Ég hélt í gær að dagurinn yrði frekar dauflegur. Sú varð raunin ekki. Kristján og Ingibjörg keyptu hús í suðurbænum. Við flytjum inn í mars. Kostirnir eru að þetta er töluvert stærra, á 2. hæðum og mitt herbergi verður örugglega á annarri hæð en þeirra. Gallinn er sá að þetta er langt frá leikskólanum hans Kjartans, svo ég veit ekki alveg hvernig það verður. Hvort við tökum strætó eða hvað.
Nú þurfum við að taka þessa íbúð í gegn því hana á að selja. Það er reyndar mjög sérkennilegt kerfi hér á íbúðarsölu. Íbúðin á að líta út eins og hótel. Engir persónulegir munir, svo ég þarf að taka niður allar myndir af vinum og ættingjum. Einnig þarf allt að vera glerfínt svo ég kem til með að hafa nóg að gera. Ingibjörg vonar þó að ferlið taki ekki meira en mánuð.
Í gær eignaðist ég svo nýja frænku. Hún er reyndar 17 ára og er engin önnur en Sessý mín Fogg. Sessý uppgötvaði þetta reyndar, þökk sé hinni dásamlegu Íslendingabók. Það hlaut reyndar að vera að við værum skyldar. Við vissum fyrir að við værum andlega skyldar. Hver úr LMA man ekki eftir dásamlegum dönsum okkar baksviðs. Aber ja, skemmtilegur fjórmenningur sem ég á þarna.
Í gærkvöldi fór ég í heimsókn til Evu. Það var mjög fínt. Hún er með heila hæð nánast útaf fyrir sig. Og þar eru meðal annars tugir DVD mynda og breiðtjald. Við hreiðruðum um okkur með nammi og horfðum á Notting Hill. Hlógum okkur máttlausar yfir ljóta, asnalega gaurnum. Svo er aldrei að vita nema ég endurtaki þetta í kvöld. Eva er að passa og hún bauð mér að koma. Sefnan er tekin á Austin Powers, hlæja meira..
Ég og Kjartan áttum svolítið skondið samtal á leiðinni í leikskólann í morgun. Það var eitthvað á þessa leið
Kjartan: Mannstu þegar ég var í Kýpur og þú varst að bíða eftir mér á Íslandi.
Auður: Já.
Kjartan: Svo hittir þú strákurinn þinn á Íslandi, mannstu.
Auður: Já ég man, svo leyfðir þú mér að koma til Edinborgar til þín.
Kjartan: Ég náði í þig á flugvöllinn og leyfði þér að koma í leigubíll minn. (bíl foreldra sinna) Mamma mín, hann er leigubíll stjóri.
Auður: Já en er mamma ekki læknir?
Kjartan: (hugsar sig um, svo glaðnar yfir honum) Mamma mín keyrir sjúkrabíllinn.
(Ég vildi ekki hryggja hann með því að leiðrétta það svo ég sagði ekkert.)
Kjartan: Auður, ég er búin að sýna þér where leikskólinn minn er, og niðri í bæ og róló og heima hjá mér.
Auður: Já elskan, þú ert rosalega duglegur strákur.
Kjartan: (feimnislega) Takk.
<< Home