Ég lenti í alvöru rigningu í gær, það hefur ekki gerst þessa tvo mánuði sem ég hef verið hérna. Ég var með Kjartan í Botanics þegar skyndilega.... opnuðust flóðgáttir himinsins og við fengum að finna fyrir reiði guðanna (eða eitthvað). Það var reyndar ekki kalt en við vorum ekki klædd til að þola þessa rigningu svo það þýddi ekki annað en að skipta um alklæðnað þegar við komum heim. Ég er samt ekkert að kvarta, ömurlegt veður á Íslandi hef ég heyrt.
Ég mætti svo í skólann í gær og við fengum aðeins að sjá Crispin, Justin var ekki mættur ennþá. Crispin virðist fínasti náungi og hann á eflaust eftir að geta hjálpað mér að hreyfa mig þokkafullt á sviði, hehe.
Annars var bara mjög gaman í gær, okkur var meðal annars skipt í hópa og hver í hópnum fékk miða með einu orði. Ég var í hóp með Samöru, Ansley og Mel. Ég fékk orðið sykur, Ansley regnbogi, Samara rakvélarblað og Mel þrumur. Síðan fengum við tíma til að útfæra þessi orð sem karaktera og svo áttum við að leika þá fyrir hina. Þeir áttu svo að giska á hvaða orð við hefðum fengið. Ég skilaði mínum sykursæta og smeðjulega karakter bara vel, skemmtilegt. Held meira að segja að minn hópur hafi verið bestur.
Eftir skólann tókst Samöru það sem Gary tókst ekki, að fá mig með sér á barinn. Þar voru fyrir Chris (einn af 3. Chrisunum) Mel, Pam og May. Ég spjallaði aðeins við þau öll, May sýndi mér mynd af börnunum sínum sem eru 10, 8 og 5 ára, algjörar dúllur. Chris deildi með okkur áhyggjum sínum af að verða þrítugur sem hann verður í næsta mánuði, hann á alla mína samúð. Eftir góðar stundir á barnum röltum við Samara út á strætóstöð. Við spjölluðum heilmikið, komst að því að hún er 22 ára, búin með háskóla og ætlar að reyna í annað skipti við fullt nám í leiklistarskóla. Ég get ekki annað en verið leið yfir að það sé ekki skóli á hverju kvöldi.
Núna er ég bara að reyna að safna kröftum því ég þarf að fara yfir til Habbýar á eftir að passa öll villidýrin. Það er engin orka til en einhvernvegin hlýt ég að komast í gegnum þetta. Eva kemur kannski með "sín börn" og hjálpar mér. Svo ætlum við hugsanlega að hafa sjónvarpskvöld í kvöld. Ég þarf að kveðja hana því hún er að fara til Íslands á föstudaginn og verður í 9 daga. Fussum svei, ég er ekki bitur!
<< Home