þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Skólinn minn er uppspretta eintómrar gleði. Í gærkvöldi áttum við þennan líka frábæra movement tíma með Crispin. Engar magaæfingar núna, nei. Hann byrjaði á að kenna okkur lag sem var ansi hreint ágætt og við sungum eins og englar. Svo áttum við öll að standa í hring og einn átti að byrja að búa til takt, hvernig sem hann vildi og hinir áttu að fylgja með. Allir máttu gera það sem þeir vildu, klappa, stappa, dansa, syngja, æpa og ég veit ekki hvað og hvað. Og maður þurfti ekki alltaf að vera að gera það sama. Þetta var svo gaman, allir slepptu sér og því vorum við hópur af hoppandi, klappandi og gólandi vitleysingum í um hálftíma. Crispin tímdi bara ekki að stoppa okkur.
Eftir þetta áttu allir að standa í hring og svo einn að fara í miðjuna, allir aðrir áttu að hvísla hrósyrðum af þeim sem var í miðjunni. Ég verð nú að segja að ég bara roðnaði svo mikið var hrósið en þetta var ekki slæmt fyrir sjálfsálitið;) Því miður var einn sem misnotaði þetta, að mínu mati, en það verður ekki farið nánar út í það hér.

Í dag áttum við svo að leika þær perónur sem við erum búin að fylgjast með undanfarinn mánuð. Þurftum fyrst að leika í 10 mín og sitja svo fyrir svörum í 20 mín, í karakter auðvitað. Minn karakter er kona sem selur pylsur á Pr.street. Hún virkar alltaf glaðleg og veitir góða þjónustu. Afganginn þurfti ég að skálda og ímyndunaraflið tók völdin. Ég ákvað að ég væri frá Manchester, missti foreldra mína 10 ára en átti eina systur. Ég hafði ekki efni á Háskóla en málaði svolítið, hafði hæfileika í þá átt. Var hrædd við að tengjast fólki en gifti mig samt 27 ára. Hann hélt auðvitað framhjá svo við skildum þegar ég var 31. Þá flutti ég til Edinborgar (systir mín býr þar sko) og hóf að selja pylsur. Er hætt að mála því eiginmaðurinn fyrrverandi dró úr mér kjark og þori ekki að eignast vini hvað þá karlkyns af ótta við að verða særð. Ég bjó þetta svona nokkurnveginn til á staðnum. Lést vera hress og ánægð og sjálfstæð en lét samt einmannaleikann skína í gegn. Crispin var alveg heillaður, hann var svo ánægður með mig, það var fínt, helling af hrósi tvo daga í röð:)

Á morgun ætlum við Eva með Kjartan í tækin í Pr. street Gardens. Hann verður eflaust glaður. Verð líka að segja frá því að við fórum yfir til Sæmsa Palla í dag og þeir voru virkilega góðir. Undur og stórmerki en þeir eiga hrós skilið fyrir það. Sæmsi getur samt ómögulega skilið að ég sé ekki mamma hans Kjartans. Hann kynnir mig alltaf sem Auður, Kjartans mamma.
Verð að ljúka þessu á kommenti sem ég fékk um daginn sem á eftir að gleðja foreldra mína og ömmu Auði. Ég hafði draslað aðeins til í herberginu mínu á sunnudegi. Var orðin svo þreytt á þessari röð og reglu og ópersónulegheitum. Svo labbaði ég fram og Ingibjörg sá inn og varð undrandi þar sem herbergið er alltaf eins og enginn búi þar. Þá sagði ég að mér fyndist pínu drasl bara heimilislegt. Habbý kom svo yfir og fékk að heyra þessa sögu. Hún varð hissa, sagði að hún hefði haldið að ég væri týpan sem þyrfti alltaf að hafa allt í röð og reglu. Ég kæmi svo vel fyrir, sniðugt!

