miðvikudagur, október 18, 2006

Eins og margir vita brá ég mér norður um helgina. Sú ferð var mjög góð og tókst mér að gera um það bil allt sem ég ætlaði mér, nema þá helst læra. Fimmtudeginum eyddi ég í heimsóknir auk þess sem ég fór út að borða með föður mínum og bróður. Að vísu var gamli eitthvað aumur í ökklanum eftir fótbolta og kveinkaði sér því ógurlega. Það vakti þó ekki mikla athygli því freku drykkjusvolarnir á næsta borði fengu óskipta athygli, með því að vera nógu andskoti leiðinlegir.

Ég vaknaði á föstudeginum að farast úr spennu. Það var komið að því að kíkja á Pálmholt. Það var svo frábært að hitta börnin aftur. Ég fékk líka að heyra alls konar sögur frá kennurunum. Einn hafði hlakkað meira til að sjá mig um jólin en að fá pakka, mörg töluðu oft um hvað ég væri alltaf fínt klædd, ein stúlkan spurði kennarann sinn hvort hann ætti ekki pils og fleira og fleira. Ég var þarna í rúmlega þrjá klukkutíma. Ég las fyrir börnin, lék við þau, hjálpaði þeim í útifötin, huggaði þau ef þau meiddu sig. Þau sögðu mér hvað þau hefðu saknað mín mikið og spurðu erfiðra spurninga. Til dæmis: "Afhverju ertu hætt? Þú átt ekki að fara í skóla, Ég vil ekki að þú sért í Reykjavík, Verðuru hjá okkur í sumar?" og hjartað á mér kramdist örlítið meira við hverja spurningu. Tveir gullmolar sögðu mér að þeir hefðu farið í Auðarleik. Þegar ég spurði nánar útskýrðu þeir að hann væri mjög skemmtilegur og að það væri til þess að þeir gleymdu mér aldrei. Nokkur tár féllu þegar ég loksins fór og mér leið svolítið eins og glæpamanni. Til að jafna mig á þessu öllu fór ég með bróður mínum í bakarí og kaffihús og loks í klippingu. Um kvöldið fórum við svo ásamt gamla í kjötsúpu til ömmu og afa, ekki slæmt. Þá var komið að því að leikklúbburinn Saga sameinaðist á ný. Reyndar gátu Margrét og Kristjana ekki verið með þar sem þær voru í Reykjavík en afgangurinn mætti. Við ákváðum að fara á Karó en viti menn. Það er orðið 20 ára aldurstakmark þar. Sunna ákvað þá að bjóða okkur heim til sín og við röltum af stað. Þegar komum að húsinu fór Sunna allt í einu að velta fyrir sér hvernig hún ætti að koma bróður sínum út sem og partýgestum hans. Upp kom sú hugmynd að Vala væri að koma út úr skápnum og væri í krísu en Vala var ekki tilbúin að fórna sér í það. Að lokum ákvað Vala að fara inn grenjandi og læsa sig inn á klósetti meðan við hin stæðum grafalvarleg á svipinn og bönkuðum á hurðina. Vala fór inn en við vorum enn í hláturskasti fyrir utan og tókst ekki að vera alvarleg. Allt í einu kom Vala til baka og sagði að það væri læst á klósettinu. Þá sprungum við algjörlega en Vala tók sig til og fór að gráta hástöfum. Við hin tókum okkur saman í andlitinu og gengum inn. Ég og Steinar þóttumst hugga Völu meðan Sunna talaði við bróður sinn. Bróðirinn tæmdi húsið á meðan Sunna sagði alvarleg í bragði að það væri ekki allt í lagi með Völu, á meðan stakk hún hvítvínsflösku í kæli. Bróðirinn var svolitla stund að fara svo við biðum hlæjandi inn í herbergi. Að lokum fór hann og Sunna sagði hátíðlega "Þetta er ástæðan fyrir að maður gengur í leikfélag" Kvöldið var svo mjög gott, Salka og vinkona hennar komu sem og vinur Steinars. Við sátum og spjölluðum og sötruðum hvítvín. Það kom í ljós að ekki hafa allir meðlimir Sögu setið auðum höndum í sumar:)


Á laugardaginn kom Styrmir fljúgandi og ég horfði á helling af Andrésarþáttum. Um kvöldið fórum við í mat til tengdó í tilefni afmælis Örnu. Ég endaði svo kvöldið á bíóferð með Sunnu sem ætlar að koma í lok október. Svei mér þá ef það verða ekki allir meðlimir Sögu hér þá sem þýðir aðeins eitt. Partý gott fólk, þarf líka að fara halda eitt svoleiðis eftir að hafa frestaðð hinu. Svo keyrðum við bara suður á sunnudeginum og Steinar, þú ert mjög skemmtilegur ferðafélagi. Þið sem vissuð afhverju ég þurfti að fara norður (til að strekkja á spengunum) verðið eflaust glöð að heyra að þær eru farnar:)

Jæja, það er verkefnavika og ég er í vondum málum. Ljóðaritgerðin, hrollur...