þriðjudagur, maí 30, 2006

Ég kemst aldrei í tölvu núorðið enda er húsbóndinn á heimilinu í prófum. Ætla að grípa tækifærið núna þar sem hann brá sér frá og rita hér nokkur orð.
Það hefur margt gerst síðan síðast. Sýningum er lokið og við bíðum spennt eftir gagnrýni. Svo virtist sem gagnrýnandinn hafi verið hrifinn svo einhver von er um að gagnrýnin verði jákvæð. Bara bíða og vona það besta. Strax eftir að sýningum lauk flutti hún Kristjana okkar suður sem var frábært fyrir hana en sorg fyrir okkur hin. Er strax farin að sakna Sögufólksins míns, við hittumst lítið núna því þau eru öll í prófum. Við eigum samt eftir að segja sögurnar okkar einu sinni enn, þar sem við eigum eftir að taka þær upp.

Um helgina gerðist sá stórmerkilegi atburður að Sindri minn fermdist og tók hann sig mjög vel út strákurinn. Við Styrmir fórum líka í brúðkaup sama dag og var þetta nokkurt met fyrir mig, tvisvar í kirkju sama daginn. Hún Salka var svo yndisleg að greiða mér og mála mig sem var bara æði. Hún endaði á að gera líka bindishnút fyrir Styrmi svo að ég bannaði henni að fara til Englands í sumar. Það er náttúrulega ekki séns að við getum búið okkur í veislu án hennar hjálpar, ekki úr þessu.
Kosningar um helgina. Meiri hlutinn fallinn sem er algjör snilld. Ég kaus að sjálfsögðu rétt og var sátt með minn flokk, enda juku þeir fylgi sitt talsvert. Í tilefni þess fór ég á Karólínu með Sunnu og fleirum sem reyndar fóru strax. En við Sunna sátum sem fastast, enda nóg um að tala. Svo kom hún Sóla mín líka sem var frábært og loks Ævar en við erum að reyna að endurnýja kynnin þar sem sýningum er lokið;)

Get náttúrulega ekki endað þetta án þess að minnast á síðustu helgi. Júró var snilld. Ég óskaði Malenu minni að sjálfsögðu til hamingju með sigurinn. Finnland sannarlega málið þetta árið. Svo fékk ég svo margt gott hjá Hildigunni og Kalla. Að öðru ólöstuðu stóð rækjusalatið upp úr en hún Hildigunnur býr til besta rækjusalat í heimi, segi ég og skrifa! Fékk líka írskt kaffi, sem var samt bara írskt, minna af kaffi. Þetta var skemmtilegt kvöld, Ævar, Hafliði og Keli bættust í hópinn og gítarinn var dreginn upp. Bara gaman, takk fyrir mig Hildigunnur mín og Kalli.

Ég er búin að sækja um í HÍ.

laugardagur, maí 20, 2006

Komin tími til að deila hugsunum sínum með umheiminum? Ég held það bara.
Nú fer sýningum senn að ljúka og ég er ekki tilbúin til þess. Það er búið að ganga mjög vel hjá okkur og vel mætt á allar sýningar nema frumsýningu. Ástæðan fyrir því var að þeir sem Denni bauð mættu ekki, þetta var lítið auglýst og flestir héldu að það væri uppselt á frumsýninguna. Mér leið því svolítið undarlega eftir sýninguna, hélt að svona yrði þetta. Sem betur fór hafði ég rangt fyrir mér.
Það hefur verið fullt á allar hinar sýningarnar okkar:) Á eina sýningu var meira en fullt, þurftum að bæta við stólum. Þið sem hafið af einhverjum ástæðum ekki enn séð sýninguna eruð heppin. Þið hefðuð getað verið búin að missa af henni! En fyrir ykkur er aukasýning á morgun kl. 19. Það eru fáir sem vita af því svo endilega látið orðið berast. Á þessa sýningu mætir gagnrýnandi svo það er skemmtilegra að hafa góðan sal. Ef þið eruð búin að sjá sýninguna en eruð ólm í að koma aftur má hugsanlega fella niður aðgangseyrin;) Ég er líka búin að bæta aðeins inn í atriðið mitt og fékk mikil og góð viðbrögð við því. Hefði ekki getað þetta án ykkar Sögufólk, takk, takk.

Ég get ekki kvartað yfir að mitt fólk hafi ekki komið á sýninguna. Ég get talið 15 svona í fljótu bragði sem er ekki slæmt þegar fáir vinir mínir eru á Akureyri. Það var gaman að sjá ykkur öll elskurnar.
Svo er Ævar fyrrum félagi minn líka með sýningu, á sama tíma og við. Enda erum við svarnir óvinir og keppinautar í dag...
Nei sem betur fer ekki. Sýningin hans Ævars er frábær, sýnd í Deiglunni og þið megið ekki missa af henni. Það er svo fyndið með hann Ævar. Hann er góður út í gegn en samt trúir maður honum alltaf þegar hann er að leika. Sama þó þar sé rotið illmenni á ferð. Það er vegna þess að sannir hæfileikar liggja að baki. Það eru tvær sýningar eftir að Fyrir luktum dyrum og mæli ég með að þið farið á mánudagskvöldið kl 20:30 og mætið á mína sýningu á sunnudag. Smá grín, það er enginn rígur, í alvöru!

