegar ég fékk blaðið, þetta var enskt leikhúsmál, mikið af skammstöfunum sem við áttum að útskýra. Ég hafði ekki hugmynd um flest orðanna en Derrik félagi minn hjálpaði mér. Það var þarna eitt orð sem ég vissi en Derrik ekki. Satt að segja áttu margir í vandræðum með þetta orð. Fyrrverandi fjórðubekkingar A, takið eftir! Þetta var orðið protaganist. Já, þökk sé hinni dásamlegu sögu Kidnapped og enskutímunum hjá Ingibjörgu þá vissi ég að þetta þýddi aðalpersóna. Takk fyrir það.

föstudagur, október 08, 2004

Einu sinni var stúlka sem bjó í í fjarlægu landi. Þessi stúlka var sérstök að því leyti að hún átti mjög fágætan hring. Hringurinn var fallegur gullhringur, en það var ekki ytra útlitið sem var sérstakt. Hringurinn var boðberi alls góðs í heiminum. Í honum rúmaðist heimsins mesti kærleikur. Stúlkunni þótti afar vænt um hringinn sinn og bar hann öllum stundum.

Spölkorn frá heimili stúlkunnar bjó álfakóngur nokkur í hól einum. Þetta var góður og göfugur kóngur en þessa stundina var hann alveg í öngum sínum. Illur tröllkarl hafði rænt dóttur hans, álfaprinsessunni. Það var engin von að fá prinsessuna til baka nema gera eins og tröllkarlinn vildi. Í lausnargjald vildi hann fá hring alls góðs, hann vildi útrýma kærleikanum úr heiminum. Hringurinn varð að vera stolinn, hvorki gefinn né keyptur. Álfakóngurinn var miður sín, en hann elskaði dóttur sína ofar öllu og vildi gera allt til að fá hana lausa. Því fór hann inn í herbergi stúlkunnar, ósýnilegur í hennar augum. Hann beitti hana hugglöpum svo hún fann sig knúna til að leggja frá sér hringinn. Síðan fór hún út, án hringsins. Kóngurinn brást skjótt við og tók hringinn. Hann fór samstundis með hann til tröllkarlsins og fékk dóttur sína í staðinn.

Þegar stúlkan kom heim var hringurinn ekki á sínum stað. Hún leitaði og leitaði dögum saman en allt kom fyrir ekki. Hringurinn var horfinn og tók það stúlkuna sárt. Hún vissi ekki að tröllkarlinn hefði hringinn hennar undir höndunum og að hann hefði notað nokkra daga í að tortíma hringnum. Á endanum tókst honum það. Hringurinn varð að engu.
Stúlkan var óhuggandi, hún hafði glatað hring kærleikans. Þá skyndilega rann upp fyrir henni að kærleikurinn var enn til staðar. Hið góða í heiminum hvarf ekki þó svo að hringurinn hafi gert það. Stúlkan tók gleði sína á ný og leyfði kærleikanum að leika um hjarta sitt.
Tröllkarlinn illi var ekki lengi að uppgötva að hið góða í heiminum var enn til staðar og það fór fyrir honum eins og öllum illum tröllum, hann varð að steini.
Álfakóngurinn var þó enn bundinn af loforði sínu, því álfar standa alltaf við orð sín. Því sagði hann stúlkunni ekki hvernig farið hefði fyrir hringnum. En til að bæta fyrir brot sitt, gróðursetti hann undurfallega rós undir glugga stúlkunnar. Á hverjum degi gat stúlkan glaðst við að horfa á rósina. Hún var fögur og ilmandi, en henni fylgdi líka kærleikur, tákn hins góða í heiminum.

fimmtudagur, október 07, 2004

Ég hélt í gær að dagurinn yrði frekar dauflegur. Sú varð raunin ekki. Kristján og Ingibjörg keyptu hús í suðurbænum. Við flytjum inn í mars. Kostirnir eru að þetta er töluvert stærra, á 2. hæðum og mitt herbergi verður örugglega á annarri hæð en þeirra. Gallinn er sá að þetta er langt frá leikskólanum hans Kjartans, svo ég veit ekki alveg hvernig það verður. Hvort við tökum strætó eða hvað.
Nú þurfum við að taka þessa íbúð í gegn því hana á að selja. Það er reyndar mjög sérkennilegt kerfi hér á íbúðarsölu. Íbúðin á að líta út eins og hótel. Engir persónulegir munir, svo ég þarf að taka niður allar myndir af vinum og ættingjum. Einnig þarf allt að vera glerfínt svo ég kem til með að hafa nóg að gera. Ingibjörg vonar þó að ferlið taki ekki meira en mánuð.

Í gær eignaðist ég svo nýja frænku. Hún er reyndar 17 ára og er engin önnur en Sessý mín Fogg. Sessý uppgötvaði þetta reyndar, þökk sé hinni dásamlegu Íslendingabók. Það hlaut reyndar að vera að við værum skyldar. Við vissum fyrir að við værum andlega skyldar. Hver úr LMA man ekki eftir dásamlegum dönsum okkar baksviðs. Aber ja, skemmtilegur fjórmenningur sem ég á þarna.
Í gærkvöldi fór ég í heimsókn til Evu. Það var mjög fínt. Hún er með heila hæð nánast útaf fyrir sig. Og þar eru meðal annars tugir DVD mynda og breiðtjald. Við hreiðruðum um okkur með nammi og horfðum á Notting Hill. Hlógum okkur máttlausar yfir ljóta, asnalega gaurnum. Svo er aldrei að vita nema ég endurtaki þetta í kvöld. Eva er að passa og hún bauð mér að koma. Sefnan er tekin á Austin Powers, hlæja meira..

