mánudagur, september 06, 2004

Það bættist aðeins úr samskiptaleysinu í dag. Fékk póst frá Ingu, Þórunni og elsku litla bróður. Einnig búin að spjalla við Hildigunni, ömmu, afa, Brynju, pabba og Sessý á msn. Msn er dásamlegur samskiptamöguleiki sem ég hyggst nýta mér hressilega í nánustu framtíð.

Það sem stendur upp úr af viðburðum dagsins í dag er að hafa hitt Simon. Simon er maður Habbýar sem er íslensk kona úr næstu götu. Þau eiga strák sem er jafngamall Kjartani og ég ákvað því að leyfa þeim að leika sér saman. Við Kjartan röltum yfir og Simon tók hjartanlega á móti okkur. Hann bað mig umsvifalaust á óskiljanlegri írsku að segja mér allt um sjálfa mig. Ég reyndi að verða að óskum hans, en eitthvað hafði hann frétt af trúlofun minni því hann spurði hvort ég ætlaði aldrei að gifta mig. Ég varð undrandi en hann skýrði mál sitt sem svo að flestir Íslendingar væru trúlofaðir alla ævi án þess að giftast. Hann stakk upp á því að ég myndi gifta mig hérna sem fyrst, hvort unnustinn kæmi ekkert í heimsókn? Ég varð að viðurkenna að hann kæmi í nóvember og kvaðst hugsa málið. Á meðan voru börnin hans, Sæmsi Palli (Simon Páll) og Helga að klifra upp í fangið á mér og gefa mér koss. Kjartan var nú ekki alls kostar sáttur og tjáði þeim að ég væri hans nanny.

Við Kjartan fórum bæði sæl heim eftir þessar innilegu móttökur.
Mér var ekki einu sinni boðið rauðvín með matnum í þetta skiptið, hmm skildu þau vera að gefast upp á mér. Finnst það svo hrikalega vont. Það er hinsvegar alltaf rauðvín með matnum, og fínasti vínskápur á heimilinu. Ég kann víst ekki gott að meta, verður stundum hugsað til Ingu minnar.. Hún myndi ekki fúlsa við því stúlkan sú.