föstudagur, október 22, 2004

Mikið langaði mig að dangla í hausinn á sendlinum sem kom loksins með golfkylfuna í dag. Ég búin að sitja inni í þrjá daga og bíða og svo var sendillinn bara ekki hið minnsta kurteis. Þó svo ég hafi verið mygluð, með úfið hár þá þýðir ekki fyrir hann að mögla. Það væri nú síðasta sort að vera að hafa sig til fyrir hann!
Ég gat því farið með Kjartan aðeins út, við fórum í bæinn og enduðum á kaffihúsi. Þar gaf ég honum mandarínur og kenndi honum að búa til báta og leika sér með matinn, úpps. En honum þótti það mjög gaman:)
Í kvöld er bara rólegt kvöld hjá mér, ætla að vera heima og kannski glápa á eitt stykki DVD mynd eða svo. Er líka búin að vera að fikta við að setja fleiri tengla inn á síðuna mína, setti svo allt heila klabbið í stafrófsröð. Andri er ekkert efstur af því að ég elska hann mest, alveg satt Lilja;)

Ég var með Kjartan alveg til sjö í gær og fór svo með hann yfir til Habbýar meðan húsið var opið fyrir fólk að skoða. Það kom því miður bara einn, en hann var víst voða hrifin. Svo er aftur opið hús á sunnudaginn, þá koma víst venjulega fleiri.
Ég reyndi að finna íbúðina á netinu, ætlaði að setja link svo fólk gæti skoðað hvernig ég bý. Það tókst ekki, kemur kannski seinna.
Á morgun ætla ég að kíkja í bæinn með Soffíu, hún ætlar líka að reyna að plata mig í bíó annað kvöld. Veit ekki alveg hvernig það fer útaf margumtöluðu peningaleysi.

Ég er búin að hugsa mikið síðustu daga. Eftir að ég byrjaði í leiklistarskólanum þá hafa augu mín opnast fyrir því að það getur virkilega verið gaman að vera í skóla. Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri, ég virkilega nýt þess. Afhverju að fara þá í gamla farið aftur? Byrja í venjulegum skóla og þurfa alltaf að gera eitthvað sem manni finnst virkilega leiðinlegt. T.d. ef ég fer í íslensku eins og ég hef hugsað mér. Þá þarf ég að taka hljóðfræði sem mér er meinilla við. (Hefði sagt hata en sá fyrir mér ávítandi augnvip ömmu Auðar) Já hljóðfræðiáfanginn í 4. bekk gerði alveg útaf við alla þolinmæði í þá átt. Ansans vandræði, kannski gerist ég bara rithöfundur, eyði tímanum á kaffihúsum með skrifblokk og blýant og naga blýantinn hugsandi á svip á milli þess sem ég fæ hugmyndir. Hvað finnst ykkur?