föstudagur, september 17, 2004

Helgin er framundan, en lítið um frí hjá mér. Ég er að passa í kvöld og svo fyrir Habbý annað kvöld. Reyndar er Kjartan sofnaður þessi líka engill.
Ég hef haft nóg að gera í símanum síðustu tvo daga, yrði ekki hissa ef hann væri gróinn fastur við eyrað á mér. Talaði við pabba, mömmu og Sindra í gær, í hálftíma við hvert þeirra. Öll höfðu þau mikið að segja, þó aðallega bróðir minn sem glímir nú við raunir unglingsáranna. Hann þykist vera orðinn 168 cm á hæð sem ég neita staðfastlega að trúa, hann er nú einu sinni litli bróðir minn.
Svo hringdi amma áðan, það var nú gott að heyra í "gömlu" konunni, ég notaði vitanlega tækifærið til að reyna lokka hana í heimsókn einhvertíman. Eftir örskamma stund hringir Ragnheiður, hin andlega litla systir mín svo ég þarf ekki að óttast að ég sé gleymd.

Var að flækjast um netið í dag og sá þá að ég gat lesið Fréttablaðið í heild sinni, þann göfga snepil. Fréttaþyrstur Íslendingurinn hóf samstundis lestur og viti menn, þarna var mynd af Dabba að skipta við Halldór. Sýndist mér Dabbi heldur súr á svipinn og eiga bágt með að leyna því. Illur leysir vondan af, segir máltækið (sem ég var að búa til).
Ætli þetta verði ekki að duga að sinni.