þriðjudagur, maí 30, 2006

Ég kemst aldrei í tölvu núorðið enda er húsbóndinn á heimilinu í prófum. Ætla að grípa tækifærið núna þar sem hann brá sér frá og rita hér nokkur orð.
Það hefur margt gerst síðan síðast. Sýningum er lokið og við bíðum spennt eftir gagnrýni. Svo virtist sem gagnrýnandinn hafi verið hrifinn svo einhver von er um að gagnrýnin verði jákvæð. Bara bíða og vona það besta. Strax eftir að sýningum lauk flutti hún Kristjana okkar suður sem var frábært fyrir hana en sorg fyrir okkur hin. Er strax farin að sakna Sögufólksins míns, við hittumst lítið núna því þau eru öll í prófum. Við eigum samt eftir að segja sögurnar okkar einu sinni enn, þar sem við eigum eftir að taka þær upp.

Um helgina gerðist sá stórmerkilegi atburður að Sindri minn fermdist og tók hann sig mjög vel út strákurinn. Við Styrmir fórum líka í brúðkaup sama dag og var þetta nokkurt met fyrir mig, tvisvar í kirkju sama daginn. Hún Salka var svo yndisleg að greiða mér og mála mig sem var bara æði. Hún endaði á að gera líka bindishnút fyrir Styrmi svo að ég bannaði henni að fara til Englands í sumar. Það er náttúrulega ekki séns að við getum búið okkur í veislu án hennar hjálpar, ekki úr þessu.
Kosningar um helgina. Meiri hlutinn fallinn sem er algjör snilld. Ég kaus að sjálfsögðu rétt og var sátt með minn flokk, enda juku þeir fylgi sitt talsvert. Í tilefni þess fór ég á Karólínu með Sunnu og fleirum sem reyndar fóru strax. En við Sunna sátum sem fastast, enda nóg um að tala. Svo kom hún Sóla mín líka sem var frábært og loks Ævar en við erum að reyna að endurnýja kynnin þar sem sýningum er lokið;)

Get náttúrulega ekki endað þetta án þess að minnast á síðustu helgi. Júró var snilld. Ég óskaði Malenu minni að sjálfsögðu til hamingju með sigurinn. Finnland sannarlega málið þetta árið. Svo fékk ég svo margt gott hjá Hildigunni og Kalla. Að öðru ólöstuðu stóð rækjusalatið upp úr en hún Hildigunnur býr til besta rækjusalat í heimi, segi ég og skrifa! Fékk líka írskt kaffi, sem var samt bara írskt, minna af kaffi. Þetta var skemmtilegt kvöld, Ævar, Hafliði og Keli bættust í hópinn og gítarinn var dreginn upp. Bara gaman, takk fyrir mig Hildigunnur mín og Kalli.

Ég er búin að sækja um í HÍ.