mánudagur, nóvember 29, 2004

Loksins kemst ég inn á þessa síðu til að hripa niður nokkrar línur. Hef reynt síðustu daga en síðan hefur streist á móti og barist hetjulega. Ég vann þó að lokum eftir mikla baráttu.
Ég hef haft það ágætt síðustu daga. Hef ekki skrifað á nein jólakort, nenni því ekki, er ekki alveg búin með heimavinnuna mína, nenni því ekki. Hef samt farið þrisvar í ræktina frá því á föstudag svo ég er ekki algjör letingi.
Á föstudaginn gerðust þau merku tíðindi að Kristján og Ingibjörg fengu tilboð í húsið, sem þau tóku. Við erum sumsé búin að selja og ég hlýt þá að geta flutt út úr fataskápnum mínum og gefið herberginu svolítið persónulegra yfirbragð.
Helgin fór í mest lítið hjá mér. Passa á föstudagskvöldinu og svo með Soffíu hjá Habbý á laugardagskvöldinu. Eva kom líka til okkar með nammi, það var nú einu sinni laugardagur. Í gær gerði ég svolítið sem ég geri ekki aftur. Ég fór í messu, næstum ótilneydd. Trúleysinginn sjálfur. Þannig er mál með vexti að þetta var svona íslensk messa. Því fannst mér að ég þyrfti nú að kíkja á þetta til að vera virk í félagslífi Íslendinga. Því miður, þrátt fyrir að presturinn hafi verið ágætis maður, var þetta ótrúlega leiðinlegt. Það sem bjargaði þessu að einhverju leyti var Sæmsi Palli, klifrandi um allt í skotapilsinu sínu. Ég held að Kjartan hafi verið sammála mér, presturinn bað krakkana að koma upp þar sem hann talaði aðeins við þau og söng nokkur sígild lög eins og Djúp og breið. Kjartan setti samstundis upp skeifu og nokkru seinna fór hann að gráta, litla hetjan:) Sálmarnir sem voru sungnir voru skelfilega leiðinlegir og hátt uppi svo fólk missti röddina á fyrsta erindi. Þegar þessum ósköpum lauk fórum við að borða kökur, allir áttu að koma með eitthvað og viðurkenni ég fúslega að kökur þessar voru hin raunverulega ástæða fyrir komu minni.
Eftir þetta fórum við á Pr.st þar sem var búið að setja upp stórt parísarhjól sem við Ingibjörg og Kjartan fórum í og þar var Kjartan ekkert hræddur. Einnig er skautasvell þarna og þýskur jólamarkaður. Skoðaði aðeins með Evu og fjölskyldu og fór svo með þeim heim til þess að horfa á breiðtjaldið hennar Evu, það þótti okkur ekki leiðinlegt.

Það virðist allt vera að gerast helgina sem Sóla kemur til mín. Jólapartý hjá skólanum mínum, jólaboð hjá Evu og jólaball hjá Íslendingunum, það verður því nóg að gera hjá okkur.
Það eru um tvær ástæður fyrir að ég nenni að hanga í tölvu. Önnur er tilvera bloggsíðna, ótrúlega gaman að fylgjast með öllum og eiga duglegir bloggarar hrós skilið. Hin ástæðan er hin frábæra tækni msn. Þvílík snilld að geta blaðrað við vini og vandamenn tímunum saman, ókeypis. Það eru nokkrir sem nenna alltaf að tala við mig og eru ansi oft online. Þeim er ég öllum mjög þakklát og fá þeir hér heiðursorðu frá mér. Þeir eru; Afi og amma í Garðabæ, alltaf hægt að treysta á gott morgunspjall við þau, góð byrjun á deginum. Andri, frábær msn vinur og hægt að tala við hann um allt, hressandi. Faðir minn, ávallt reiðubúin fyrir einkadótturina, síðast en ekki síst er það Sessý frænka sem gleður mig alltaf með skondnum skrifum.
Jæja, þarf að fara að ná í Kjartan, svo er það skóli í kvöld.

