Þótt ótrúlegt megi virðast tókst mér að koma Helgu og Sæmsa í rúmið á laugardagskvöldið og þau voru sofnuð fyrir hálf níu. Ég kom mér því þægilega fyrir í sófanum hjá Habbý, borðaði yfir mig af pitsu og horfði á sjónvarpið. Mér fannst reyndar pínlegt þegar sendillinn kom með pitsuna, ég hafði nefninlega líka pantað pitsu kvöldið áður og þetta var sami sendillinn. Ég reyndi að horfa sem mest til hliðar auk þess sem ég breytti framburðinum í von um að þekkjast ekki. Ég hefði ekki afborið þá skömm að maðurinn hefði borið kennsl á mig.
Sunnudagurinn var hinn besti dagur. Ég hélt áfram meginþema helgarinnar sem var át. Fór ásamt Soffíu og Richard á China China, sem er kínverskur staður eins og nafnið gefur til að kynna. Þar borguðum við skitin 5 pund fyrir hlaðborð, ég kom hnöttótt út.
Ég og Soffía ákváðum að reyna að ganga þetta af okkur sem endaði með bíóferð. Eftir bíó gengum við heim og Soffía upplýsti mig um að ég mætti aldrei ganga þennan veg ein í myrkri.Á leiðinni var hún sífellt að líta aftur fyrir sig, mér stóð nú ekki á sama. Heim komst ég þó heil á húfi og var á msn frameftir kvöldi. Þar hitti ég meðal annars Tinnu sem er að íhuga að kíkja í heimsókn 1. okt ef hún getur. Nú er bara að bíða og vona...
<< Home