sunnudagur, nóvember 14, 2004

Það er skyndilega kominn vetur hér í Edinborg. Ég hef nákvæma tímasetningu á þessum óboðna gesti, hann kom á föstudaginn. Það er orðið kalt, svona leiðinda vindur og ekki meira en 5 stiga hiti. Ég tek þessu þó af karlmennsku, eins og mér er lagið.
Það er langt síðan ég skrifaði hérna síðast, enda er ég búin að vera eins og brjálaður túristi, þeysandi um borgina. Við Styrmir skoðuðum meira að segja kastalann, hann var mjög flottur. Svo var labbað um gamla bæinn, Royal mile vitanlega. Fórum í bíó, Finding Neverland, hún er frábær. (Þú átt eftir að skemmta þér vel Sessý)
Á laugardagkvöldið fyrir viku fórum við í afmæli til Evu, þar var boðið upp á íslenskt lambalæri, ekki slæmt það. Svo var auðvitað frábært að hafa húsið hennar Habbýar, ég sýndi hæfileika mína í eldamennsku, indverskur kjúklingur, hvorki meira né minna. Hann var bara vel heppnaður hjá mér og Styrmir matvandi tróð í sig nokkrum bitum, lét eins og honum þætti hann góður en ég sá í gegn um hann.
Ég er aldeilis búin að háma í mig, íslenskt skyr, íslenskt kók og vatn ásamt ómissandi ostapoppi. Ekki nóg með það heldur sendu amma og afi í Hjarða nammisendingu og styrk sem kom sér mjög vel, bestu þakkir og koss til þeirra.

Þessi helgi er búin að vera mjög fín hjá mér. Soffía og ég fórum til Glasgow í gær, ég fylgdi Styrmi þangað líka á fimmtudaginn. Þetta var því tvisvar á 2. dögum, geri aðrir betur. Það var frábært hjá okkur Soffíu, ég eyddi öllum mínum peningum sem var minna frábært. Ég keypti mér kjól sem var frábærast. Því má segja um mig að ég sé: a) auli b) stjórnlaus í peningamálum og eyðandi í óþarfa c) stórgáfuð ung kona sem keypti nánast allar jólagjafirnar og vantaði kjól. Ég vel c) fyrir mína parta, það er víst.
Glasgow er frekar ljót borg miðað við Edinborg en samt gaman að koma þangað að versla. Jólaskrautið í verslunarmiðstöðvunum var svo yfirþyrmandi að það vakti undrun mína að fólk hreinlega hengdi sig ekki í því. Við Soffía létum það bara fram hjá okkur fara og ég hvatti hana til að kaupa sér tvenn pör af skóm. Þetta hefur greinilega verið henni erfitt því þegar við fórum á Burger King og hún var að henda ruslinu, lét hún sér það ekki nægja, heldu henti bakkanum með. Ég hló eins og vitleysingur, og er búin að gera góðlátlegt grín að henni síðan. Soffía er frábær.
Ég endaði svo gærdaginn á bíóferð með Evu þar sem við gláptum heillaðar á Mark Darcy í Bridget Jones. (Það getur reyndar verið að Eva hafi verið að horfa á Hugh Grant)

Í dag fórum við Kjartan heim til Soffíu, Önnu Vigdísar og dætra hennar þeirra Guðnýjar og Guðrúnar. Það var notalegt eins og alltaf og við Kjartan og Soffía héldum í bíó á Shark Tale. Eftir það fórum við öll heim á Darnell road og fengum heitt súkkulaði og nýbakaða kanilsnúða. Mjög gott í vetrarkuldanum.
Ég ætla að enda þetta á ansi merkilegum fréttum. Í ljós hefur komið að bróðir Sean Connery býr í sömu götu og Evu. Ég var svo heppin að sjá hann um daginn og bauð hann mér gott kvöld. Ég verð að segja að hann er mjög líkur bróður sínum. Nú verður amma Auður öfundsjúk.