Ég er með rosalega strengi eftir skólann síðustu tvo daga. Crispin leggur sérstaka áherslu á að leikari þurfi að vera í góðu formi og líkaminn sveigjanlegur. Við erum því búin að gera allskonar æfingar og teygjur þangað til við vorum farin að skjálfa og orðin rauð í framan. Crispin var þó sallarólegur og sagði að það virkaði ekki nema að það væri sárt.
Á mánudaginn fengum við líka texta ur Rómeó og Júlíu sem við eigum að læra fyrir næstu viku. Ég þurfti að vinna með Fionu í voice og við komumst ekkert áleiðis af því hún hélt að það þyrfti að útskýra allt fyrir vanvitanum mér. Alveg sama þó ég reyndi að segja henni að ég þyrfti engar útskýringar.
Í gær var Samara ansi illkvittin við mig. Ég var að vinna með henni. Hún átti að sitja í stól og ég gera allt sem hún sagði meðan hinir horfðu á. Hún lét mig meðal annars dansa og dilla rassinum, dansa ballett og deyja með óhljóðum, hlaupa spretthlaup um allt og syngja á íslensku eftir það. Hafði samt bara lúmskt gaman af þessu. Öllu verra var þegar ég lenti í hóp með Fionu og Chris. Við áttum að finna upp á eins mörgum óhefðbundnum hlutum sem hægt er að gera við stól og við gátum. Alltaf þegar ég fékk hugmynd reif Fiona af mér stólinn því að hennar mati var ekkert nógu gott nema eigin hugmyndir. Það væri nú gaman ef einhver myndi dangla hressilega í hana.
Það skemmtilegasta sem ég gerði í gær var með Ansley og Samöru í hóp. Við áttum að leika ævintýri án þess að hafa tal í því. Við lékum Rauðhettu, Ansley var úlfurinn, Samara amman og ég Rauðhetta. Það undarlegasta var að hvorugt þeirra hafði heyrt endinn um að veiðimaðurinn kæmi inn og skæri ömmu og Rauðhettu úr úlfsmaganum, og setti steina í staðinn. Þessvegna var endirinn eitthvað skrítinn hjá okkur, en það var í góðu lagi.
Í næstu viku eigum við að vera búin að kaupa Hamlet (verst að ég seldi mína) og við vinnum með leikritið hálftíma á viku. Verst hvað það er mikil heimavinna fyrir næstu viku því ég ætla óvart að skrópa. Tel ég mig hafa góða og gilda ástæðu fyrir því. Hann Mimmi minn ætlar nefninlega að koma á morgun og vera í viku. Það væri vægt til orða tekið að segja að ég hlakki til. Kjartan er líka orðinn mjög spenntur fyrir heimsókninni. Hann segir að þeir séu vinir af því að Styrmir hafi séð mynd af honum:)
Það er lítil hætta á að ég bloggi meðan á heimsókn stendur. Allavega ekki yfir helgina þar sem við verðum í húsinu hennar Habbýar. Habbý ætlar einmitt að fara með mig að versla á eftir svo ég geti sýnt húsmóðurhæfileikana.
Að lokum verð ég að segja að mér blöskrar heimska Bandaríkjamanna. Svo virðist sem Bush verði endurkjörinn. Ætla ekkert að rökstyðja þá skoðun mína nánar, að um heimsku sé að ræða, því ég tel það liggja beint við.
Til samanburðar skulum við ímynda okkur lítið land með um 300.000 íbúum. Á landi þessu hafði um árabil ríkt ríkisstjórn nokkur sem ekkert gerði fyrir fólkið í landinu. Jú, fyrir minnihlutahóp, þá vel stæðustu. Þessi ríkisstjórn hefði einnig svikið fólkið í landinu með því að segjast vera með stórþjóð í stríði. Þetta kom illa við landsmenn því þeir héldu að landið þeirra væri hlutlaust auk þess sem meirihluti landsmanna var á móti þessu stríði. Ímyndum okkur svo stjórnmálaflokk. Flokk sem hefði jafnrétti sem sína stefnu. Flokk sem vildi að allir hefðu það gott, og ættu nóg. Flokk sem myndi aldrei vera með stríði.
Svo kæmu kosningar og fólkið í landinu myndi kjósa yfir sig sömu ósköpin og áður. Ekki nóg með það heldur fengi þessi jafnréttisflokkur eitt minnsta fylgi af öllum flokkum. Þetta gæti aldrei gerst, eða hvað? Því ef svo er væri þessi ímyndaða þjóð ekkert annað en hræsnarar. Líkt og Bandaríkjamenn sem kjósa Bush. En það er líka það sem litla þjóðin vill vera, eins og Bandaríkin.
<< Home