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Gærdagurinn var hreint ekki einn af þessum góðu dögum, svona framan af. Ekki hjálpaði að ég var við það að gefa upp öndina af miklum líkamlegum sársauka sem ég kenni mánudagsleikfiminni um og stiganum hjá Evu.
Það rættist þó úr kvöldinu og var skólinn hinn mesta skemmtun. Crispin bauð okkur ótrúlegt tækifæri. Það var að koma í prufur fyrir leikrit sem sýnt verður frá janúar til júlí. Þetta er sýnt í skólum, aðallega fyrir börn frá 6-12 ára en einnig fyrir eldri nemendur. Held það sé um fleiri en eitt leikrit að ræða. Þetta er full vinna og ágætlega launað og mjög eftirsótt að komast í þetta. Umsækjendur þurfa að fara í gegnum allskonar ferli áður en þeir komast í prufuna en við fáum tækifæri til að fara beint í prufuna. Því miður get ég ekki nýtt mér þetta þar sem ég er ekki laus frá átta á morgnanna fram á kvöld. Þetta hefði samt verið gaman.
Einnig gerðist sá atburður í gær að maður nokkur kom og truflaði tímann hjá okkur. Hann var sendur af Anne, hinum kennaranum okkar, og vantaði hann leikara í stuttmynd sem hann var að gera. Hann tók niður nöfn og símanúmer hjá okkur, ég sagði honum þó að hann vildi örugglega ekki hafa íslenskan framburð í myndinni sinni en hann þvertók fyrir það og heimtaði að skrifa mig niður, ég var víst á réttum aldri. Svo bíð ég bara spennt eftir símhringingu. Fiona vildi reyndar meina að það væri eitthvað athugavert við manninn en við hin töldum að sú skoðun væri byggð á því að maðurinn hafi ekki sýnt henni neinn áhuga. Annars fékk hún makaleg málagjöld í gær manneskjan sú. Það er kannski barnalegt að segja frá þessu en of fyndið til að ég geti sleppt því. Við sátum öll, það var alveg þögn því Crispin var að tala þegar allt í einu heyrðist hátt fart hljóð sem greinilega kom frá Fionu. Það bergmálaði nánast í herberginu og allir snéru sér við og litu á Fionu. Hún varð eldrauð í framan og baðst afsökunar á þessu en við Dana áttum í mestu vandræðum með að halda niður í okkur hlátrinum.
Það eru bara þrjár vikur eftir af þessari önn og nóg að gera í skólanum. Í næstu viku eigum við að leika þá sem við eigum að vera búin að fylgjast með síðustu vikur. Ég valdi mér konu sem selur pylsur á Pr.street. Í vikunni þar á eftir er svona audition kvöld. Eigum að velja okkur eitthvað til að læra utan að og fara með. Svo er nóg af heimavinnu fyrir jólin. Það verður annað auditon í janúar, við fengum klassískan texta hjá Crispin sem við eigum að vinna með og læra yfir jólin. Einnig ætlar hann að láta okkur lesa leikrit yfir jólin en við fáum ekki að vita hvað það er fyrr en í síðustu vikunni fyrir jól því hann vill ekki að við fáum of mikinn tíma til undirbúnings. Eftir jól leikum við svo nokkur atriði úr þessu leikriti á sviði fyrir framan áhorfendur.

