sunnudagur, september 26, 2004

Svei mér þá ef ég fann ekki bragðið af heimahögunum þegar ég gæddi mér á saltfisknum í gær. Þetta var mjög svo góður, brimsaltur fiskur sem hann Ögmundur eldaði af stakri list. Reyndar var matarboðið hjá hjónunum Hafrúnu og George sem Eva er hjá, en Akureyringunum Hildigunni og Ögmundi var boðið í mat. Þar sem Ögmundur hefur svo gaman af að elda sá hann um það. Reyndar komst ég að því að Ögmundur og pabbi voru saman í skóla og átti ég að skila kveðju til pabba sem ég geri hér með.
Eftir þessa afbragðsmáltíð vorum við Eva ekkert að flýta okkur, spjölluðum bara við fólkið í rólegheitunum. Síðan var förinni heitið út á lífið þar sem við hittum Soffíu og Emmu vinkonu hennar. Þær voru því miður umkringdar ómyndarlegum karlmönnum sem vildu einnig kynnast okkur Evu. Ég hef enga þolinmæði í svona lagað. Því fór ég snemma heim, en áður hitti ég sænsku stelpurnar, þær Malenu og Jóhönnu. Ég hafði ekkert séð þær frá því við hittumst fyrst og við skiptumst á númerum og spjölluðum saman. Það getur verið að ég fari í bíó með þeim í kvöld sem er hið besta mál.

Í morgun vaknaði ég svo vitanlega um 8 við hann Kjartan. Ég held ég kunni ekki lengur að sofa út. Í morgunmat fékk ég skoskar pönnukökur með grilluðum nektarínum og rjómaosti. Þær brögðuðust bara vel og gaman að smakka eitthvað skoskt.
Ég verð að játa að ég er að verða löt, ég nenni ekki í ræktina, geisp...