föstudagur, október 08, 2004

Einu sinni var stúlka sem bjó í í fjarlægu landi. Þessi stúlka var sérstök að því leyti að hún átti mjög fágætan hring. Hringurinn var fallegur gullhringur, en það var ekki ytra útlitið sem var sérstakt. Hringurinn var boðberi alls góðs í heiminum. Í honum rúmaðist heimsins mesti kærleikur. Stúlkunni þótti afar vænt um hringinn sinn og bar hann öllum stundum.

Spölkorn frá heimili stúlkunnar bjó álfakóngur nokkur í hól einum. Þetta var góður og göfugur kóngur en þessa stundina var hann alveg í öngum sínum. Illur tröllkarl hafði rænt dóttur hans, álfaprinsessunni. Það var engin von að fá prinsessuna til baka nema gera eins og tröllkarlinn vildi. Í lausnargjald vildi hann fá hring alls góðs, hann vildi útrýma kærleikanum úr heiminum. Hringurinn varð að vera stolinn, hvorki gefinn né keyptur. Álfakóngurinn var miður sín, en hann elskaði dóttur sína ofar öllu og vildi gera allt til að fá hana lausa. Því fór hann inn í herbergi stúlkunnar, ósýnilegur í hennar augum. Hann beitti hana hugglöpum svo hún fann sig knúna til að leggja frá sér hringinn. Síðan fór hún út, án hringsins. Kóngurinn brást skjótt við og tók hringinn. Hann fór samstundis með hann til tröllkarlsins og fékk dóttur sína í staðinn.

Þegar stúlkan kom heim var hringurinn ekki á sínum stað. Hún leitaði og leitaði dögum saman en allt kom fyrir ekki. Hringurinn var horfinn og tók það stúlkuna sárt. Hún vissi ekki að tröllkarlinn hefði hringinn hennar undir höndunum og að hann hefði notað nokkra daga í að tortíma hringnum. Á endanum tókst honum það. Hringurinn varð að engu.
Stúlkan var óhuggandi, hún hafði glatað hring kærleikans. Þá skyndilega rann upp fyrir henni að kærleikurinn var enn til staðar. Hið góða í heiminum hvarf ekki þó svo að hringurinn hafi gert það. Stúlkan tók gleði sína á ný og leyfði kærleikanum að leika um hjarta sitt.
Tröllkarlinn illi var ekki lengi að uppgötva að hið góða í heiminum var enn til staðar og það fór fyrir honum eins og öllum illum tröllum, hann varð að steini.
Álfakóngurinn var þó enn bundinn af loforði sínu, því álfar standa alltaf við orð sín. Því sagði hann stúlkunni ekki hvernig farið hefði fyrir hringnum. En til að bæta fyrir brot sitt, gróðursetti hann undurfallega rós undir glugga stúlkunnar. Á hverjum degi gat stúlkan glaðst við að horfa á rósina. Hún var fögur og ilmandi, en henni fylgdi líka kærleikur, tákn hins góða í heiminum.