Hérna er smá bútur til ástkærra foreldra minna. Ég hef verið að hugsa um mat sem mig langar í um jólin og hefur meðal annars dottið í hug:
-makkarónusúpa, sagóvellingur og afagrautur. (Nægir kannski að fá grautinn á aðfangadag.)
-Pitsa frá greifanum og einnig Domino's
-Pylsur, aber ja
-Plokkfiskur
-Fajitas
-Kjöt í karrý eða kjötsúpa
-franskar frá skyndibitastað með frönskukryddi.
Einnig myndi ég þiggja, íslenskt vatn, kók, malt og appelsín ásamt sælgæti. Síðast en ekki síst Brynjuís.

mánudagur, nóvember 22, 2004

Hvar skal byrja. Jú, helgin átti sínar góðu og slæmu hliðar. Reyndar bara eina slæma hlið og engu hægt að kenna um nema klaufskapnum í sjálfri mér. Jú og svo auðvitað myrkrinu.
Föstudagskvöldinu eyddi ég með Soffíu eins og svo oft áður og við átum nammi og drukkum kók sem kemur heldur ekki ósjaldan fyrir. Í sjónvarpinu það kvöld var þáttur til styrktar veikum börnum, svipað og heima á Íslandi, nema þeir sem fram komu, aðeins stærri nöfn en á litla Íslandi. Þetta var því hin besta skemmtun, Travis og ótalmargt fleira.

Laugardeginum eyddi ég framan af í leti en ákvað svo að reyna að ná mér upp úr henni. Ég skellti því jólatónlist á fóninn og gerði heiðarlega tilraun til að skrifa jólakort. Kjartan var sérlegur aðstoðarmaður minn. Sá um að rétta mér kortin. Hann hafði ekki mikið að gera því ég skrifaði bara eitt jólakort. Byrjaði þó á öðru en fann að andinn var ekki yfir mér svo ég hætti og snéri mér að gáfulegri hlutum. Sem var að sjálfsögðu að hoppa í rúminu með Kjartani í takt við jólalögin. Öll gleði tekur enda og ég snéri mér að heimavinnu fyrir skólann þangað til Eva kom að ná í mig þar sem ætlunin var að eyða kvöldinu með henni og gista. Og kvöldið var gott, sjónvarpið sýndi Rauðu mylluna og við Eva andvörpuðum í takt yfir sönghæfileikum McGregors vinar okkar. Hann hlýtur að teljast vinur þar sem við búum í Skotlandi. Eftir það horfðum við á mynd með Viggo nokkrum Mortensen og þótti okkur það ekki leiðinlegt. Svo var bara spjallað fram á rauða nótt. Þá er komið að slæmu hliðinni! Ég vaknaði um 5 leytið og þurfti á klósettið. Staulaðist út úr herberginu hennar Evu í niðamyrkri og þreifaði eftir baðherbergishurðinni. Ég fann hana (hélt ég) og opnaði og steig eitt skref fram... En hvað var þetta, það var ekkert nema loft undir fætinum á mér. Ég hafði opnað vitlausa hurð, þetta var hurðin að stiganum (herbergi Evu er á efri hæð) svo ég rúllaði niður allan stigann og það var langt frá því að vera notalegt. Afrekaði líka að vekja Hafrúnu sem hélt það væri innbrotsþjófur í húsinu. Ég er rétt að jafna mig núna en finn ennþá töluvert til í skrokknum.
Sunnudeginum var eytt í enn meiri leti hjá okkur Evu. Ég reyndar fékk Hafrúnu í lið með mér við að reyna að koma Evu á deit með Jonasi, sem er Svíi nokkur sem hrífst mjög af stúlkunni. Hún neitar honum þó alltaf grimmilega en lætur eflaust undan þrýstingnum þegar ég og Hafrún erum báðar að ýta á hana;)
Í gærkvöldi var ég svo bara að passa Kjartan minn sem sofnaði í fanginu á mér þessi elska. Sá frábæri atburður henti í gær að ég hitti Sólu mína á msn. Hún fór að tala um að koma í heimsókn í desember, ég gerði mér þó ekki of miklar vonir en viti menn. Stúlkan bara dreif í því að panta ferðina og kemur til mín 10-14 desember. Þetta er náttúrulega snilld og ég er alveg syngjandi glöð:)

