föstudagur, apríl 27, 2007

Þá eru tvö próf af fimm búin og ekki get ég sagt að þau hafi verið ánægjuleg. Bókmenntasöguprófið var munnlegt og auðvitað fékk ég ekki þær spurningar sem ég var best í, gat nú samt alveg svarað flestu. Eftir að hafa farið aftur og aftur yfir það hvernig ég var í munnlega prófinu hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég var eins og hálfviti. Myndi ekki vilja sjá upptöku af þessu, ég var þó ekki að leika sverð eins og sumir;)

Próf númer tvö, í heimspekilegum forspjallsvísindum, var krossapróf. Það var langt frá því að vera gefins, var eiginlega bara frekar erfitt. Fyrir utan það er fagið það leiðinlegasta sem til er og ég er varla fær um að hugsa hálfa hugsun eftir þessi ósköp.

Framundan eru tvö gagnapróf sem ég kvíði mjög, beygingar- og orðmyndunarfræði og setninga- og merkingarfræði, á einnig eftir próf í málnotkun sem ég held að verði kökubiti eins og maðurinn sagði.

Að gleðilegri tíðindum. Ég er mjög líklega að fara til Noregs í sumar, tvisvar og það í frábærum félagskap. Fer með Leikhópinn Sögu frá því í fyrra og verð hópstjórinn þeirra. Held að allir ætli að koma með nema Kristjana sem ætlar að fjölga mannkyninu. Þetta verður algjör snilld, þarf fyrst að fara ein í júní og hitta hina hópstjórana og svo með hópinn í ágúst. Nú þarf ég bara að fá frí í vinnunni og yfirmaður minn er að skoða það fyrir mig.

12 dagar í síðasta próf og júróvísjon gleði framundan, vúhú!

föstudagur, apríl 13, 2007

Síðasta vika hefur verið aldeilis fín. Gott að komast til Akureyrar og slappa aðeins af, fara í fullt af matarboðum og fá páskaegg:) Það var líka rosalega gaman á Pöpunum og Brynja var klárlega brandari kvöldsins. Henni fannst gamli leigubílstjórinn okkar svo sætur að hún varð bara að klappa á kollinn á honum. Síðan spurði hún hann að nafni og bauðst til að borga í blíðu (reyndar bara með kossi) Fyrirgefðu Brynja mín, þú ert æði;)

Ég nenni að sjálfsögðu ekki að fara að læra, en það er ekki seinna vænna. Þrír kennsludagar eftir, gúlp (eins og segir í Andrésblöðunum)

Annars var ég að komast að því að ég er allt of góð fyrir Mimma og verð því að segja honum upp. Samkvæmt mjög svo áræðanlegu testi á netinu líkist ég mest Natalie Imbruglia, Halle Berry, Evangeline Lilly (Kate í Lost) Jessicu Alba og Helenu Christiansen.
Mimmi hins vegar líkist Bon Jovi, Jason Newsted og fullt af fleiri ljótum gaurum. Ljósu punktarnir eru Ethan Hawke og Michael Owen. Þó ekki nógu gott fyrir ofurfyrirsætuna mig, hehe;)

Að lokum, pabbi gamli er orðinn þvílíkt frægur. Farinn að koma í útvarpinu og svo birtist bloggið hans í Mogganum. Já held svei mér þá að hann sé nógu góður til að vera faðir slíkrar fegurðardísar;) Svo bíð ég bara eftir að sýslumaður gefi út handtökuskipun á hann, við celebin sko:)

þriðjudagur, apríl 03, 2007

Það er vor í lofti og mig langar mest að geta notið þess. Mig langar að taka eftir því þegar blóm byrja að springa út og trén verða aftur skrýdd laufi. Því miður á ég ekki eftir að gera það, ekki fyrr en 9. maí þegar ég lít í fyrsta skipti upp úr bókunum, grámygluleg og vansæl. Við tekur erfið bið eftir einkunnum sem virðast aldrei ætla að koma.

Þetta er það sem er að brjótast um í huga mínum og svona verður næsti mánuðurinn. Í dag ætla ég samt að fara að hitta Steinar, Margréti og Völu í hádegismat. Lifi Saga! Á morgun ætla ég að keyra norður, vopnuð páskaeggjahlunki sem mig svimar við að horfa á. Nokkrir dagar í matarboðum og gleði, reyndar líka lærdómi.

Þegar tími er til kominn að fara suður aftur leggst þunglyndið yfir mig og mun ég án efa blóta setningafræðinni í bölsýni minni.

Ó mig auma, hví er svo erfitt að vera ég?