miðvikudagur, janúar 31, 2007

Allt að gerast bara. Þorrablót á föstudagskvöldið heima hjá Ingu í góðra vina hópi. Hlakka mikið til:) Ég býst þó ekki við að leggja mér mikið annað til munns en hangikjöt og harðfisk, namminamm. Svo er Þorrablót Mímis á laugardag, spurning hvort maður láti sjá sig og skemmti sér með hinum íslenskunördunum.
Í dag flutti ég minn fyrsta fyrirlestur í Háskóla Íslands, þó ekki einsömul. Gekk það bara ansi vel, þótt ótrúlegt megi virðast hló enginn að norðlenskunni.
Í kvöld ætla ég að hitta hana Soffíu, ætlum meðal annars að bera saman Edinborgarferðirnar okkar en hún er nýlega komin heim.

Þú veist að þú ert íslenskunörd þegar:

*Þú veltir fyrir þér hvort er betra að tala um þágufallssýki eða þágufallshneigð

*Þér finnst Íslensk bókmenntasaga stórskemmtileg lesning.

*Þig dreymir um að komast í snertingu við skinnhandrit.

*Þér finnst brandarinn um þágufallssjúka manninn svo fyndinn að þú hlærð í nokkra daga.

*Þú heitir Álfhildur og finnst gaman að lesa í Orð.

*Þú heitir ekki Álfhildur en finnst samt gaman að lesa í Orð eða öðrum bindum Íslenskrar tungu.

*Þú tekur þátt í umræðum um innskeyti og viðskeyti af áhuga.

*Þú þráir að gerast áskrifandi að Íslensku máli og kaupa allt útgefið efni. Þér finnst 19.900 ekki mjög mikið fyrir það.

*Þér finnst innst inni leiðinlegt að pabbi þinn eigi öll bindin í Íslenskri bókmenntasögu og hafi lánað þér þau. Þig langar helst að eiga þau sjálf/ur.

*Þú talar ekki um að þú sért í íslensku, heldur að þú stundir nám í íslenskum fræðum.

*Þig dreymir um að æða ævinni í að leita að handritum með hjálp vinkonu þinnar Lilju sem er í fornleifafræði.

*Fleiri en eitt ofantaldra atriða á við þig.

Jebbs, ég er óumdeilanlega fallin, íslenskunörd í húð og hár!