Skólinn í dag, hvað skal segja. Voice tíminn var ágætur. Slapp frekar vel frá Rómeó og Júlíu því við fluttum verkefnið í hópum, gott mál. En svo kom Movement og ég hef ekki hugmynd um hvað hefur hlaupið í hann Crispin. Það var þrekhringur hjá honum og tímarnir hjá henni Bryndísi voru eins og barnaleikur miðað við þessi ósköp. Tala nú ekki um fyrir manneskju sem er nýbúin að hrapa niður stiga. Það sem bjargaði þessu var að Ainsley byrjaði að syngja We will rock you, allir tóku undir, stöppuðu og klöppuðu (þeir sem gátu) og við það urðu hoppin, magaæfingarnar og armbeygjurnar örlítið skárri.
Rúmið hljómar freistandi, er skjálfandi eftir þennan tíma, búin að vera.

föstudagur, nóvember 19, 2004

Þá er komin helgi enn og aftur. Ljúft helgarfrí framundan eftir því sem ég best veit. Ég stakk af til Evu minnar í gærkvöldi svo ég yrði ekki fyrir meðan verið var að sýna íbúðina, enginn kom. Við Eva skemmtum okkur þó vitanlega vel eins og alltaf, í þessu tilfelli örugglega ég betur. Ég heimtaði nefninlega að við horfðum á Galdrakarlinn frá OZ á breiðtjaldinu. Þetta er myndin sem ég leigði svo oft á Amtsbókasafninu í æsku að hún eyðilagðist. Algjör snilld frá 1939.

Ég villtist inn á sjallinn.is um daginn og sá mér til ómældrar skemmtunar að keppnin um herra Norðurland fer fram í kvöld. Þarna voru myndir af nokkrum vel völdum karlmönnum, hver öðrum ómyndarlegri. Ekki bætti úr skák að þeir virtust reyna sitt besta til að láta karlmennskuna skína í gegn með hörmulegum afleiðingum. Já svei mér þá, fegurðarsamkeppnir eru ótrúlega hallærislegt fyrirbæri, konur, karlar, hundar og börn (sem er skelfilegt) Held samt að hégómalegir karlar séu það versta í þessu tilfelli. Ég get prísað mig sæla að eiga ekki mann sem þarf að fá útrás fyrir athyglissýki í svona keppni. Þá þyrfti ég að flytja úr landi sökum ævarandi skammar. Hef reyndar þegar flúið land, spurning hver ástæðan sé..?

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Vikan er búin að vera ágæt þrátt fyrir skuggalegt peningaleysi. Meðal annars fór ég í fyrsta skipti á pöbb ásamt Áslaugu á sunnudagskvöldið. Það var mjög notalegt, við sátum og blöðruðum frá okkur allt vit í þrjá tíma. Það er nefninlega engin kaffihúsamenning hér (augljóslega þar sem Bretar drekka te) og því er ágætt að kynna sér pöbbana aðeins.
Skólinn var líka ágætur, reyndar dauðkvíði ég næsta tíma. Við eigum að læra byrjunina úr Rómeó og Júlíu utan að. Áttum að vera búin að því en komumst ekki yfir það. Engin nema Pam gat byrjað og mér brá rosalega þegar litli, sæti kennarinn minn hún Anne byrjaði að hrauna yfir hana. Hjálpi mér, hvað ætli henni finnist þá um minn framburð!?

