sunnudagur, október 24, 2004

Þetta er búið að vera frekar rólegur dagur hjá mér. Er búin að dingla mér í bænum bara, vildi ekki vera fyrir þegar fólkið kom að skoða. Það komu sem betur fer 5 í dag svo það er aldrei að vita nema þeim takist að selja fljótlega.
Fór svo í bíó áðan á Alfie með Jude Law, (hann lék sumsé í myndinni, hann kom ekki með mér á hana) mynd sem byrjaði ekki nógu vel en vann á og var bara nokkuð góð. Þegar ég kom heim beið mín afmæliskaka því Kristján á afmæli. Ég gerði henni góð skil og át svo nokkra þrista meðan ég talaði við foreldra mína og elskulegan litla bróður í síma.
Næsta vika kemur líklega til að vera nokkuð einmannaleg hjá mér því þeir fáu vinir sem ég á munu allir flýja land nema Soffía. Vonast til að fá hana til að gera eitthvað með mér um helgina. Skólinn mun þó halda mér uppi á morgun og hinn. Það er að segja ef ég kemst í hann, það er nefninlega búið að færa hann. Ég get ekki lengur tekið strætó beint svo ég þarf að skipta um strætó og hef ekki hugmynd um hvar á að fara út, slæmt. Svo verður hópnum skipt á morgun, er svolítið kvíðin útaf því.

Það er ekki búið að breyta tímanum, það verður ekki fyrr en næstu helgi svo ég er enn um sinn klukkutíma á undan ykkur á Íslandinu.
Á föstudaginn koma svo amma Kjartans og frænka hans og jafnaldra í heimsókn. Þær verða fram að þriðjudag og fá að sjálfsögðu afnot af herberginu mínu. Svona er maður góður eða eitthvað. Jæja geisp, ætla að halla mér.