föstudagur, júní 27, 2003

Afhverju blogga ég ekki? Nú einfaldlega af því að ég er ekki hrifin af því að gera öðrum til hæfis. Þegar ég komst að því að fólk hefði af því ánægju að lesa síðu þessa íhugaði ég að hætta alveg skriftum hér og opna nýja síðu þar sem ég gæti mér um frjálst höfuð strokið. Eftir nokkra umhugsun hætti ég þó við það en tek skýrt fram að ég er aðeins að skrifa sjálfri mér til hugléttis!

Ég var nánast búin að láta reka mig úr hlutverki heilalausu kassadömunnar í dag. Ástæðan er ekki sú að ég klæðist skærappelsínum broskallabol, geng með broskallanælu og nafnspjald sem stendur á "Get ég aðstoðað?" Ástæðan er heldur ekki sú að ég fæ ekki heilt helgarfrí í allt sumar, yfirmenn mínir hata hvorn annan eða það að ég hafi nýlega haldið upp á ársstarfsafmælið mitt. Nei, ástæðan heitir VIÐSKIPTAVINIR sem ég vil hér eftir kalla viðskiptaóvini! Í dag var mælirinn fullur, það kom til mín gamall kall sem vildi kaupa sér rauðan Royal. Tjáði ég karli að ég ætti hann því miður ekki til. Hann væri líklega ekki til hjá ríkinu þar sem hann hefði ekki komið með síðustu 2. pöntunum. Karlinn ærðist gjörsamlega og tjáði mér hvurslags hálfviti ég væri, þetta hefði maður upp úr því að ráða hæfileikalaust fólk í sumarafleysingar. Þetta væri ömurlegar afsakanir hjá mér og svo framvegis. Ég fann hvernig reiðin sauð í mér og sagði ég karlinum ískalt að hann skildi greinilega ekki það sem ég væri að segja. Hann tjáði mér þá umsvifalaust að þetta hefði aldrei gerst ef að stúlkan sem væri venjulega hefði ekki farið í sumarfrí. Ég sprakk af reiði og var reið í allan dag. Ég náði þó einhvernveginn að stilla mig að öskra á kallinn og get þakkað þeirri ótrúlegu sjálfsstjórn að ég er enn með vinnu.
Seinna um daginn hringdi ég svo í Ríkið og var tjáð þar að rauður Royal væri ekki til á landinu. Ég rakti raunir mínar fyrir skilningsríkum ungum manni sem mælti með því að ég gæfi viðskiptaóvininum bara spark í punginn. Þeir eru alltaf svo almennilegir þarna í Ríkinu.

Ég á frí á morgun sem er ótrúlegt. Ef að verður hringt í mig og ég beðin að koma og vinna ætla ég að hlæja kvikindislega og neita svo með góðri samvisku. Um kvöldið ætla ég svo á djammið með allskonar fólki og freista þess að gleyma því að ég sé ekki á Hróarskeldu.
En núna er best að drífa sig í ljós avec Hill.