þriðjudagur, apríl 03, 2007

Það er vor í lofti og mig langar mest að geta notið þess. Mig langar að taka eftir því þegar blóm byrja að springa út og trén verða aftur skrýdd laufi. Því miður á ég ekki eftir að gera það, ekki fyrr en 9. maí þegar ég lít í fyrsta skipti upp úr bókunum, grámygluleg og vansæl. Við tekur erfið bið eftir einkunnum sem virðast aldrei ætla að koma.

Þetta er það sem er að brjótast um í huga mínum og svona verður næsti mánuðurinn. Í dag ætla ég samt að fara að hitta Steinar, Margréti og Völu í hádegismat. Lifi Saga! Á morgun ætla ég að keyra norður, vopnuð páskaeggjahlunki sem mig svimar við að horfa á. Nokkrir dagar í matarboðum og gleði, reyndar líka lærdómi.

Þegar tími er til kominn að fara suður aftur leggst þunglyndið yfir mig og mun ég án efa blóta setningafræðinni í bölsýni minni.

Ó mig auma, hví er svo erfitt að vera ég?