Ég er aðeins byrjuð að svindla, fór til Evu um daginn og hún létti mitt geð með íslenskum jólalögum. Svo fékk ég lánaðan hjá henni diskinn því ég ætla að byrja að skrifa jólakort um helgina. Allt í einu er svo mikið að gera. Þarf að skrifa tvær Carminugreinar í ár, þetta er því þriðja árið í röð sem ég leggst við skriftir í þessum tilgangi. Ég hugsa að ég taki mér frí frá þessu á næsta ári. Auðvitað er gaman að skrifa um alla frábæru vinina sem ég á og ekki nema sjálfsagt, en þrjú ár í röð er nú alveg ágætt held ég:)

Ég er búin að þrífa í dag, aldeilis fínt að eiga frí á föstudagsmorgnum. Vona að það komi nú eitthvað af fólki að skoða í kvöld, það er að verða svolítið þreytandi að búa í fataskáp. Það jákvæða við þessar sífelldu gestakomur er að Ingibjörg leggst alltaf í bakstur og nýt ég góðs af. Vísu spurning um hversu jákvætt það er ef við hugsum um það ömurlega máltæki: "Í kjólinn, fyrir jólin." En það angrar mig ekki því ég beini hugsunum mínum á aðrar brautir.
Helgin framundan og ég veit ekkert hvað gera skal, reyni örugglega að plata þær Soffíu og Evu í einhver rólegheit með mér, sjónvarpsgláp jafnvel.

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Það er skyndilega kominn vetur hér í Edinborg. Ég hef nákvæma tímasetningu á þessum óboðna gesti, hann kom á föstudaginn. Það er orðið kalt, svona leiðinda vindur og ekki meira en 5 stiga hiti. Ég tek þessu þó af karlmennsku, eins og mér er lagið.
Það er langt síðan ég skrifaði hérna síðast, enda er ég búin að vera eins og brjálaður túristi, þeysandi um borgina. Við Styrmir skoðuðum meira að segja kastalann, hann var mjög flottur. Svo var labbað um gamla bæinn, Royal mile vitanlega. Fórum í bíó, Finding Neverland, hún er frábær. (Þú átt eftir að skemmta þér vel Sessý)
Á laugardagkvöldið fyrir viku fórum við í afmæli til Evu, þar var boðið upp á íslenskt lambalæri, ekki slæmt það. Svo var auðvitað frábært að hafa húsið hennar Habbýar, ég sýndi hæfileika mína í eldamennsku, indverskur kjúklingur, hvorki meira né minna. Hann var bara vel heppnaður hjá mér og Styrmir matvandi tróð í sig nokkrum bitum, lét eins og honum þætti hann góður en ég sá í gegn um hann.
Ég er aldeilis búin að háma í mig, íslenskt skyr, íslenskt kók og vatn ásamt ómissandi ostapoppi. Ekki nóg með það heldur sendu amma og afi í Hjarða nammisendingu og styrk sem kom sér mjög vel, bestu þakkir og koss til þeirra.

Þessi helgi er búin að vera mjög fín hjá mér. Soffía og ég fórum til Glasgow í gær, ég fylgdi Styrmi þangað líka á fimmtudaginn. Þetta var því tvisvar á 2. dögum, geri aðrir betur. Það var frábært hjá okkur Soffíu, ég eyddi öllum mínum peningum sem var minna frábært. Ég keypti mér kjól sem var frábærast. Því má segja um mig að ég sé: a) auli b) stjórnlaus í peningamálum og eyðandi í óþarfa c) stórgáfuð ung kona sem keypti nánast allar jólagjafirnar og vantaði kjól. Ég vel c) fyrir mína parta, það er víst.
Glasgow er frekar ljót borg miðað við Edinborg en samt gaman að koma þangað að versla. Jólaskrautið í verslunarmiðstöðvunum var svo yfirþyrmandi að það vakti undrun mína að fólk hreinlega hengdi sig ekki í því. Við Soffía létum það bara fram hjá okkur fara og ég hvatti hana til að kaupa sér tvenn pör af skóm. Þetta hefur greinilega verið henni erfitt því þegar við fórum á Burger King og hún var að henda ruslinu, lét hún sér það ekki nægja, heldu henti bakkanum með. Ég hló eins og vitleysingur, og er búin að gera góðlátlegt grín að henni síðan. Soffía er frábær.
Ég endaði svo gærdaginn á bíóferð með Evu þar sem við gláptum heillaðar á Mark Darcy í Bridget Jones. (Það getur reyndar verið að Eva hafi verið að horfa á Hugh Grant)

