miðvikudagur, september 15, 2004

Þá er þolinmæðin á þrotum. Nýjasti perrinn í gestabókinni minni hefur komið sér þannig fyrir að þegar maður opnar gestabókina birtist strax síða perrans. Því er hún ónothæf, hvorki hægt að skrifa í hana né lesa. Ég ætla að reyna að taka þessu með jafnaðargeði, hugsanlega mun ég nú ætlast til að fólk sendi mér póst reglulega þó ekki væri nema til þess að heilsa.

Gærdagurinn fór í að passa bæði Kjartan og Sæmsa sem gátu ómögulega leikið sér saman. Skil ekki hvernig þeim dettur í hug að þeir séu vinir blessaðir, grenja undan hvor öðrum endalaust. Ég var uppgefin eftir daginn en fór þó í sund með Soffíu og Richard.
Þegar í sundið var komið kom mér margt spánskt fyrir sjónir. Það voru skápar fyrir fötin, frekar sóðalegir þó, og þurfti maður að borga fyrir að nota þá. Ekki var hægt að afklæðast þar heldur inn í litlum einstaklingsklefa og þar inni var skylda að fara í sundbolinn. Það var nefninlega harðbannað að fara í sturtu nakin. Ég hristi bara hausinn en Soffía ráðlagði mér að fylgja reglunum vegna þess að annars gæti ég fengið sekt.
Það var sama sagan þegar upp úr var komið. Sturta í sundbolnum og svo aftur í litla klefann til að skipta um föt. Ég tek það fram að þetta var kvennaklefi svo ástæðan fyrir þessu laumuspili er mér enn hulin.
Eftir sundið fengum við okkur þann besta kebab sem sögur fara af, svo stóran að það þurfti að borða hann með gaffli, ekki slæmt.

Dagurinn í dag hefur verið tíðindalaus. Veðrið er enn mjög gott, ekki amalegt að geta verið á peysunni eða bolnum alla daga. Óttast að næstu dagar verði lítið áhugaverðir svo það gæti farið svo illa að engin lína verði hér rituð. Þó verðum við að vona það besta. Ætli ég endi þetta ekki á skilaboðum til allra sem vilja losa sig við íslenskt nammi. Ég tek hjartanlega á móti því. Að minnsta kosti er kúlusúkkið frá Kalla og Hildigunni alveg horfið..