miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Gærdagurinn var hreint ekki einn af þessum góðu dögum, svona framan af. Ekki hjálpaði að ég var við það að gefa upp öndina af miklum líkamlegum sársauka sem ég kenni mánudagsleikfiminni um og stiganum hjá Evu.
Það rættist þó úr kvöldinu og var skólinn hinn mesta skemmtun. Crispin bauð okkur ótrúlegt tækifæri. Það var að koma í prufur fyrir leikrit sem sýnt verður frá janúar til júlí. Þetta er sýnt í skólum, aðallega fyrir börn frá 6-12 ára en einnig fyrir eldri nemendur. Held það sé um fleiri en eitt leikrit að ræða. Þetta er full vinna og ágætlega launað og mjög eftirsótt að komast í þetta. Umsækjendur þurfa að fara í gegnum allskonar ferli áður en þeir komast í prufuna en við fáum tækifæri til að fara beint í prufuna. Því miður get ég ekki nýtt mér þetta þar sem ég er ekki laus frá átta á morgnanna fram á kvöld. Þetta hefði samt verið gaman.
Einnig gerðist sá atburður í gær að maður nokkur kom og truflaði tímann hjá okkur. Hann var sendur af Anne, hinum kennaranum okkar, og vantaði hann leikara í stuttmynd sem hann var að gera. Hann tók niður nöfn og símanúmer hjá okkur, ég sagði honum þó að hann vildi örugglega ekki hafa íslenskan framburð í myndinni sinni en hann þvertók fyrir það og heimtaði að skrifa mig niður, ég var víst á réttum aldri. Svo bíð ég bara spennt eftir símhringingu. Fiona vildi reyndar meina að það væri eitthvað athugavert við manninn en við hin töldum að sú skoðun væri byggð á því að maðurinn hafi ekki sýnt henni neinn áhuga. Annars fékk hún makaleg málagjöld í gær manneskjan sú. Það er kannski barnalegt að segja frá þessu en of fyndið til að ég geti sleppt því. Við sátum öll, það var alveg þögn því Crispin var að tala þegar allt í einu heyrðist hátt fart hljóð sem greinilega kom frá Fionu. Það bergmálaði nánast í herberginu og allir snéru sér við og litu á Fionu. Hún varð eldrauð í framan og baðst afsökunar á þessu en við Dana áttum í mestu vandræðum með að halda niður í okkur hlátrinum.
Það eru bara þrjár vikur eftir af þessari önn og nóg að gera í skólanum. Í næstu viku eigum við að leika þá sem við eigum að vera búin að fylgjast með síðustu vikur. Ég valdi mér konu sem selur pylsur á Pr.street. Í vikunni þar á eftir er svona audition kvöld. Eigum að velja okkur eitthvað til að læra utan að og fara með. Svo er nóg af heimavinnu fyrir jólin. Það verður annað auditon í janúar, við fengum klassískan texta hjá Crispin sem við eigum að vinna með og læra yfir jólin. Einnig ætlar hann að láta okkur lesa leikrit yfir jólin en við fáum ekki að vita hvað það er fyrr en í síðustu vikunni fyrir jól því hann vill ekki að við fáum of mikinn tíma til undirbúnings. Eftir jól leikum við svo nokkur atriði úr þessu leikriti á sviði fyrir framan áhorfendur.

Hérna er smá bútur til ástkærra foreldra minna. Ég hef verið að hugsa um mat sem mig langar í um jólin og hefur meðal annars dottið í hug:
-makkarónusúpa, sagóvellingur og afagrautur. (Nægir kannski að fá grautinn á aðfangadag.)
-Pitsa frá greifanum og einnig Domino's
-Pylsur, aber ja
-Plokkfiskur
-Fajitas
-Kjöt í karrý eða kjötsúpa
-franskar frá skyndibitastað með frönskukryddi.
Einnig myndi ég þiggja, íslenskt vatn, kók, malt og appelsín ásamt sælgæti. Síðast en ekki síst Brynjuís.