þriðjudagur, maí 13, 2003

Ég skammast mín fyrir að búa í Framsóknarbænum Akureyri. Úrslit kosningana voru martröð. Þetta byrjaði allt þegar saklaus Menntaskólaneminn gekk til Alþingiskosninga í fyrsta skipti með föður sínum. Ég var ekki fyrr komin að dyrunum en ég var stoppuð af laganna vörðum. Þeir voru tveir og mjög ákveðnir er þeir báðu mig vinsamlegast að fjarlæga allan kosningaáróður. Ég greip skelfingu lostin um brjóst mér og áttaði mig á því að þar blasti við X U nælan mín sem var orðin samangróin mér. Með sorg í hjarta fjarlægði ég hana og gat þá gengið inn á kjörstað og gert skyldu mína. Þegar út var komið var ég ekki sein á mér að festa næluna á mig aftur og leit sigri hrósandi í áttina til varða laganna. Faðir minn gekk hröðum skrefum í burtu og sagði mér síðar að hann hefði óttast að ég yrði handtekin á staðnum. Til þess kom nú ekki. En sá gamli var ansi nærri því að fá hjartaáfall er ég tilkynnti honum að ég væri að fara aftur á kjörstað í þetta skipti með vini mínum sem átti eftir að kjósa. Seinni ferðin gekk reyndar áfallalaust fyrir sig og spennan fyrir kvöldinu var tekin að magnast.
Ég sé mér varla fært að tjá mig um úrslit þessara kosninga. T.d má nefna það að þónokkur atkvæði féllu Framsóknarflokknum í vil innan míns bekkjar. Þessar alveg hreint ágætu bekkjarsystur mínar virtust ekki gera sér grein fyrir að með því að kjósa litlu ljóskuna í grænu skónum voru þær að kjósa Valgerði Sverrisdóttur, flokkinn sjálfan og stuðla að því að núverandi ríkisstjórn héldi velli,. Nei, þessar elskur gengu um með X B nælurnar sínar og hugsjónir um að koma ljóskunni sinni á þing. Og það tókst nú, og gott betur en það því strákgemlingurinn í fjórða sætinu fylgdi með. Það eina góða var að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði töluverðu fylgi sem er afskaplega gleðilegt en þeir hefðu mátt tapa mun meira. Ég get ekki annað en hneykslast á fólki sem talar gegn stríðinu af miklum móð, er á móti Kárahnjúkavirkjun og kýs svo flokkana sem er fylgjandi. Hvað er málið með þessa þjóð. Nánast öll þjóðin á móti stríðinu og því hefði hún átt að kjósa flokkinn sem var á móti því, eina flokkinn sem lýsti því yfir að stríð væru aldrei réttlætanleg en nei, kjósum Dabba og Halldór. Ég get þó huggað mig við það að ég hef ekkert til að skammast mín fyrir.