mánudagur, september 27, 2004

Ég er lasin í dag. Það er alveg ótrúlega leiðinlegt. Lá í rúminu í allan morgun en batnaði ekkert við það. Náði svo í Kjartan á leikskólann en Habbý tók hann yfir í smá stund svo ég geti haldið áfram að liggja í rúminu. Að vera lasin er ótrúlega leiðinlegt en af einhverjum ástæðum er miklu leiðinlegra að vera lasin í Edinborg heldur en Íslandi. Hef enga eirð í mér til að liggja í rúminu.

Gærdagurinn var þó öll betri. Ég fór í bíó kl tólf að hádegi á Pretty woman. Það var verið að sýna gamlar myndir ódýrt og tilvalið að skella sér. Ég fór með stelpunum sem eru ekki sænskar, heldur eru þær Malena og Johanna sænskumælandi Finnar, best að hafa það á hreinu. Það var fínt að hitta þær og eftir bíó fengum við okkur pitsu. Spjölluðum heilmikið, hef ekki talað svona mikla ensku síðan ég kom.
Í gærkvöldi hringdu svo mamma, pabbi og Sindri og gengið var frá flugfarinu mínu heim um jólin. Ég mun lenda á Akureyri rétt fyrir sex, þann 21. desember og verð heima öllum til ánægju og yndisauka í tíu daga. Það sem veldur mér örlítið minni ánægju er að ég legg af stað héðan frá Darnell road kl 5 að morgni svo þetta ferðalag mun taka 13 tíma. Það er vegna þess að ég flýg frá Edinborg til Stansted og þarf svo að bíða þar í fleiri tíma þar til ég flýg til Íslands. En þetta verður hið besta mál, þolinmæði mín og hin ljúfa lund sem ég er þekkt fyrir munu koma mér í gegnum þetta með bros á vör.
Nú verð ég að skríða upp í rúm, hausinn er að springa!