miðvikudagur, október 13, 2004

Það hefur margt á daga mína drifið síðan ég settist hér niður við skriftir síðast. Laugardeginum eyddi ég í að útrýma öllum ummerkjum um að ég byggi í húsinu. Þetta var að sjálfsögðu gert vegna þess að ljósmyndarinn kemur í dag og tekur myndir fyrir fasteignarsöluna. Og það væri náttúrulega hræðilegt ef það sæist í eitt stykki persónulegan mun.
Það var svo partý hjá Soffíu á laugardagskvöldið. Skemmti mér mjög vel. Þarna voru allra þjóða kvikindi, Íslendingar, Svíar, Finnar, Norðmenn, Írar og Skotar. Ég spjallaði heilmikið við þær Malenu og Johanna. Þær ráku augun í flösku af íslensku brennivíni og fengu að smakka. Johanna var mjög hrifin, henni fannst þetta bara eins og finnskur vodki.
Það var þarna íslensk stelpa sem er nýkomin til Edinborgar, Áslaug heitir hún og við tókum hana strax inn í íslenska hópinn okar. Annars eyddi ég kvöldinu að mestu leyti í að kenna fólki að segja ð og þ sem mér fannst bráðnauðsynlegt að kunna. Veit ekki hvort fólk var ofurölvi því öllum fannst þetta mjög áhugavert.

Á sunnudaginn fór ég með Kjartan í bæinn. Ingibjörg og Kristján þurftu nefninlega að fá flutningabíl heim til að setja alla persónulegu munina í geymslu. Ég fór með Kjartan í fatabúðir þar sem ég var að leyta mér að fötum. Hann var mjög áhugasamur og hvatti mig til að kaupa buxur sem ég mátaði. Honum fannst þær jú mjög fínar. Þegar ég spurði hvort ég ætti ekki að kaupa peysuna líka sagði hann bara "Auðvitað" Ekki slæmt að fara með hann í búðir. Ég verðlaunaði okkur svo með pylsu og keypti bók handa honum, við vorum bæði ánægð með þessa bæjarferð.
Um kvöldið fór ég svo til Evu og við áttum skemmtilegt kvöld fyrir framan breiðtjaldið. Austin Powers var það í þetta skiptið, vorum eiginlega búnar að gleyma hvað hann væri hallærislegur.

Á mánudaginn kom svo stóri dagurinn. Ég byrjaði í skólanum. Það gekk vandræðalaust að komast þangað. En tók mig svolítinn tíma að finna rétta herbergið. Mér brá svolítið þegar ég sá fólkið. Held ég geti fullyrt það að ég sé yngst eða allavega með þeim yngstu. Það eru samt örugglega nokkrir 20 +, allavega strákarnir 5 og nokkrar stelpur. Svo eru þarna fertug þriggja barna móðir, hún May, hún hefur leikið í myndum og leikritum á sínum yngri árum en langar nú að komast aftur inn í leiklistina. Svo er það Mel, hann er um sextugt og er fullmenntaður, starfandi leikari. Veit þess vegna ekki alveg hvað hann er að gera þarna. Hann er með mikið hvítt skegg því hann mun leika jólasveininn í leikriti nú í desember. Við erum um 20 en okkur verðu skipt í tvo hópa í næstu viku. Þarna eru söngvarar, leikarar, dansarar, lagahöfundar og ég. Sumsé allskonar fólk.
Á mánudögum lærum við Voice/speech og movement. Fórum samt ekki í movement því sá kennari er ekki kominn. En Anne, sú sem tók mig inn í skólann er Voice kennarinn og hún er mjög fín. Við þurfum að kaupa bók, því það er svo mikið að öndunaræfingum og ég veit ekki hvað og hvað. Þurfum líka að mæta í leikfimisbúningum og nánast ballettskóm í movement tímana.
Þegar ég gekk að strætóstöðinni var ég þungt hugsi og vissi ekki alveg hvernig mér litist á þetta allt saman. Ég uppgötvaði svo að strætóinn heim var hættur að ganga. Svo ég varð að taka annan sem gerir það að verkum að ég þarf alltaf að bíða í hálftíma, auk þess sem hann fer mikla krókaleið. Alltaf jafn heppin.

Í gær átti ég svo í vandræðum með að komast í skólann. Strætóinn fór víst ekki alla leið svo hann henti mér út. Þannig ég hringdi í Ingibjörgu sem vísaði mér leiðina í gegnum síma, mér tókst að koma nánast tímanlega á hlaupum. Á þriðjudögum er leiklist, sá kennari er heldur ekki komin svo Anne var aftur með okkur. Mér leist miklu betur á þetta, maður er strax farin að venjast fólkinu. Ekki skemmdi fyrir að Gary kom með Galaxy muffins og gaf öllum, namm.
Í gær var mikið um umræður en einnig vorum við tvö og tvö saman að vinna verkefni. Ég hló bara þegar ég fékk blaðið, þetta var enskt leikhúsmál, mikið af skammstöfunum sem við áttum að útskýra. Ég hafði ekki hugmynd um flest orðanna en Derrik félagi minn hjálpaði mér. Það var þarna eitt orð sem ég vissi en Derrik ekki. Satt að segja áttu margir í vandræðum með þetta orð. Fyrrverandi fjórðubekkingar A, takið eftir! Þetta var orðið protaganist. Já, þökk sé hinni dásamlegu sögu Kidnapped og enskutímunum hjá Ingibjörgu þá vissi ég að þetta þýddi aðalpersóna. Takk fyrir það.