föstudagur, nóvember 24, 2006

Elskulega bloggsíðan mín hefur verið frekar treg síðustu daga. Ég bloggaði um daginn og setti meira að segja inn glæsilega mynd af mér og Steinari við jólakortagerð. Síðan mín virðist bara alltaf mótmæla þegar ég reyni að birta myndir.

Ég er búin að panta flug norður um jólin. Er búin í síðasta prófinu klukkan 12 þann 20. desember og á flug klukkan 13:15. Mikið hlakka ég til að losna úr stressinu. Er einmitt búin að vera frekar stressuð síðustu daga, dreymdi í sífellu að ég fengi illilega sexu fyrir ljóðaritgerðina. Sem betur fer gekk það nú ekki alveg eftir. Nú er ég meira að segja búin með ritgerðina úr Aftureldingu og búin að skila henni, mikill léttir. Ég er svo loksins að fara í leikhús annað kvöld, hef ekkert farið síðan ég flutti suður. Ástæðan er reyndar sú að ég þarf að skrifa leikritagreiningu og fer því með skólanum. Ég fer þó allavega í leikhús.

Fór í gærkvöldi til Ástýjar og Ernu, þar var einnig hún Bára mín. Við skemmtum okkur mjög vel við að blaðra um heima og geima, meðal annars úthúðuðum við nágrönnum svona almennt. Bára ætlar svo að bjóða okkur heim fljótlega og af rausn sinni hyggst hún gefa okkur afleggjara af brjáluðu aloe vera plöntunni sinni. Bára er svo góð stúlka:)

Það er margt gleðilegt á döfinni, þar má helst nefna jólin og Edinborgarferðina. Malena Mina Johanna var einmitt að panta ferð til Edinborgar á sama tíma og ég verð þar. Þessi stúlka er algjör snillingur. Ég væri samt alveg til í að geta hlakkað til Rockstar tónleikana 1. des. Ég veit að Inga og Brynja eru að fara og ef ég fyndi 5000 kall á götunni væri ég líka að fara. Ég bíð bara eftir kraftaverki.

Að lokum skal taka fram að þið getið hætt að hafa áhyggjur af okkur. Við erum loksins komin á vetrardekk þökk sé Jóni Ágústi. Kærar þakkir fyrir það Jón.