Í dag var ég alveg óvænt í fríi. Þurfti að vísu að fara með Kjartan á leikskólann og sinna heimilisstörfum en þar með eru skyldur mínar upptaldar. Kristján var nefninlega í fríi í dag til að gera við baðvaskinn á heimilinu. Betra að hafa allt í toppstandi ef hugsanlegir kaupendur fara að skrúfa frá krönum. Því miður var þessum frídegi frekar illa varið þar sem ég vaknaði með rosalegt tak í bakinu. Er alveg við dauðans dyr en tórði frameftir degi með því að horfa á sjónvarpið og eta súkkulaði. Var svo sárkvalin að ég íhugaði að sleppa skólanum en harkaði af mér.
Það kom einhver með þá snilldarhugmynd að hafa aðra hópa á þriðjudögum og hún var samþykkt. Þar með losna ég við Zoe en Fiona er því miður líka í þriðjudagshópnum mínum. Þar er líka hún Samara vinkona mín og ég er líka með Ansley og Dönu í þessum hópi svo ég kvarta ekki.
Mánudagshópurinn minn ber nafnið Kings en náði ekki alveg nafninu á þriðjudagshópnum. Crispin mun kenna mér acting fyrstu tvær annirnar en svo skiptum við á þriðju önn og þá mun ég fá Justin. Allt fyrir fjölbreytnina. Fengum það heimaverkefni að fylgjast með ókunnri manneskju sem við sjáum daglega í fjórar vikur. Að þeim tíma liðnum eigum við að leika þessa manneskju í tíma, herma eftir henni í hreyfingum og háttum. Ætli ég velji ekki einhvern skrítin úr ræktinni, veit það annars ekki.
Í kvöld áttum við meðal annars að vera tvö og tvö saman og segja hvort öðru frá eftirminnilegum atburði í lífi okkar. Ég sagði frá því þegar ég fékk langþráðan, lítinn bróður og félagi minn sem var stúlka að nafni Sharon táraðist, híhí. Síðan átti maður að standa upp og segja öllum söguna sem félagi manns deildi með manni, nema maður átti að láta eins og þetta hefði komið fyrir mann sjálfan. Við Sharon komumst reyndar ekki að, kannski eins gott, stúlkan hefði varla komist ógrátandi frá þessu.
Þegar ég kíkti í gestabókina mína í dag sá ég forvitnilega færslu frá henni Elínu. Hún sagði að Áslaug, íslenska stelpan sem ég er nýlega búin að kynnast hefði skrifað um mig á blogginu sínu og hefði það ekki verið fallegt. Ég varð mjög forvitin og leitaði bloggið hennar Áslaugar uppi. Þetta var reyndar alls ekki slæmt, ég hafði gaman af. Hérna kemur það orðrétt: Hitti samt íslenska stelpu sem er au pair hérna og heitir Auður. Hah! það er sama hvert ég fer, alltaf finn ég Auði. Hún er voða fín, svona ofboðslega sweet og naíf sveitastelpa (enda frá Akureyri, sem ég hef heyrt að sé einhvers staðar lengst út á landi!) Jahá, þar höfum við það, hvað finnst ykkur, er þetta ég? :) Þeir sem hafa áhuga á að skoða allt bloggið hennar Áslaugar geta kíkt á það hér
Ég held ég fari að halla mér núna
<< Home