laugardagur, september 25, 2004

Ég átti ágætis kvöld á fimmtudagskvöldið. Fínustu lög í karókí en mjög misjafnir flytjendur. Af einhverjum ástæðum fór ég að tala um fótbolta við Richard sem endaði með því að hann lofaði að skipuleggja ferð til Newcastle svo ég gæti séð goðið mitt spila, þetta er nú síðasta tímabilið hjá honum. Þar sem enginn af okkur var undir áhrifum þetta kvöld er ekki hægt að skrifa þetta á ölæði. Aldrei að vita nema alvara verði úr þessari ferð.

Afi Kjartans kom í gær svo ég var búin snemma sem var hið besta mál. Hinsvegar þurfti ég að passa fyrir Habbý um kvöldið sem gekk vonum framar. Börnin voru eins og englar og ekkert mál að koma þeim í rúmið. Sæmsi Palli lýsti þó yfir vilja sínum yfir að ég myndi gista, honum fannst hinn mesti óþarfi að ég færi þegar foreldrar hans kæmu heim. Þrátt fyrir þetta freistandi boð ákveð ég frekar að labba heim og freista þess að sofa til níu í stað sex sem gekk eftir.
Soffía var svo elskuleg að koma yfir til mín þegar börnin voru sofnuð og við gerðum heiðarlega tilraun til að horfa á sjónvarpið sem er reyndar ógjörningur um helgar því dagskráin er svo léleg. Ég smakkaði líka þann versta drykk sem um getur, skoskt diet kók, kælt með ísmolum úr skosku kranavatni, mæli hreint ekki með því.
Þegar Habbý og Simon komu heim barst í tal að þau eru að fara til Írlands helgina 4-7 nóvember. Þegar þau fréttu að Styrmir kæmi þá, kom ekki annað til greina en að lána okkur húsið. Það er bara ekki eðlilegt hvað sumt fólk getur verið elskulegt. En heilt hús útaf fyrir okkur, ég kvarta ekki.

Rétt í þessu hringdi Eva í mig og bauð mér í mat til sín í kvöld. Það verður íslenskur saltfiskur hvorki meira né minna. Svo förum við heim til Richards seinna í kvöld og jafnvel út á lífið...