Hvar skal byrja. Jú, helgin átti sínar góðu og slæmu hliðar. Reyndar bara eina slæma hlið og engu hægt að kenna um nema klaufskapnum í sjálfri mér. Jú og svo auðvitað myrkrinu.
Föstudagskvöldinu eyddi ég með Soffíu eins og svo oft áður og við átum nammi og drukkum kók sem kemur heldur ekki ósjaldan fyrir. Í sjónvarpinu það kvöld var þáttur til styrktar veikum börnum, svipað og heima á Íslandi, nema þeir sem fram komu, aðeins stærri nöfn en á litla Íslandi. Þetta var því hin besta skemmtun, Travis og ótalmargt fleira.
Laugardeginum eyddi ég framan af í leti en ákvað svo að reyna að ná mér upp úr henni. Ég skellti því jólatónlist á fóninn og gerði heiðarlega tilraun til að skrifa jólakort. Kjartan var sérlegur aðstoðarmaður minn. Sá um að rétta mér kortin. Hann hafði ekki mikið að gera því ég skrifaði bara eitt jólakort. Byrjaði þó á öðru en fann að andinn var ekki yfir mér svo ég hætti og snéri mér að gáfulegri hlutum. Sem var að sjálfsögðu að hoppa í rúminu með Kjartani í takt við jólalögin. Öll gleði tekur enda og ég snéri mér að heimavinnu fyrir skólann þangað til Eva kom að ná í mig þar sem ætlunin var að eyða kvöldinu með henni og gista. Og kvöldið var gott, sjónvarpið sýndi Rauðu mylluna og við Eva andvörpuðum í takt yfir sönghæfileikum McGregors vinar okkar. Hann hlýtur að teljast vinur þar sem við búum í Skotlandi. Eftir það horfðum við á mynd með Viggo nokkrum Mortensen og þótti okkur það ekki leiðinlegt. Svo var bara spjallað fram á rauða nótt. Þá er komið að slæmu hliðinni! Ég vaknaði um 5 leytið og þurfti á klósettið. Staulaðist út úr herberginu hennar Evu í niðamyrkri og þreifaði eftir baðherbergishurðinni. Ég fann hana (hélt ég) og opnaði og steig eitt skref fram... En hvað var þetta, það var ekkert nema loft undir fætinum á mér. Ég hafði opnað vitlausa hurð, þetta var hurðin að stiganum (herbergi Evu er á efri hæð) svo ég rúllaði niður allan stigann og það var langt frá því að vera notalegt. Afrekaði líka að vekja Hafrúnu sem hélt það væri innbrotsþjófur í húsinu. Ég er rétt að jafna mig núna en finn ennþá töluvert til í skrokknum.
Sunnudeginum var eytt í enn meiri leti hjá okkur Evu. Ég reyndar fékk Hafrúnu í lið með mér við að reyna að koma Evu á deit með Jonasi, sem er Svíi nokkur sem hrífst mjög af stúlkunni. Hún neitar honum þó alltaf grimmilega en lætur eflaust undan þrýstingnum þegar ég og Hafrún erum báðar að ýta á hana;)
Í gærkvöldi var ég svo bara að passa Kjartan minn sem sofnaði í fanginu á mér þessi elska. Sá frábæri atburður henti í gær að ég hitti Sólu mína á msn. Hún fór að tala um að koma í heimsókn í desember, ég gerði mér þó ekki of miklar vonir en viti menn. Stúlkan bara dreif í því að panta ferðina og kemur til mín 10-14 desember. Þetta er náttúrulega snilld og ég er alveg syngjandi glöð:)
Skólinn í dag, hvað skal segja. Voice tíminn var ágætur. Slapp frekar vel frá Rómeó og Júlíu því við fluttum verkefnið í hópum, gott mál. En svo kom Movement og ég hef ekki hugmynd um hvað hefur hlaupið í hann Crispin. Það var þrekhringur hjá honum og tímarnir hjá henni Bryndísi voru eins og barnaleikur miðað við þessi ósköp. Tala nú ekki um fyrir manneskju sem er nýbúin að hrapa niður stiga. Það sem bjargaði þessu var að Ainsley byrjaði að syngja We will rock you, allir tóku undir, stöppuðu og klöppuðu (þeir sem gátu) og við það urðu hoppin, magaæfingarnar og armbeygjurnar örlítið skárri.
Rúmið hljómar freistandi, er skjálfandi eftir þennan tíma, búin að vera.
<< Home