Ég horfði á Júró heima hjá Sunnu með Sögufólki á fimmtudag og var það fínt. Fórum á Karó á eftir sem er ný og endurbætt og við Sunna enduðum á svo assgoti góðum trúnó.
Í kvöld ætla ég í mat til Hill og Kall og taka Styrmi með. Við horfum auðvitað á Júró, ég held með Finnlandi, Grikklandi og Danmark. Vúhú.

Ég bauð umsjónarhópnum mínum á leikskólanum heim til mín í vikunni. Þeim fannst það sko ekki leiðinlegt og spurðu mig spjörunum úr, eins og afhverju ég ætti svona lítið hús? Þau eru svo yndisleg. Svo sagði ein mamman við mig að sonur hennar hafi sagt upp úr þurru "Hún Auður mín ætlar aldrei að hætta." Bráðn.
Jæja, verð að hætta þessu, sé ykkur á sýningunni á morgun. En ég er ekki dreki Kristjana!

þriðjudagur, maí 09, 2006

Nóg að gera eins og alltaf þessa dagana. Æfingin um helgina gekk bara vel hjá okkur. Við lærðum alveg helling af því að hafa alla þessa leikara sem áhorfendur. Það var alveg æðislegt hvað Þráinn hló mikið. Við ákváðum svo að stytta sýninguna, núna er hún því um 50 mínútur og samanstendur af 8 sögum.
Um helgina var afmæli Kristjönu og Sunnu og við Sögulið mættum að sjálfsögðu. Þema kvöldsins var að auðvitað Svali;) og líka rauður varalitur hjá okkur Margréti. Þetta var þvílíkt snilldarkvöld. Fyrst komu allir heim til mín nema afmælisbörnin og Salka tók sig til og klippti Steinar út á stétt. Tókst þetta bara mjög vel hjá stúlkunni. Svo var haldið í partýið syngjandi Strandvarðalagið sem er þemalag Sögu. Eftir alveg ótrúlega gott partý var haldið í Sjallann þar sem vitleysan hélt áfram. Sunna fór með barbísundhring, sem Ævar gaf henni, um mittið. Þar sem hann var fyrir 3.-6 ára sat hann pikkfastur.
Mér til allsvakalegrar gleði var Hildigunnur í Sjallanum ásamt Soffíu og spússa svo það urðu miklir fagnaðarfundir. Hill eyddi svo megninu af kvöldinu með okkur. Við Söguliðið fórum síðan algjörlega yfirum þegar Páll Óskar spilaði Strandvarðalagið með afmæliskveðju til Kristjönu og Sunnu, hvílík gleði, þvílíkt kvöld:)

Í kvöld var svo Generalprufan hjá okkur og tókst hún bara vel. Ég var nett stressuð, enda Hildigunnur og Kalli í salnum. Held bara að þau skötujú hafi skemmt sér vel, allavega var ekki annað að sjá.
Svo er það bara FRUMSÝNING á morgun gott fólk! Ekki er verra að það er frumsýningarpartý á eftir:) Það eru tvær sýningar á morgun kl 20 og 22. Svo eru sýningar 16., 17. og 19. maí kl. 20. Við sýnum í Hafnarstræti 73, rétt hjá gömlu Dynheimum. Góða skemmtun!
Er líka með vorboð á morgun í vinnunni. Þá bökum við krakkarnir vöfflur og foreldrarnir koma til að sjá afrakstur vetrarins. Stór dagur hjá mér á morgun.

föstudagur, maí 05, 2006

Það er bara allt að gerast. Fréttatilkynning með mynd af okkur í Sögu birtist á næstu dögum og plaköt munu prýða bæinn frá og með morgundeginum. Svo auglýsum við náttúrulega í næstu dagskrá. Á morgun koma fullt af leikurum á æfingu hjá okkur. Leikarar sem ég er búin að horfa á í allan vetur í Fullkomnu brúðkaupi, Maríbjöllunni og Hryllingsbúðinni, munu núna horfa á okkur. Þetta er Gói, Jói, Esther og Álfrún. Svo verða einhverjir fleiri, til dæmis bróðir Denna leikstjóra. Eins gott að standa sig, smá hnútur í maganum!

fimmtudagur, maí 04, 2006

Æi ég nenni ekki að skrifa ferðasöguna gott fólk. Reyndar nenni ég ekki mikið að blogga eins og þið hafið eflaust tekið eftir. En það var alveg ágætt út í Danmörku, ekkert meira en það. Enda var þetta vinnuferð og ég komst ekki í tívolí né til Svövu sem átti afmæli.
Ég er strax byrjuð að hlakka til næstu utanlandsferðar, við Styrmir ætlum að skella okkur til Búlgaríu 6. júlí:)

Nú er allt að komast á hreint hjá okkur í Sögu. Við ætlum að frumsýna 10. maí verkið Núna. Þetta er frumsamið verk. Það er mjög sértakt en við erum bara mjög ánægð með það. Hvert okkar segir sögu af sjálfum sér. Einhverjum atburði í okkar lífi sem að við viljum segja frá. Sögurnar eru fyndnar, sorglegar, geðveikar, skrítnar, já áhorfendur fá allar tegundir af sögum. Mín saga heitir Bernskudraumurinn og ef þið viljið vita meir verðið þið bara að koma á sýninguna.
Við erum á æfingum alla daga og maður hefur ekki tíma til neins nema vinan og æfa. Svo eiga Sunna og Kristjana afmæli um helgina og það verður að sjálfsögðu partý. Já lífið er bara skemmtilegt þessa dagana.