Í dag fórum við Kjartan heim til Soffíu, Önnu Vigdísar og dætra hennar þeirra Guðnýjar og Guðrúnar. Það var notalegt eins og alltaf og við Kjartan og Soffía héldum í bíó á Shark Tale. Eftir það fórum við öll heim á Darnell road og fengum heitt súkkulaði og nýbakaða kanilsnúða. Mjög gott í vetrarkuldanum.
Ég ætla að enda þetta á ansi merkilegum fréttum. Í ljós hefur komið að bróðir Sean Connery býr í sömu götu og Evu. Ég var svo heppin að sjá hann um daginn og bauð hann mér gott kvöld. Ég verð að segja að hann er mjög líkur bróður sínum. Nú verður amma Auður öfundsjúk.

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Ég er með rosalega strengi eftir skólann síðustu tvo daga. Crispin leggur sérstaka áherslu á að leikari þurfi að vera í góðu formi og líkaminn sveigjanlegur. Við erum því búin að gera allskonar æfingar og teygjur þangað til við vorum farin að skjálfa og orðin rauð í framan. Crispin var þó sallarólegur og sagði að það virkaði ekki nema að það væri sárt.
Á mánudaginn fengum við líka texta ur Rómeó og Júlíu sem við eigum að læra fyrir næstu viku. Ég þurfti að vinna með Fionu í voice og við komumst ekkert áleiðis af því hún hélt að það þyrfti að útskýra allt fyrir vanvitanum mér. Alveg sama þó ég reyndi að segja henni að ég þyrfti engar útskýringar.
Í gær var Samara ansi illkvittin við mig. Ég var að vinna með henni. Hún átti að sitja í stól og ég gera allt sem hún sagði meðan hinir horfðu á. Hún lét mig meðal annars dansa og dilla rassinum, dansa ballett og deyja með óhljóðum, hlaupa spretthlaup um allt og syngja á íslensku eftir það. Hafði samt bara lúmskt gaman af þessu. Öllu verra var þegar ég lenti í hóp með Fionu og Chris. Við áttum að finna upp á eins mörgum óhefðbundnum hlutum sem hægt er að gera við stól og við gátum. Alltaf þegar ég fékk hugmynd reif Fiona af mér stólinn því að hennar mati var ekkert nógu gott nema eigin hugmyndir. Það væri nú gaman ef einhver myndi dangla hressilega í hana.
Það skemmtilegasta sem ég gerði í gær var með Ansley og Samöru í hóp. Við áttum að leika ævintýri án þess að hafa tal í því. Við lékum Rauðhettu, Ansley var úlfurinn, Samara amman og ég Rauðhetta. Það undarlegasta var að hvorugt þeirra hafði heyrt endinn um að veiðimaðurinn kæmi inn og skæri ömmu og Rauðhettu úr úlfsmaganum, og setti steina í staðinn. Þessvegna var endirinn eitthvað skrítinn hjá okkur, en það var í góðu lagi.
Í næstu viku eigum við að vera búin að kaupa Hamlet (verst að ég seldi mína) og við vinnum með leikritið hálftíma á viku. Verst hvað það er mikil heimavinna fyrir næstu viku því ég ætla óvart að skrópa. Tel ég mig hafa góða og gilda ástæðu fyrir því. Hann Mimmi minn ætlar nefninlega að koma á morgun og vera í viku. Það væri vægt til orða tekið að segja að ég hlakki til. Kjartan er líka orðinn mjög spenntur fyrir heimsókninni. Hann segir að þeir séu vinir af því að Styrmir hafi séð mynd af honum:)
Það er lítil hætta á að ég bloggi meðan á heimsókn stendur. Allavega ekki yfir helgina þar sem við verðum í húsinu hennar Habbýar. Habbý ætlar einmitt að fara með mig að versla á eftir svo ég geti sýnt húsmóðurhæfileikana.

