fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Vikan er búin að vera ágæt þrátt fyrir skuggalegt peningaleysi. Meðal annars fór ég í fyrsta skipti á pöbb ásamt Áslaugu á sunnudagskvöldið. Það var mjög notalegt, við sátum og blöðruðum frá okkur allt vit í þrjá tíma. Það er nefninlega engin kaffihúsamenning hér (augljóslega þar sem Bretar drekka te) og því er ágætt að kynna sér pöbbana aðeins.
Skólinn var líka ágætur, reyndar dauðkvíði ég næsta tíma. Við eigum að læra byrjunina úr Rómeó og Júlíu utan að. Áttum að vera búin að því en komumst ekki yfir það. Engin nema Pam gat byrjað og mér brá rosalega þegar litli, sæti kennarinn minn hún Anne byrjaði að hrauna yfir hana. Hjálpi mér, hvað ætli henni finnist þá um minn framburð!?

Ég er aðeins byrjuð að svindla, fór til Evu um daginn og hún létti mitt geð með íslenskum jólalögum. Svo fékk ég lánaðan hjá henni diskinn því ég ætla að byrja að skrifa jólakort um helgina. Allt í einu er svo mikið að gera. Þarf að skrifa tvær Carminugreinar í ár, þetta er því þriðja árið í röð sem ég leggst við skriftir í þessum tilgangi. Ég hugsa að ég taki mér frí frá þessu á næsta ári. Auðvitað er gaman að skrifa um alla frábæru vinina sem ég á og ekki nema sjálfsagt, en þrjú ár í röð er nú alveg ágætt held ég:)

Ég er búin að þrífa í dag, aldeilis fínt að eiga frí á föstudagsmorgnum. Vona að það komi nú eitthvað af fólki að skoða í kvöld, það er að verða svolítið þreytandi að búa í fataskáp. Það jákvæða við þessar sífelldu gestakomur er að Ingibjörg leggst alltaf í bakstur og nýt ég góðs af. Vísu spurning um hversu jákvætt það er ef við hugsum um það ömurlega máltæki: "Í kjólinn, fyrir jólin." En það angrar mig ekki því ég beini hugsunum mínum á aðrar brautir.
Helgin framundan og ég veit ekkert hvað gera skal, reyni örugglega að plata þær Soffíu og Evu í einhver rólegheit með mér, sjónvarpsgláp jafnvel.