fimmtudagur, október 02, 2003

Gærdagurinn byrjaði hreint ekki vel. Hann hófst með því að ég svaf yfir mig í íslensku og missti af áframhaldandi göfugu námi. Hugmyndir Valdimars um að þágufallssýkin sé rétt, eru vitanlega ómissandi svo ekki sé minnst nýjar hugmyndir um beygingar sem hann vill gjarnan læða inn í vora tungu.
Ég hóf því daginn á dásamlegum og gefandi frönskutíma sem fyllti mig lífsþrótti þangað til komið var að uppáhaldinu mínu íþróttum. Til að kóróna daginn var þetta tvöfaldur tími og eftir að hafa hlaupið þarna vænan hring framhjá ljótasta húsi bæjarins (KA heimilinu) fórum við í boðhlaup þar sem Lilja sýndi afhverju hún ber af öðrum í vinahópnum í rassadillingum.

Iva kom svo í bæinn í gær og fórum við ásamt fríðu föruneyti í bíó og svo á Amour. Myndin var virkilega slæm og gerðum við grín að henni það sem eftir lifði kvölds.

Í dag hef ég ákveðið að vera í vondu skapi þar sem ég er ekki á leið til höfuðborgarinnar eins og til stóð. Því munu vinir og skyldfólk þar í bæ gráta fögrum tárum því langt er þangað til ég hef tíma til að kíkja þangað úr þessu.

Bekksagnaræðukepnin byrjar í næstu viku. Það eru góð lið í keppninni í ár og er ég töluvert kvíðin en eru þó félagar mínir úr 4.A. toppræðumenn svo það verður gaman hvernig sem fer.