Loksins kemst ég inn á þessa síðu til að hripa niður nokkrar línur. Hef reynt síðustu daga en síðan hefur streist á móti og barist hetjulega. Ég vann þó að lokum eftir mikla baráttu.
Ég hef haft það ágætt síðustu daga. Hef ekki skrifað á nein jólakort, nenni því ekki, er ekki alveg búin með heimavinnuna mína, nenni því ekki. Hef samt farið þrisvar í ræktina frá því á föstudag svo ég er ekki algjör letingi.
Á föstudaginn gerðust þau merku tíðindi að Kristján og Ingibjörg fengu tilboð í húsið, sem þau tóku. Við erum sumsé búin að selja og ég hlýt þá að geta flutt út úr fataskápnum mínum og gefið herberginu svolítið persónulegra yfirbragð.
Helgin fór í mest lítið hjá mér. Passa á föstudagskvöldinu og svo með Soffíu hjá Habbý á laugardagskvöldinu. Eva kom líka til okkar með nammi, það var nú einu sinni laugardagur. Í gær gerði ég svolítið sem ég geri ekki aftur. Ég fór í messu, næstum ótilneydd. Trúleysinginn sjálfur. Þannig er mál með vexti að þetta var svona íslensk messa. Því fannst mér að ég þyrfti nú að kíkja á þetta til að vera virk í félagslífi Íslendinga. Því miður, þrátt fyrir að presturinn hafi verið ágætis maður, var þetta ótrúlega leiðinlegt. Það sem bjargaði þessu að einhverju leyti var Sæmsi Palli, klifrandi um allt í skotapilsinu sínu. Ég held að Kjartan hafi verið sammála mér, presturinn bað krakkana að koma upp þar sem hann talaði aðeins við þau og söng nokkur sígild lög eins og Djúp og breið. Kjartan setti samstundis upp skeifu og nokkru seinna fór hann að gráta, litla hetjan:) Sálmarnir sem voru sungnir voru skelfilega leiðinlegir og hátt uppi svo fólk missti röddina á fyrsta erindi. Þegar þessum ósköpum lauk fórum við að borða kökur, allir áttu að koma með eitthvað og viðurkenni ég fúslega að kökur þessar voru hin raunverulega ástæða fyrir komu minni.
Eftir þetta fórum við á Pr.st þar sem var búið að setja upp stórt parísarhjól sem við Ingibjörg og Kjartan fórum í og þar var Kjartan ekkert hræddur. Einnig er skautasvell þarna og þýskur jólamarkaður. Skoðaði aðeins með Evu og fjölskyldu og fór svo með þeim heim til þess að horfa á breiðtjaldið hennar Evu, það þótti okkur ekki leiðinlegt.
Það virðist allt vera að gerast helgina sem Sóla kemur til mín. Jólapartý hjá skólanum mínum, jólaboð hjá Evu og jólaball hjá Íslendingunum, það verður því nóg að gera hjá okkur.
Það eru um tvær ástæður fyrir að ég nenni að hanga í tölvu. Önnur er tilvera bloggsíðna, ótrúlega gaman að fylgjast með öllum og eiga duglegir bloggarar hrós skilið. Hin ástæðan er hin frábæra tækni msn. Þvílík snilld að geta blaðrað við vini og vandamenn tímunum saman, ókeypis. Það eru nokkrir sem nenna alltaf að tala við mig og eru ansi oft online. Þeim er ég öllum mjög þakklát og fá þeir hér heiðursorðu frá mér. Þeir eru; Afi og amma í Garðabæ, alltaf hægt að treysta á gott morgunspjall við þau, góð byrjun á deginum. Andri, frábær msn vinur og hægt að tala við hann um allt, hressandi. Faðir minn, ávallt reiðubúin fyrir einkadótturina, síðast en ekki síst er það Sessý frænka sem gleður mig alltaf með skondnum skrifum.
Jæja, þarf að fara að ná í Kjartan, svo er það skóli í kvöld.
<< Home