Ég er svo óheppin. Þetta getur bara ekki verið eðlilegt, ég lenti í hóp með báðum leiðinlegu stelpunum í skólanum. Þær Zoe og Fiona eru svo leiðinlegar að það er skelfilegt. Ég virkilega vorkenni þeim og vona þeirra vegna að það séu til lyf við þessu.
Ég er ekki alveg nógu ánægð með hópinn minn en ljósu punktarnir eru félgar mínir Ansley og Derrik ásamt Dönu sem er mjög fín stúlka, nokkrum árum eldri en ég myndi að ég held. Drengur að nafni Finn er þarna líka, hann virðist öðlingspiltur en er frekar feimin. Við erum yngst í hópnum, svo eru það þær leiðindapíur (sem eru á óræðum aldri, einhverstaðar á milli 20-40) Pammie er líklega rúmlega 30, hún er fín, hress og laus við að vera góð með sig. Svo er það Mel gamli, svosem allt í lagi að hafa hann og að lokum er nýr gaur í hópnum að nafni Darren , giska á að hann sé um þrítugt.
Þá er það upptalið. Ég myndi vilja hafa Samöru hjá mér og ýmsa fleiri úr hinum hópnum, allar stelpurnar eru þar, en það þýðir víst ekki að sýta það. Við byrjuðum í voice hjá Anne, það var mjög fínt, lágum mestallan tímann á gólfinu með fæturnar upp á stól og bækur undir höfðinu. Gerðum allskonar styrktar- og öndunaræfingar. Ef maður nær að slaka vel á í þessari stellingu í 15 mín, jafnast það á við klukkutíma svefn!
Svo var fyrsti movement tíminn hjá Crispin, það gekk vel, óttaðist að við þyrftum að fara að dansa ballett en sú varð raunin ekki. Við gerðum mikið af því að ganga, æfa okkur að bera okkur eftir mismunandi þjóðfélagsstöðu. Gerðum samt eina mjög óþægilega æfingu. Við vorum tvö og tvö saman og þurftum að standa svo þétt að við snertumst og horfast í augu. Ég lenti með Darren, nýja gaurnum, og það eina sem hann gat aulað út úr sér var "they are brown", alltsvo augun í mér. Ég tjáði honum frekar snúðugt að sú vitneskja væri mér þegar kunn og andaði léttar þegar þessi æfing var búin.
Eftir skólann fórum við flest á bar sem við fundum í nágrenninu. Það er nefninlega búið að flytja skólann og ekki er bar í nýja húsinu. Það var gaman hjá hópnum að sameinast á ný og Mel kom með þá hugmynd að setja upp lítið leikrit í endann janúar, og hafa svo partý á eftir. Leikritið er nokkurskonar barnaleikrit, undarleg útgáfa af öskubusku eftir Mel sjálfan. Hugmyndin er góð en ég er ekki viss um að handritið sé það. Mel finnst hann ráða svolítið miklu af því að hann er fullmenntaður leikari og svo er hann miklu eldri en við, það er frekar pirrandi. Fólki leist þó vel á þetta, það eru 10 hlutverk í leikritinu, en bara eitt kvenhlutverk, öskubuska sjálf. Fiona sagði samt strax að þetta yrði erfitt fyrir hana af því hún þyrfti að læra 12 mismunandi texta fyrir þá tólf leiklistarskóla sem hún ætlar að sækja um. Hún bætti þó samstundis við að það væri engin hæfari en hún til að leika öskubusku, því auðvitað þyrfti öskubuska að geta sungið. Eitthvað fékk hún dræmar undirtektir, þetta kemur allt í ljós bara.
Á morgun förum við í acting og þá kemur í ljós hvort að Justin eða Crispin verður minn leiklistarkennari. Sem betur fer er ekki eins mikið vandamál og ég hélt að komast í skólann. Það tekur svona 40 mín með þessum 2. strætóum.
Ég er að hugsa um að fara að leggja mig, vonandi öðlast ég styrk til að þola Fionu og Zoe í heilt ár.
P.S. Ég er viss um að þær tala ekkert skár um mig. Þær hafa aldrei yrt á mig, þær halda líklega að ég sé vangefin af því að ég tala ekki fullkona ensku..
<< Home