Að lokum verð ég að segja að mér blöskrar heimska Bandaríkjamanna. Svo virðist sem Bush verði endurkjörinn. Ætla ekkert að rökstyðja þá skoðun mína nánar, að um heimsku sé að ræða, því ég tel það liggja beint við.
Til samanburðar skulum við ímynda okkur lítið land með um 300.000 íbúum. Á landi þessu hafði um árabil ríkt ríkisstjórn nokkur sem ekkert gerði fyrir fólkið í landinu. Jú, fyrir minnihlutahóp, þá vel stæðustu. Þessi ríkisstjórn hefði einnig svikið fólkið í landinu með því að segjast vera með stórþjóð í stríði. Þetta kom illa við landsmenn því þeir héldu að landið þeirra væri hlutlaust auk þess sem meirihluti landsmanna var á móti þessu stríði. Ímyndum okkur svo stjórnmálaflokk. Flokk sem hefði jafnrétti sem sína stefnu. Flokk sem vildi að allir hefðu það gott, og ættu nóg. Flokk sem myndi aldrei vera með stríði.
Svo kæmu kosningar og fólkið í landinu myndi kjósa yfir sig sömu ósköpin og áður. Ekki nóg með það heldur fengi þessi jafnréttisflokkur eitt minnsta fylgi af öllum flokkum. Þetta gæti aldrei gerst, eða hvað? Því ef svo er væri þessi ímyndaða þjóð ekkert annað en hræsnarar. Líkt og Bandaríkjamenn sem kjósa Bush. En það er líka það sem litla þjóðin vill vera, eins og Bandaríkin.

mánudagur, nóvember 01, 2004

Það er búið að vera nóg að gera hjá mér um helgina. Á föstudaginn komu Guðrún amma Kjartans og Guðrún Diljá frænka hans. Mjög indælar báðar tvær, við fórum fjögur í Botanics og létum rigna hressilega á okkur.
Um kvöldið fórum við Áslaug til Soffíu og áttum mjög notalegt kvöld, bjór, snakk, nammi og Friends, klikkar ekki. Átum auðvitað yfir okkur. Anna Vigdís (konan sem Soffía leigir hjá) hélt hrekkjarvökupartý fyrir yngri dóttur sína og gleymdi að gefa krökkunum nammið. Það var því mikið til og auðvitað þurfti ég að smakka kökuna líka.

Á laugardaginn fór ég ein í bæinn en hitti þar bæði Soffíu og Dísu, dólaði mér þar smástund en fór svo heim aftur og í matarboð til Habbýar. Hjá Habbý var í heimsókn stúlka nokkur sem var au pair hjá henni í sumar. Perla heitir sú og er mjög viðkunnanleg, það sama er ekki hægt að segja um alla sem bera þetta nafn.
Við Perla fórum að borða nammi, horfa vídeó og drekka bjór (það er að segja ég sá um það því Perla er það ung) að matarboði loknu. Að vísu blöðruðum við svo mikið að við sáum ekki hvað myndin var um. Og að sjálfsögðu sprengdi ég mig aftur. Gat varla sofnað um kvöldið fyrir ofáti. Ég veit að Inga mín veit nákvæmleg hvað ég á við.

Í gær fórum við að skoða húsið sem Kristján og Ingibjörg ætla að kaupa. Mjög fínt hús og æðiselgt herbergi sem ég fæ:) Svo fór ég í bæinn, vildi ekki vera fyrir þegar þau fóru að sýna húsið okkar. Það komu því miður bara tveir.
Svo kom Eva loksins heim, ég var að passa hjá Habbý um kvöldið og hún kom til mín. Við átum og horfðum á DVD, skemmtum okkur mjög vel.
Nú þarf ég að fara, Kristján þarf að komast í tölvuna.