Ég og Kjartan áttum svolítið skondið samtal á leiðinni í leikskólann í morgun. Það var eitthvað á þessa leið
Kjartan: Mannstu þegar ég var í Kýpur og þú varst að bíða eftir mér á Íslandi.
Auður: Já.
Kjartan: Svo hittir þú strákurinn þinn á Íslandi, mannstu.
Auður: Já ég man, svo leyfðir þú mér að koma til Edinborgar til þín.
Kjartan: Ég náði í þig á flugvöllinn og leyfði þér að koma í leigubíll minn. (bíl foreldra sinna) Mamma mín, hann er leigubíll stjóri.
Auður: Já en er mamma ekki læknir?
Kjartan: (hugsar sig um, svo glaðnar yfir honum) Mamma mín keyrir sjúkrabíllinn.
(Ég vildi ekki hryggja hann með því að leiðrétta það svo ég sagði ekkert.)
Kjartan: Auður, ég er búin að sýna þér where leikskólinn minn er, og niðri í bæ og róló og heima hjá mér.
Auður: Já elskan, þú ert rosalega duglegur strákur.
Kjartan: (feimnislega) Takk.

miðvikudagur, október 06, 2004

Ég vaknaði með hálsbólgu í gær, aftur. Ég varð lítið glöð og ekki jókst gleði mín þegar hálsbólgan var enn til staðar í morgun. Þó skilst mér að einhver bölvuð pest sé að ganga á Íslandi, ætli ég hafi ekki smitast bara.
Við Kjartan fórum í Royal Botanic garden í gær og tókum eftir að það er byrjað að hausta. Sum trén eru byrjuð að gulna og það er búið að loka ísvagninum, synd og skömm. Þó þarf ég ekki að kvarta því það var snjór á Akureyri í gær!
Gærkvöldinu eyddi ég svo í margt gáfulegt, svosem msn, síma og þristaát.
Já, ekkert spennandi framundan eins og er og því ekkert um að skrifa.


mánudagur, október 04, 2004

Vonbrigði dagsins eru sú að skólinn byrjar ekki fyrr en í næstu viku. Það er nú þyngra en tárum taki að bíða svo lengi þegar maður hefur hlakkað svona til. Svo ég tali nú ekki um allan undirbúninginn, hárlitun og fleira.

Ég byrjaði daginn vel, á hressandi sundferð í líkamsræktarstöðinni minni. Allt önnur aðstaða þar en í lauginni sem ég fór í um daginn. Þarna var meira segja heitur pottur sem ég skellti mér vitanlega í. Ég saknaði þó Ingu minnar sárt, sundfélaga með meiru. Þó lít ég alltaf á björtu hliðarnar og get því sagt að ég saknaði Húberts ekki hið minnsta. Talandi um Húbert, ég er að velta fyrir mér hvort ég eigi að setja dönskumyndirnar á ferilskrána fyrir leiklistarskólann. Þarna var vissulega um mikinn leiksigur að ræða, þó ég segi sjálf frá;)

Við Kjartan keyptum blóm í dag þar sem Ingibjörg á afmæli. Þau hjónin skelltu sér út að borða svo við Kjartan pöntuðum okkur pitsu. Svo reyndi ég að svæfa hann yfir sögu af risaeðlum sem honum fannst alltof spennandi. Því breytti ég sögunni og gerði hana eins þrautleiðinlega og ég gat, viti menn, barnið sofnaði nánast samstundis.
Nú er ég að hugsa um að fara að háma í mig þrista sem ég fékk senda frá Mimma í dag, mikil gleði í gangi.

sunnudagur, október 03, 2004

Skólinn byrjar á morgun. Ég get ekki beðið, er viss um að öndin mun uppljómast við fyrstu kynni af þessum listræna lærdómi. Ég er samt mikið að velta fyrir mér hvort ég þurfi ekki að vera meiri týpa þar sem ég er að byrja í leiklistarskóla. Eins og allir vita eru leikarar stórskrítnir upp til hópa. Ég var því að hugsa um að lita hárið appelsínugult og mæta í eiturgrænum buxum og skræpóttri skyrtu. Til að kóróna allt saman væri svo best að koma sér upp furðulegum kæk... Er ég á réttri leið?

Annars var helgin lítið skemmtileg verð ég að segja. Partýið hennar Soffíu frestaðist fram að næstu helgi. Því eyddi ég föstudagskvöldinu heima, fyrir framan tölvuna í þeirri veiku von að einhver myndi birtast á msn. Það varð lítið úr því, enda hefur fólk eitthvað betra að gera á föstudagskvöldi.
Svo þurfti ég að passa fyrir Habbý á laugardagskvöldið. Mætti til hennar klukkan sex og gaf börnunum að borða. Svo kom ég þeim í náttfötin, án mikilla vandræða. Erfiðleikarnir hófust ekki fyrr en þau áttu að fara að sofa. Ég endaði á að hóta þeim með jólasveininum (full snemmt, ég veit) sem virkaði mjög vel. Næstu sex klukkutímunum eyddi ég svo í að reyna að horfa á sjónvarpið, gekk mjög illa. Habbý og Simon komu svo heim þrjú um nóttina, þá var ég orðin frekar grumpy eins og Kjartan segir.

Skemmti mér ágætlega í dag. Rölti um bæinn með Soffíu, fórum meðal annars inn í ekta skoska búð. Mjög skondið verð ég að segja. Einnig fórum við inn í litla jólabúð sem varð til þess að við komumst báðar í mikið jólaskap. Það endaði með því að ég þurfti að draga Soffíu út úr búðinni, hún var komin með kaupæðisglampa í augun.
Þá er best ég fari að gera eitthvað gáfulegt, eins og að lita á mér hárið appelsínugult!