þriðjudagur, september 14, 2004

Þá er ég komin frá London. Ekki grunaði mig þegar ég fór til London í apríl að ég myndi koma þar aftur aðeins 5 mánuðum síðar. En vegir mínir eru órannsakanlegir. Laugardaginn nýtti ég vel þó ég hafi ekki farið út. Við gistum hjá Birnu systur Kristjáns sem var að halda upp á afmælið sitt og ég og au pair stelpan þeirra vorum heima með börnin. Tinna au pair stelpa og ég urðum strax alveg perluvinkonur. Hvernig er annað hægt? Hún hefur m.a gaman af að lesa, leiklist og finnst betra að ganga í pilsi en buxum.

Á sunnudaginn var ég svo vakin klukkan átta af eldhressri Hildigunni. Ég hafði nú vonast til að ég gæti fengið að sofa til níu en sú varð eki raunin. Ég átti að mæta niður á Green Park klukkan níu því ætlunin var að skoða höll drottningar. Ég hlýddi þessu og það var ósköp gaman að sjá þau Kalla og Hildigunni og ekki vera að þau færðu mér kúlusúkk þessar elskur, nammm!
Höllin var auðvitað alsett prjáli og ekki fengum við að hitta neinn konungborinn þó svo við hefðum borgað okkur inn. Eftir að hafa skoðað höllina og garðinn sem í var tjörn þakin konunglegu slýji ákváðum við að fá okkur hressingu. Kalli greyið var í nýjum skóm og var kominn með heljarinnar hælsæri svo þau skötuhjú skiptu um skó. Ég reyndi vitanlega að láta sem ég þekkti ekki þetta undarlega par, hún með risastórar bífur og hann í litlum netaskóm.
Við röltum örlítið um Oxford street en þar sem ferð þeirra var heitið til Prag kvöddumst við fljótlega. Ég þurfti þó ekki að örvænta því Tinna kom niður í bæ og við gátum haldið áfram búðarrápi.

Á mánudaginn vorum við Tinna mættar eldhressar niður á Oxford aftur. Skoðuðum okkur aðeins um og við gengum framhjá ,,We will rock you" leikhúsinu. Ég tók mynd eins og versti túristi, það var bara svo gaman á þessari sýningu. Einnig fórum við í Top shop sem var hreinasta helvíti, búðin er risavaxið skrímsli svo við fengum báðar svima þar inni. Til að laga það fórum við heim til Tinnu og hoppuðum á stóra trampolíninu í garðinum. Við létum svolítið eins og 10 ára, hlógum og skríktum og vakti það undrun vinnuveitenda okkar. Þó erum við enn báðar með vinnu sem betur fer.
Um kvöldið flugum við svo til Edinborgar aftur, Ingibjörg var svo væn að bjóða Tinnu í heimsókn og það boð ætlar hún að þiggja. Og hver veit nema maður skelli sér aftur til London í framtíðinni...