miðvikudagur, október 22, 2003

Hér sit ég og skrifa á meðan ég bíð eftir að Lilja komi svo við getum klárað fyrirlesturinn okkar fyrir náskylda aðilann. Svo skemmtilega vill til að við eyddum gærdeginum í vinnu við þennan fyrirlestur og áðan var ég að klára ljósmyndaverkefni með Hildigunni og Örnu sem einnig skal skilast til sama aðila. Spurning hvort maður ætti að klaga þetta...

Talandi um skyldleika þá erum við orðin þrjú í skólanum. Ég hef velt því fyrir mér hvernig hægt sé að nýta það sem best og hef komist að niðurstöðu. Ég ætla koma því á framfæri við pabba og Val að við gerum uppreisn og leggjum undir okkur skólann. Valur verður skólameistari (Afskakaðu pabbi en hann á flottari bíl), pabbi aðstoðarskólastjóri og ég dúx skólans. Ég fæ verðlaun bæði í eðlisfræði og stærðfræði við mikinn fögnuð Níelsar kennara. Mikið verður það nú gaman.

Um helgina var afmæli Ástu. Það tókst afskaplega vel og fórum við bæði á Amour og í Sjalla þar sem ég hitti tvo yfirmenn mína. Þar á meðal virðulegan verslunarstjóra. Maður er hvergi óhulltur lengur á þessum síðustu og verstu tímum.

fimmtudagur, október 09, 2003

Ógn og skelfing. Ég eins og flestir fjórðubekkingar staulaðist um skólann í dag. Ástæðan var hið dásamlega hlaupapróf sem við vorum neydd í á miðvikudaginn í frosti og hálku. Segi ég farir mínar ekki sléttar úr þessu prófi og reikna ég með slæmri íþróttaeinkunn í vor. Þó get ég ekki verið sammála minni elskuðu Hildigunni sem telur að íþróttir séu fyrir kerlingar og aumingja en nota tækifærið til að lýsa því yfir að það er einmitt skoðun mín á blaki.

Við stelpurnar ætlum loks að hittast í kvöld, ég var farin að hafa áhyggjur af vinahópnum. Enginn tími hefur verið til að hittast sökum anna og enginn man lengur hvenær við skruppum síðast út á lífið. Það á sumsé aldeilis að bæta úr þessu í kvöld þar sem við ætlum að spila Party & co og vona ég að enginn muni slasast alvarlega. Einnig var Hildigunnur blessunin að röfla e-ð um innflutningspartý í dag og mun ég minna hana á það með reglulegu millibili út næstu viku.

Ég er með næturgest í nótt sem er hún Iva litla en svo ætlar hún að yfirgefa mig á morgun og fara til útlanda eins og allir aðrir. Sem minnir mig á að Brynja mín elskuleg sendi mér póst í dag. Þakka þér fyrir Brynjan mín sæta og farðu svo að koma þér heim!

fimmtudagur, október 02, 2003

Gærdagurinn byrjaði hreint ekki vel. Hann hófst með því að ég svaf yfir mig í íslensku og missti af áframhaldandi göfugu námi. Hugmyndir Valdimars um að þágufallssýkin sé rétt, eru vitanlega ómissandi svo ekki sé minnst nýjar hugmyndir um beygingar sem hann vill gjarnan læða inn í vora tungu.
Ég hóf því daginn á dásamlegum og gefandi frönskutíma sem fyllti mig lífsþrótti þangað til komið var að uppáhaldinu mínu íþróttum. Til að kóróna daginn var þetta tvöfaldur tími og eftir að hafa hlaupið þarna vænan hring framhjá ljótasta húsi bæjarins (KA heimilinu) fórum við í boðhlaup þar sem Lilja sýndi afhverju hún ber af öðrum í vinahópnum í rassadillingum.

Iva kom svo í bæinn í gær og fórum við ásamt fríðu föruneyti í bíó og svo á Amour. Myndin var virkilega slæm og gerðum við grín að henni það sem eftir lifði kvölds.

Í dag hef ég ákveðið að vera í vondu skapi þar sem ég er ekki á leið til höfuðborgarinnar eins og til stóð. Því munu vinir og skyldfólk þar í bæ gráta fögrum tárum því langt er þangað til ég hef tíma til að kíkja þangað úr þessu.

Bekksagnaræðukepnin byrjar í næstu viku. Það eru góð lið í keppninni í ár og er ég töluvert kvíðin en eru þó félagar mínir úr 4.A. toppræðumenn svo það verður gaman hvernig sem fer.